Mikilvægir Martin Hermannsson og Tryggvi Snær Hlinason eru meðal þeirra sem Logi Gunnarsson nefnir að hafi stigið upp í sigrinum á Ungverjum.
Mikilvægir Martin Hermannsson og Tryggvi Snær Hlinason eru meðal þeirra sem Logi Gunnarsson nefnir að hafi stigið upp í sigrinum á Ungverjum. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Ég var rosalega ánægður með að við skyldum byrja þennan riðil á sigri. Þetta var í raun mikilvægasti leikur riðilsins, heimaleikurinn á móti liðinu sem við erum mögulega að keppa við um þriðja sætið,“ sagði Logi Gunnarsson, fyrrverandi…

Undankeppni EM

Gunnar Egill Daníelsson

gunnaregill@mbl.is

„Ég var rosalega ánægður með að við skyldum byrja þennan riðil á sigri. Þetta var í raun mikilvægasti leikur riðilsins, heimaleikurinn á móti liðinu sem við erum mögulega að keppa við um þriðja sætið,“ sagði Logi Gunnarsson, fyrrverandi landsliðs- og atvinnumaður í körfuknattleik, um sigur karlalandsliðsins á Ungverjalandi í 1. umferð B-riðils undankeppni EM 2025 á fimmtudagskvöld.

Þrjú af fjórum liðum riðilsins fara beint á Evrópumótið og er hver sigur í honum því geysilega mikilvægur.

„Þetta var risaskref að vinna þá með leik sem við erum ekki vanir að spila. Þetta var hægur körfuboltaleikur með lágu skori.

Ég var svolítið hræddur í fyrri hálfleik þegar við vorum frekar hægir og staðir en svo fannst mér okkar lykilmenn stíga upp í seinni hálfleik þegar þeir náðu þessu góða forskoti í fjórða leikhluta. Ég var mjög ánægður með það,“ hélt Logi áfram.

Fjórir stigu upp

Ísland vann leikinn 70:65 eftir frábæran fjórða leikhluta. Fram að því hafði spilamennska liðsins ekki verið sem best.

„Í fyrsta lagi var spilandinn ekkert rosalega góður í leiknum í heild. Ungverjarnir virtust vera vel undirbúnir í varnarleiknum og voru svolítið að loka á okkur og stöðva hraðann okkar.

En það sem mér fannst standa upp úr var þessir leikmenn sem stigu upp í seinni hálfleiknum, eins og Kiddi Páls [Kristinn Pálsson], Martin [Hermannsson], Elvar [Már Friðriksson] og Tryggvi [Snær Hlinason]. Þessi fjórir voru þeir sem skinu skærast í leiknum.

Það voru engin sérstök atriði heldur þessi kafli sem við náum þegar við tökum níu stiga forskot í seinni hálfleik. Það er svona það áhlaup sem skilar sigrinum og það að gefast ekki upp þó að okkar stíll hafi ekki verið allsráðandi.

Þeir fóru ekki í einhvern örvæntingarham þó að leikurinn væri að spilast öðruvísi en við vildum. Við viljum aðeins meiri hraða og viljum reyna að nýta hann.

Ég var ánægður með hvernig þeir héldu haus þó að leikurinn væri ekki alveg eins og við myndum vilja hafa hann. Það var svona mín upplifun,“ sagði Logi um hvað honum þótti jákvætt í leik Íslands.

Ákveðinn skóli fyrir liðið

Næsta verkefni Íslands í riðlinum er strax á morgun, sunnudag, gegn Tyrklandi í Istanbúl.

„Það er alltaf erfitt að fara strax eftir leik í langt ferðalag til svona stórþjóðar eins og Tyrkir eru og spila á útivelli við þá. En ég held að við verðum bara að njóta augnabliksins.

Að spila á móti svona sterkri þjóð á útivelli er geggjuð upplifun fyrir strákana. Þeir þekkja þetta sem hafa verið í þessu, þeir sem eru í liðinu núna hafa gert þetta oft.

Það er ákveðinn skóli fyrir liðið að fara á erfiðan útivöll og reyna að gera eitthvað, reyna að stríða þeim,“ sagði hann um leikinn á morgun.

Allt getur gerst

„Maður veit aldrei, við erum komnir með það góða leikmenn að við getum alveg stolið einum útileik þó að það sé langsótt og stuðullinn mögulega mjög hár á okkur.

Mér líst vel á hópinn. Hver einasti leikur skiptir líka máli upp á að spila saman. Þeir fara þarna út og fá að spila á móti einni bestu þjóð í Evrópu, máta sig við hana og fá eins marga leiki saman og hægt er.

Til dæmis hvað Martin varðar, sem er búinn að vera lengi frá. Það skiptir máli að fá heilan leik í viðbót með honum núna og hvað veit maður? Ef þeir eiga stórleik getur allt gerst.

Það er mikilvægt að það sé stígandi í okkar leik. Ef við eigum góðan leik þarna úti, hver sem úrslitin verða, þá er það jákvætt fyrir okkur því við vorum svolítið hægir gegn Ungverjum.

Ef við náum aðeins að bæta ákveðna hluti frá þeim leik erum við samt komnir með gott veganesti inn í restina af riðlinum þó að leikurinn á sunnudag vinnist kannski ekki,“ sagði Logi að lokum.