Stríðandi fylkingar Margeir Pétursson hefur búið í Lvív í Úkraínu um árabil og er vel kunnugur samfélagi sem í dag hefur búið við stríðsástand í tvö ár.
Stríðandi fylkingar Margeir Pétursson hefur búið í Lvív í Úkraínu um árabil og er vel kunnugur samfélagi sem í dag hefur búið við stríðsástand í tvö ár.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Almenningur í Úkraínu trúði því almennt ekki að Rússar réðust inn í landið 24. febrúar 2022,“ rifjar Margeir Pétursson, bankamaður í Lvív í Úkraínu, upp í samtali við Morgunblaðið. „Menn töldu að Rússar væru að reyna að fá…

Viðtal

Atli Steinn Guðmundsson

atlisteinn@mbl.is

„Almenningur í Úkraínu trúði því almennt ekki að Rússar réðust inn í landið 24. febrúar 2022,“ rifjar Margeir Pétursson, bankamaður í Lvív í Úkraínu, upp í samtali við Morgunblaðið.

„Menn töldu að Rússar væru að reyna að fá eitthvað fram með þessum liðssöfnuði, en þeir létu til skarar skríða og þá náttúrulega gjörbreyttist allt í landinu,“ heldur Margeir áfram en hann hefur haldið meira og minna til í Úkraínu síðastliðin tólf ár.

Mikið öngþveiti hafi skapast þegar fyrstu sprengjurnar sprungu og fólk streymt út úr landinu. „Allt daglegt líf fólks breyttist og ég man mjög vel eftir þessum morgni sem var mjög sláandi,“ rifjar Margeir upp og segir frá miklum biðröðum við hraðbanka annars vegar og skráningarstöðvar hersins hins vegar. „Mjög margir voru tilbúnir að verja landið.“

Rússar hafi þegar í upphafi ráðist á höfuðborgina Kænugarð og ætlað að sölsa undir sig völdin þar. „Þeirri árás var hrundið af mikilli dirfsku og hugkvæmni. Úkraínumenn hlustuðu á viðvaranir Bandaríkjamanna þar að lútandi, en þetta sýndi líka hve illa undirbúnir Rússar voru og hve rangar upplýsingar þeir höfðu,“ segir bankamaðurinn.

Létu ekki beygja sig

Hafi Rússar búist við miklum stuðningi Úkraínumanna en þær væntingar verið byggðar alfarið á sandi. „Þeir höfðu hann bara alls ekki, ekki einu sinni í hreinum rússneskumælandi borgum eins og Karkív. Þetta var einhver algjör misskilningur, að þeir væru að frelsa Úkraínu,“ segir Margeir.

Rússneski herinn hafi verið algjörlega óundirbúinn fyrir alvörumótspyrnu en þó náð árangri í suðurhluta landsins þar sem innrásarher kom frá Krímskaganum og réðst inn í tvö mikilvæg héruð, Kerson í vestri og Saporisjía í austri.

„Það varð svo ljóst að Rússar kæmust ekkert mikið lengra en þeir komust í upphafi við það að koma úkraínska hernum töluvert mikið á óvart. Varnirnar við Krímskaga voru náttúrulega ekki í lagi. En eftir tvo-þrjá mánuði var það orðið ljóst að Rússar væru ekki að fara að sölsa stóra hluta landsins undir sig, mikil hernaðaraðstoð barst frá Vesturlöndum sem bætti stöðugt í og sýnt þótti að Úkraínumenn væru ekki að fara að láta beygja sig,“ segir Margeir og bætir því við úkraínska þjóðin sé mjög trúverðugur aðili til að berjast gegn ofríki og harðstjórn.

Óvænt skyndisókn Úkraínumanna á ofanverðu ári 2022 hafi svo skilað þeim til baka hátt í helmingi þess lands sem Rússar tóku í innrásinni í febrúar. „Upp úr því kviknaði mikil bjartsýni og á þessum degi fyrir ári voru menn með sigra undir beltinu Úkraínumegin og allir voru bjartsýnir á að þeir fengju öflug vopn í hendur og tækist með mikilli sumargagnsókn að frelsa það sem eftir var af herteknu svæðunum,“ rifjar Margeir upp.

Átak til fjölgunar í hernum

Þær áætlanir gengu þó ekki sem skyldi eins og kunnugt er og fjölmiðlaneytendur þekkja. „Engu að síður náðist heilmikill árangur og Svartahafsfloti Rússa var lamaður. Úkraínumenn geta núna notað höfnina í Ódessu. Rússar reyndu að lama Úkraínu efnahagslega með því að koma í veg fyrir að þeir gætu flutt út landbúnaðarafurðir á stórum skipum en það er hægt í dag og var mikill áfangi,“ segir hann.

Margeir telur bjartsýnina hafa verið allt of mikla fyrir ári en það hefur að hans mati snúist rækilega. „Núna eru menn hins vegar allt of svartsýnir en því miður lítur ekki út fyrir annað en að þetta verði langvinnt stríð og virðist ekki vera mikið í pípunum á þessu ári,“ segir hann.

