Alþingi Það hefur bersýnilega verið líf og fjör í þingsölum fyrir rétt rúmlega öld. Hiti í mönnum og orðkynngi.
Alþingi Það hefur bersýnilega verið líf og fjör í þingsölum fyrir rétt rúmlega öld. Hiti í mönnum og orðkynngi. — Morgunblaðið/Ólafur K. Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
1922 „Má vera að sumt hafi verið vansagt og sumt of sagt, en dómur sögunnar er eftir – og Bogi er rjettlátur.“ Þingfréttaritari Morgunblaðsins.

Baksvið

Orri Páll Ormarsson

orri@mbl.is

Umræður um Landsverslun urðu talsvert langar á Alþingi í lok apríl 1922 og sýndist nokkuð sitt hverjum. Það er raunar vægt til orða tekið, ef marka má frásögn Morgunblaðsins, sem greinilega hefur verið með mann á þingpöllum.

„Örlítið skal […] skýrt frá þessum hildarleik, þar sem oft voru 3 á lofti sverðin í einu og engum kom til hugar að spara mannslífin, sem sögð eru þó kolum og steinolíu dýrmætari – og jafnvel sykrinu,“ sagði þingfréttaritari Morgunblaðsins. Ríkið stofnaði Landsverslun 1917 til að fá vörur á sem hagstæðustu verði til landsins í fyrri heimsstyrjöldinni. Eftir að stríðinu lauk, 1918, greindi menn á um þörfina fyrir verslunina.

Ólafur Proppé, utan flokka, hafði framsögu fyrir hönd meirihluta viðskiptanefndar (sem þá var raunar með effi). Talaði hann stillilega og hélt sig fast við málið en undir niðri var þó þungur straumur alvörunnar og sannfæringarinnar um það, að Landsverslun ætti að eyðileggja eins og Kartagóborg forðum og skyldi þar ekki steinn yfir steini standa. Ekkert nema olía og kol í rústunum.

Ýmislegt þótti honum athugavert við rekstur verslunarinnar og gróðinn furðulítill og útistandandi skuldir furðumiklar, þar eð tilgangurinn hefði verið á þinginu árið áður að Landsverslun drægi saman seglin og innheimti skuldir. Í stað þess hefðu þær aukist um liðugar 30 þúsund krónur og væru nú þrjár milljónir króna. Þótti Ólafi ekki örgrannt um að seig myndi innheimtan á nokkrum af þessum skuldum en engu vildi hann þó spá um hvað kynni að tapast.

Skuldir ekki svo miklar

Skáldið Sigurjón Friðjónsson, Heimastjórnarflokknum, hafði framsögu fyrir hönd minnihluta nefndarinnar. Talaði hann hógværlega um málið, að sögn Morgunblaðsins, og með nokkuð rómantískari blæ en Ólafur Proppé. Tók hann sárt til borgar þessarar sem risið hafði upp og blómgast á hinum erfiðu tímum stríðsáranna og verið þá hin mestu bjargráð fyrir þjóðina og mundi hún í raun og veru svo enn vera.

Skuldir verslunarinnar þótti honum ekki svo ýkja miklar er litið væri á hinn erfiða hag landsmanna og góðar vonir hafði hann um að ekki myndi mikið af þeim tapast, í mesta lagi hálf milljón króna.

Þá talaði Sveinn Ólafsson, Framsóknarflokki. Umgjörð máls hans var lýst með þessum hætti í Morgunblaðinu: „Var stinningsinnræna eftir firðinum, en er áleið dró upp kólgubakka og var ekki örgrant um að suddaði úr, en þó hjelst altaf heiðríkja í háloftinu.“

Sveinn kvað deiluna aðallega standa um það hvort hagur einstaklingsins eða fjöldans ætti að sitja í fyrirrúmi. Væri vitanlegt að heildsalar og kaupmenn litu verslunina skökku auga vegna þess, að þeir gætu ekki makað eins krókinn meðan hún stæði. Mætti vera að ekki væri svo mikill verðmunur á vörum Landsverslunar og kaupmanna í bænum en þess meiri væri hann úti á annesjum þar sem samkeppnin nyti sín ekki. Einnig benti hann á að arður verslunarinnar mundi meiri ef ekki hefði verið varið jafn miklu fé til sendimanna erlendis.

