Margir eiga sér draum um að komast á Bessastaði og ana í forsetaframboð þótt eftirspurn eftir þeim sé nánast engin. Þeir láta sér ekki segjast.
Margir eiga sér draum um að komast á Bessastaði og ana í forsetaframboð þótt eftirspurn eftir þeim sé nánast engin. Þeir láta sér ekki segjast. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Óskandi væri samt að vitleysisgangurinn, sem hefst í hvert sinn sem tilkynnt er um forsetakosningar, verði stöðvaður.

Sjónarhorn

Kolbrún Bergþórsdóttir

kolbrun@mbl.is

Forseti Íslands er meðal æðstu fulltrúa þjóðarinnar. Virðing ætti því að umlykja alla umgjörð embættisins en svo er þó ekki. Við þurfum ekki annað en að líta á þá einstaklinga sem stukku fram svo að segja samstundis eftir að Guðni Th. Jóhannesson tilkynnti að hann hygði ekki á endurkjör. Raunsætt mat er að enginn þessara einstaklinga eigi nokkurt erindi í forsetaembættið. Það að þeir skuli ekki hafa áttað sig á því er dapurlegt fyrir þá en líka sorglegt fyrir þjóðina. Vonandi hafa einhverjir leitast við að sýna þessum gerviframbjóðendum fram á getuleysi þeirra til að takast á við embættið. Frambjóðendurnir virðast þó því miður ekki þeirrar gerðar að taka mark á gagnrýni sem snýr að þeim sjálfum.

Það er afar mikilvægt fyrir hvern einstakling að gera sér grein fyrir takmörkunum sínum. Geri hann það ekki getur hann orðið vandræðalegt dæmi um manneskju sem ofmetur sárlega eigin getu. Þegar kemur að forsetakosningum hafa dæmi um þetta blasað of lengi við landsmönnum.

Það er til vansa að hver sem er geti safnað ævintýralega fáum meðmælendum á lista og þannig orðið forsetaframbjóðandi. Þjóðin sér þennan fáránleika og er ósátt við hann en ekkert breytist. Afleiðingin er sú að fólk fórnar höndum og spyr áhyggjufullt: Verða þessar forsetakosningar ekki bara farsi? Ætlar enginn almennilegur frambjóðandi að stíga fram?

Góðu fréttirnar eru þær að alvöruframbjóðendur munu koma fram, ekki margir en þess þarf heldur ekki. Okkur vantar bara einn almennilegan forseta.

Óskandi væri samt að vitleysisgangurinn, sem hefst í hvert sinn sem tilkynnt er um forsetakosningar, verði stöðvaður því hann er vanvirðing við embætti sem á að vera virðulegt og ekki byggjast á skringilegum gjörningum einstaklinga sem af mismunandi ástæðum, en flestum fáránlegum, telja sig vera forsetaefni.

Auðvitað á forseti þjóðarinnar að búa yfir reynslu, þroska og þekkingu. Þess vegna skilur maður ekki alveg hvað þremur þingmönnum Framsóknarflokks gengur til með frumvarpi þess efnis að fella niður 35 ára aldurstakmarkið um kjörgengi til forseta. Þannig gæti 18 ára unglingur safnað meðmælendum og komið sér í forsetaslag. Hafa þingmenn Framsóknarflokks virkilega ekkert þarfara við tíma sinn að gera en að leggja fram frumvarp eins og þetta?

Þjóðin hefur átt góða forseta sem hafa allir mótað embættið á sinn hátt og haft áhrif á ýmsa vegu en alltaf til góðs. Það stóð styr um Ólaf Ragnar Grímsson sem tók djarfar ákvarðanir í embætti sem sumum fannst ekki við hæfi af forseta. Hann var stjórnmálamaður á Bessastöðum en það var ekkert verra á þeim tíma og kannski að mörgu leyti nauðsynlegt.

Það er órói í þjóðfélaginu, grasserandi óánægja og þras. Ófriður ríkir víða um heim, stríða geisa og gætu hæglega breiðst út. Einhverjir segja að talið um forseta sem sameiningartákn sé gamaldags en það hlýtur þó alltaf að vera pláss fyrir gáfaða einstaklinga sem vilja þjóð sinni vel, hafa góð sambönd mjög víða og eru lagnir við að leita lausna. Það væri mikið lán ef slíkur einstaklingur stigi fram og byði sig fram til forseta.

Forsetaframbjóðandi á ekki að dekra við eigin hégóma heldur sækjast eftir embættinu í trausti þess að hann geti unnið þjóðinni gagn. Hann á að vera raunsær mannsættir og slyngur greinandi í þjóðfélagsmálum. Við þurfum ekki forseta sem er eins og gangandi Dale Carnegie-námskeið, talar í frösum sem kunna að hljóma vel en segja samt nákvæmlega ekki neitt sem skiptir raunverulegu máli.

Ungir karlmenn hafa stigið fram, einn fyrir örfáum mánuðum og annar nýlega. Þeir eru þekktir og telja sig vera forsetaefni en bæta við að tíminn sé ekki núna heldur seinna. Það nægir ekki að einstaklingur eigi sér sjálfhverfan draum um að komast á Bessastaði. Hann þarf að hafa burði til að sinna embættinu og vilja til að gera gagn. Eins og góður maður sagði nýlega: Maður fer ekki í forsetaframboð fyrir sjálfan sig.