Úkraínumenn byggja nú upp hergagnaiðnað þar sem drónaframleiðsla vegur þungt auk þess sem Margeir segir nú mikið átak standa yfir við að fjölga í hernum en ásóknin sé langt frá því að vera lík því sem var fyrstu daga stríðsins. „Auðvitað þekkja flestir einhverja sem hafa fallið eða særst illa og þeir sem vildu fara í herinn og brunnu fyrir það eru allir löngu farnir. Allir vita líka að aðstæður á vígstöðvunum eru mjög slæmar og það þýðir ekkert að senda óþjálfaða menn þangað. Nú hefur verið gert gríðarlegt átak í þjálfun hermanna erlendis og mikill hluti hersins hefur verið í þjálfun í Þýskalandi, Bretlandi og Bandaríkjunum,“ segir Margeir.

Vantaði sárlega rafmagn

Hvernig er þá daglega lífið í Úkraínu núna, til dæmis hjá þér í Lvív?

„Það varð algjört stopp fyrst eftir innrásina sem svo lagaðist þegar leið á árið 2022, en segja má að allt hafi gengið nokkuð eðlilega fyrir sig í vesturhluta landsins. Bankar eru að lána og fyrirtæki að fjárfesta, litið er á vesturhlutann sem mjög öruggan. Í Kænugarði gengur lífið líka sinn vanagang en það eru miklu fleiri árásir gerðar á Kænugarð en nokkurn tímann á Lvív,“ segir Margeir.

Yfirstandandi vetur hafi verið mun skaplegri en sá síðasti þegar á ýmsu gekk og undir hælinn var lagt hvort rafmagn bærist notendum. „Þá voru orkuver sprengd og vantaði sárlega rafmagn og hita sem var mjög bagalegt, maður var kannski með rafmagn hálfan daginn og þurfti þá að fara á netið og athuga hvenær maður væri með rafmagn, það var í fjögurra tíma gluggum. Þetta var hvimleitt en alveg hægt að lifa við það,“ rifjar Margeir upp.

Varaaflstöðvar hafi á þessum tíma selst sem heitar lummur, ekki síst til fyrirtækja, og átti banki Margeirs sér öfluga varastöð fyrir. „Þannig að bankinn fór aldrei niður. Núna í vetur var hins vegar ekkert svona, ég man ekki eftir að rafmagnið hafi farið í vetur,“ segir hann.

En hvernig er standið á hinum almenna borgara, er fólk ekki orðið langþreytt á þessu ástandi, stríðinu?

„Í Vestur-Úkraínu finna menn aðallega fyrir þessu með þeim hætti að hermenn koma þangað í frí og eru þá þar á götum og í sínum skálum og eru mjög sýnilegir. Þetta eru mjög prúðir menn að sjá og engin vandræði í kringum þá en auðvitað er fólk orðið langþreytt. Svo eru þessar heiðursjarðarfarir nánast á hverjum degi og mjög sorglegt að fylgjast með þeim. Líkfylgdirnar fara þá gegnum borgina og borgarstjórnin og íbúar votta hinum látnu virðingu sína áður en þeir eru lagðir til hvílu í heiðursgrafreit rétt fyrir utan miðbæinn,“ lýsir Margeir.

Hann segir Úkraínumenn mjög stolta af þjóðerni sínu, stríðið hafi þjappað þjóðinni mikið saman. „Talsverður hluti Úkraínumanna er með rússnesku sem móðurmál, en nú er það fólk farið að tala úkraínsku í mun meira mæli en áður. Það hefur eiginlega enginn náð að sameina úkraínsku þjóðina meira en Pútín,“ segir Margeir af Rússlandsforsetanum umdeilda.

Snuprur frá miðaldra konu

„Ég var nýlega að tala við félaga minn sem er vanur að tala við mig á rússnesku og þá kemur til okkar virðuleg miðaldra kona og fer að skamma okkur,“ segir Margeir frá, „hann útskýrði fyrir henni að ég væri útlendingur sem væri enn að læra úkraínsku. Ég get alveg talað úkraínsku, þetta er bara gamall vani, en nú er ég eiginlega hættur að tala rússnesku,“ segir Margeir og kveður muninn á málunum vera ekki ósvipaðan og það sem á milli ber í hollensku og þýsku.

Margeir er að lokum inntur eftir framtíðarspádómum.

„Núna er enginn endir í sjónmáli og það er enginn vilji hjá Úkraínumönnum að hætta að berjast. Hér er sagt að ef þeir hætti að berjast verði engin Úkraína, menn eiga hér engra kosta völ. Það er ekki hægt að treysta neinum samningum við Rússa, meginsamkomulagið er Búdapestarsamkomulagið frá 1994 þegar Úkraínumenn létu sín kjarnorkuvopn af hendi og Rússar ábyrgðust landamæri landsins ásamt vestrænum stórþjóðum. Nú mun aldrei nokkur þjóð láta kjarnorkuvopn sín af hendi, Rússar eru alveg búnir að tryggja það með þessu athæfi sínu,“ segir Margeir Pétursson, bankamaður í Úkraínu og annálaður skákmeistari, að lokum.