Halldór Steinsson, Heimastjórnarflokknum, gerði harða hríð að borginni og komst inn fyrir virkisvegginn, að dómi Morgunblaðsins. En þar tóku við kviksyndi svo mikil og botnleysur, að hann komst lítt áfram. Kom honum þetta að vísu ekki á óvart, því að hann taldi, að aldrei hefði verið neitt um það hugsað að gera vegi út frá borg þessari, enda myndi margt sauðarverðið hafa glatast í forunum.

Jón Auðunn Jónsson, Heimastjórnarflokknum, skaut ísfirskum sprengikúlum að borginni. Taldi hann verslunina hafa farið ógætilega í því að lána allt of mikið og hætta stafaði af því fyrir ríkissjóð að hafa fé þar bundið. Engin þörf væri heldur á þessari verslun enda væru ekki lengur örðugleikar á því að fá vörur fluttar til landsins.

Bjarni Jónsson frá Vogi, Sjálfstæðisflokknum eldri, kvað menn geysast hér mjög og gerast allvopndjarfir. Skyti það nokkrum geig í brjóst sér, því með þeim ósköpum væri hann fæddur, að aldrei mætti hann mannsblóð sjá. Vildi hann því lægja ófriðareld þenna með dagskrá sinni, sem allir mættu vel við una, því að hún væri það skynsamlegasta í málinu. Væri engin þörf að þrátta meir um þetta, því að stjórnin hefði nú gefið yfirlýsingar sínar frammi fyrir öllum þingheimi og svo firnadjörf gerðist engin stjórn, að hún þyrði að rjúfa þau heit. Gerði hún það ætti hún sér að mæta á næsta þingi. „Leit Bjarni svo hvast yfir þingsalinn og settist niður en ráðherrarnir horfðu í gaupnir sér,“ sagði Morgunblaðið.

Jakob Möller, utan flokka, kvað Landsverslunina vera orðna nokkurs konar ríki í ríkinu og tilvera hennar væri mikið undir því komin hvernig flokkaskipunin væri í það og það sinnið í þinginu. Stappaði nærri að pólitísk spilling gæti stafað af þessu. Þótti honum kapp forseta þessa lýðríkis helst til mikið.

„Þá kom Magnús Kristjánsson [þingmaður Framsóknar og forstjóri Landsverslunar] fram á vígvöllinn. Var ægishjálmur í augum hans og girntust mótstöðumenn hans lítt að horfast í augu við hann. Kvað hann skrípaleik mikinn hjer háðan. En lítt myndi hann nenna að verða þátttakandi leiks þess. […] Væri lítið um beinar ásakanir en reynt að gera alt sem tortryggilegast í von um að það gæti helst verkað á einhverja lítilsiglda þingmenn sem lítt þektu málavexti. Að þessu loknu vjek hann sjer svo að þeim sem framgjarnastir höfðu verið í áhlaupum sínum og dustaði framan í þá ryki nokkru.“

Gaman af að gera hvelli

Halldór Steinsson gat Magnús víst ekki tekið alvarlega, því kunnugt væri að hann hefði gaman af að gera hvelli mikla en óskaðlegir væru þeir og sennilega ekki í illum tilgangi gerðir. Óskaði hann Halldóri að síðustu góðrar framtíðar og að honum mætti auðnast að halda áfram að selja vel sín lyf og balsam.

Þá vék hann sér að Jóni Auðuni og kvað sér hafa dottið í hug við ræðu hans orð Skarphéðins á þingi forðum: „Nær hefði þjer verið að stanga úr tönnum þjer o.s.frv.“ en beinast að sér og Landsversluninni. „Nokkrum öðrum gaf hann og hógværar áminningar en eigi verða þær taldar hjer. Settist hann svo aftur í forsetastól og færðist þá ró og hátign aftur á andlit hans.“

Halldór svaraði því til að vera mætti að þarna færi skrípaleikur fram en alltaf mætti Magnús hugga sig við það, að hann yrði aðalpersónan í leiknum. Annars væri hann stundum nokkuð skapstyggur og ekki laus við önuglyndi.

„Fleira minntist hann á en þetta verður að nægja. Hitt geta menn lesið í þingtíðindum,“ sagði Morgunblaðið.

„Má vera að sumt hafi verið vansagt og sumt of sagt, en dómur sögunnar er eftir – og Bogi er rjettlátur.“