Svo virðist sem menning og ákvarðanir innan stofnunarinnar ráðist oftar af skapandi túlkun en að vera í anda stjórnvaldsákvarðana og þeirra grundvallarreglna sem um þær gilda.

Ágúst Karl Guðmundsson – KPMG Law Kristinn Jónasson - KPMG Law Garðar Gíslason - IUS Law Bjarnfreður Ólafsson – Logos Páll Jóhannesson – BBA // Fjeldco Haraldur Ingi Birgisson – Deloitte Legal Jón Ingi Ingibergsson – PwC á Íslandi Vala Valtýsdóttir – Lögfræðistofa Reykjavíkur Ragnar Guðmundsson – Advel

Við sem störfum við ráðgjöf í skattamálum og höfum fylgst með þróuninni undanfarin ár höfum tekið eftir miklum breytingum til hins verra þegar kemur að skatteftirliti og –framkvæmd. Í stuttu máli eru ákvarðanir Skattsins oftar ófyrirsjáanlegar, tilviljanakenndar og horfið er frá áratugalangri skattframkvæmd, án þess að skattalög hafi tekið nokkrum breytingum. Þannig hefur Skatturinn tekið upp á sitt einsdæmi að breyta skattframkvæmd án sýnilegrar ástæðu og án aðkomu löggjafans, með tilheyrandi óvissu fyrir fólk og fyrirtæki. Eftir eyðimerkurgöngu í greipum Skattsins hafa einhverjir þolinmæði og bolmagn í að skjóta málum til æðra setts stjórnvalds eða dómstóla í von um að njóta lögmætrar og sanngjarnar málsmeðferðar við úrlausn skattalegra álitaefna. Það er þó fjarri að ætla að það sé á höndum allra að leggja í slíka vegferð sem er talin í árum með tilheyrandi kostnaði. Þessi breyttu vinnubrögð Skattsins, þar sem gengið er gegn áratugalangri skattframkvæmd, auka áhættu í viðskiptum á Íslandi og draga úr verðmætasköpun. Við töpum öll á því.

Skapandi túlkun eða stjórnvaldsákvarðanir?

Embætti skattrannsóknarstjóra, ríkisskattstjóra og Tollsins hafa nýverið sameinast, með hagræðingu og aukna skilvirkni að leiðarljósi. Skatturinn hefur á undanförnum árum fjölgað starfsmönnum sem annast eftirlitshlutverk embættisins en á því tímabili hefur óvissa í skattframkvæmd aukist mikið með breyttri túlkun skattalaga, sem oft og tíðum ber merki um skort á þekkingu á dóma- og úrskurðaframkvæmd á sviði skattaréttar. Fréttir af bónuskerfi starfsmanna Skattsins, sem meðal annars nær til starfsmanna sem annast um eftirlit, rannsóknir og endurákvarðanir skatta á grundvelli þeirra, sá enn frekari fræjum efasemda um vinnubrögðin. Svo virðist sem menning og ákvarðanir innan stofnunarinnar ráðist oftar af skapandi túlkun en að vera í anda stjórnvaldsákvarðana og þeirra grundvallarreglna sem um þær gilda.

Hér eru nokkur atriði sem undirritaðir skattasérfræðingar hafa orðið vitni að í samskiptum sínum við Skattinn og þekkja til að fleiri hafi sömu sögu að segja.

Ákvarðanir Skattsins þar sem fallið er frá áratugalangri skattframkvæmd án þess að viðeigandi ákvæði skattalaga hafi tekið nokkrum breytingum. Málshraðaregla er virt að vettugi í skjóli afsakana um flækjustig, misbresti embættisins í eldri málum, veikindi og undirmönnun hjá embættinu.

Það getur tekið Skattinn nokkur ár að afgreiða mál og er vísað til þess að málin séu umfangsmeiri, flóknari og að hærri fjárhæðir séu undir. Þetta hefur leitt til þess að fyrirtæki leggja einfaldlega upp laupana og hætta starfsemi meðan þau bíða afgreiðslu Skattsins, t.d. vegna skráningar á virðisaukaskattsskrá eða eftir afgreiðslu skatterinda. Dæmin sýna að þetta horfir sérstaklega svona við þegar um er að ræða íslensk fyrirtæki sem stunda viðskipti við aðila í öðrum löndum eða dótturfélög erlendra fyrirtækja sem stofnuð eru vegna fjárfestinga eða viðskipta hér á landi.

Þess eru dæmi að Skatturinn skapi eigin málsmeðferðarreglur og setji fram ný skilyrði fyrir skattákvörðunum með tilvísun til ríkulegra heimilda embættisins til gagna- og upplýsingaöflunar. Vinnubrögð af þessum toga bera trauðla merki um lögmæta, gagnsæja og vandaða stjórnsýslu.

Töpuð tækifæri vegna áhættu

Skattgreiðendur velta því reglulega fyrir sér hver ábyrgð Skattsins er í þeim tilfellum þegar æðra stjórnvald eða dómstólar snúa við ákvörðunum embættisins, sem hafa verið mánuði eða jafnvel ár að velkjast um í kerfinu. Í framkvæmd hefur embættið ekki þurft að bera neina ábyrgð þrátt fyrir að fjártjón viðkomandi skattgreiðenda hafi verið töluvert, að ekki sé nefndur sá miski sem einstaklingum hefur verið gerður að þurfa að sæta því af tilefnislausu að vera undirsettir íþyngjandi málsmeðferð Skattsins, jafnvel með réttarstöðu sakborninga, árum saman. Stjórnsýsluframkvæmd þar sem gjaldendum stendur ógn af ófyrirséðum breytingum á túlkun gildandi réttar vegur að orðspori íslensks viðskiptalífs og hamlar framþróun, fjárfestingum og nýsköpun í landinu. Í þessu samhengi er vert að nefna að skattasérfræðingar vita til þess að fyrirtæki sem hafa látið áhættumeta starfsemi sína og matsfyrirtæki hafa ályktað sem svo að ófyrirséðar breytingar og óvissa í íslensku skattumhverfi séu einn stærsti áhættuþátturinn í rekstri fyrirtækjanna.

Fjármála- og efnahagsráðherra ber ábyrgð á starfsemi Skattsins og viljum við hvetja til viðeigandi ráðstafana til að endurvekja traust. Leita þarf leiða til að auka fyrirsjáanleika í íslensku skattumhverfi og væri rétt að ráðherra skipaði breiðan hóp til þess að vinna tillögur í þeim anda.

Höfundar eru lögmenn.
Ágúst Karl Guðmundsson, KPMG Law.

Bjarnfreður Ólafsson, Logos.

Garðar Gíslason, IUS Law.

Haraldur Ingi Birgisson, Deloitte Legal.

Jón Ingi Ingibergsson, PwC á Íslandi.

Kristinn Jónasson, KPMG Law.

Páll Jóhannesson, BBA // Fjeldco.

Ragnar Guðmundsson, Advel.

Vala Valtýsdóttir, Lögfræðistofa Reykjavíkur.

Höfundar eru lögmenn. Ágúst Karl Guðmundsson, KPMG Law. Bjarnfreður Ólafsson, Logos. Garðar Gíslason, IUS Law. Haraldur Ingi Birgisson, Deloitte Legal. Jón Ingi Ingibergsson, PwC á Íslandi. Kristinn Jónasson, KPMG Law. Páll Jóhannesson, BBA // Fjeldco. Ragnar Guðmundsson, Advel. Vala Valtýsdóttir, Lögfræðistofa Reykjavíkur.