Ásgrímur Halldórsson SF 250 liggur bundinn við bryggju. Hann er nefndur í höfuðið á afa forstjóra fyrirtækisins.
Ásgrímur Halldórsson SF 250 liggur bundinn við bryggju. Hann er nefndur í höfuðið á afa forstjóra fyrirtækisins. — Morgunblaðið/Brynjólfur Löve
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þannig að þetta er dálítið öfugsnúið að þeir sem helst tala gegn samþjöppun eru helstu hvatar til hennar.

Þegar blaðamenn Morgunblaðsins renna inn á Höfn er eins og það rofi til í veðri og í höfninni speglast skipin í lygnum sjónum. Það er greinilega verið að vinna um borð og hamarshöggin heyrast dynja. Við gerum vart við okkur hjá SkinneyÞinganesi og þar tekur Aðalsteinn Ingólfsson á móti okkur. Þar hefur hann verið við stjórnvölinn allt frá því að Skinney, Borgarey og Þinganes sameinuðust árið 1999 en hann hafði valist til forystu nokkrum árum fyrr hjá fjölskyldufyrirtækinu Skinney.

Fyrirtækið hefur sótt í sig veðrið á þeim tíma sem liðinn er síðan og nú starfa þar um 350 manns, þar af um 300 á Höfn. Það er ekki lítill vinnustaður í sveitarfélagi sem telur um 2.400 íbúa. Á Höfn, í bænum sjálfum, eru svo íbúarnir um 1.800 talsins. Það er því ekki ofsögum sagt að Skinney-Þinganes sé burðarás í atvinnulífi svæðisins.

Og þótt skip og bátar liggi við bryggju er þar aðeins um hluta flotans að ræða. Aðalsteinn hefði reyndar óskað þess að uppsjávarskipin lægju ekki við festar en á því er skýring. Loðnan, sá dyntótti fiskur, hefur ekki látið sjá sig þennan veturinn.

„Staðan er sú að við erum að bíða eftir því hvort einhver loðnuvertíð verði eða ekki og þar af leiðandi sýnist sem það séu öll skip í landi því að tvö stærstu skipin eru í landi þar sem þau eru uppsjávarskip. Þannig að í vinnslunni sem ætti að vera á fullu að frysta loðnu og vinna bolfisk, þá erum við bara að vinna bolfisk og ekki útséð með hvað gerist í loðnunni,“ útskýrir Aðalsteinn.

Hann segir að fréttir sem bárust af veiðisvæði sem nefnt er Rósagarðurinn hafi vakið mönnum von í brjósti en í jós hafi komið að magnið sem þar fannst var ekki nægilegt til að Hafrannsóknastofnun treysti sér til þess að gefa út kvóta.

Nú er stofnunin, og fyrirtækin um leið, því í kappi við tímann. Verðmætir dagar fara í súginn. En hver er verðmætasti tíminn meðan á loðnuvertíð stendur?

Djöfullegt gat

„Það er á hrognatímanum sem ennþá er eftir og svo á hrygnutímanum fyrir Asíu sem ætti að vera í gangi núna. Hins vegar er það aðeins öðruvísi þetta árið en áður að það var það mikið framleitt af hrognum í fyrra og það eru til birgðir þar í alla vega meira en eitt ár, jafnvel tvö ár fram í tímann. Hinsvegar er ágætis hrygnumarkaður þannig að það er djöfullegt að vera með gat þar,“ segir útgerðarmaðurinn.

Hann segir erfitt að segja til um það hvað valdi þessum sviptingum í hafinu. Hann bendir þó á að þar sé eflaust um fleiri en eitt atriði að ræða. Ýmsir stofnar hafa sveiflast upp og niður við suðurströndina, meðal annars flatfiskur, bleikja og sandsílið sem aftur hafði að öllum líkindum mikil áhrif á lundastofninn.

Hornafjarðarhumar

Annar nytjastofn sem hefur mikla þýðingu fyrir Hornfirðinga er hinn óviðjafnanlegi og bragðgóði humar. Aðalsteinn hefur trú á því að veiðar á honum muni hefjast að nýju.

„Nú er humarinn alveg öfugt við loðnuna, að hann er fimm ára þegar þú byrjar að veiða hann og helst viltu hafa hann sjö til tíu ára. Þannig að hann er ekkert að koma einn tveir og þrír. Við hins vegar trúum því að hann komi til baka en við höfum enga trú á því að það sé að fara að gerast á næstu tveimur, til þremur árum en við trúum því að hann komi til baka,“ segir Aðalsteinn.

Nokkur sjávarútvegsfyrirtæki hafa tekið þá ákvörðun á umliðnum misserum að fara á markað. Aðalsteinn segir það jákvætt en ekki sjálfgefið að allir fari þá sömu leið. Gott sé að hafa greinina blandaða hvað þetta varðar. Hins vegar hafi samþjöppun átt sér stað. Hún hafi verið nauðsynleg og þá hafi ýmsir þættir haft þar áhrif á sem fólk sé almennt ekki meðvitað um.

Tala gegn en hvetja til

„Ég segi oft og við höfum lent í því sjálf að það sem hefur ýtt mest á samþjöppun í greininni síðustu 20 ár eru þeir stjórnmálamenn og stjórnmálaflokkar sem tala mest á móti samþjöppun. Því þeir hafa verið að hóta því að umbylta kerfinu eða fyrna, eða hvað það er þann daginn og það hefur hrætt fullt af fólki út úr greininni sem hefur frekar viljað selja og fá pening heldur en að sitja uppi einn daginn með engar eignir. Þannig að þetta er dálítið öfugsnúið að þeir sem helst tala gegn samþjöppun eru helstu hvatar til hennar.“ Þá segir Aðalsteinn að auknar álögur á greinina hafi þrýst með sama hætti á samþjöppun. Fyrirtækin þurfi sífellt að leita meiri hagræðingar til þess að mæta þeim kostnaði sem af gjaldtöku hins opinbera hlýst.

Spurður út í stöðuna á Höfn segir Aðalsteinn að hún sé góð. Hugur sé í fólki og eftirspurn eftir húsnæði. Bæjaryfirvöld í samráði við fleiri aðila hafi unnið að útfærslu nýs miðbæjar sem muni gera svæðið mjög aðlaðandi.

Þá hefur Skinney-Þinganes einnig lagt sitt af mörkum með ýmsum hætti en stærstu framlögin tengist m.a. framkvæmd sem fólst í að yfirbyggja fótboltavöll á svæðinu og eins fjármagn til uppbyggingar nýrrar miðstöðvar fyrir viðbragðs- og björgunaraðila á svæðinu.

Nýr olíuketill fyrirtækisins

Nokkra athygli vakti nýverið þegar sveitarstjórinn í Hornafirði ræsti nýjan olíuketil fyrirtækisins sem verksmiðjustjóri þess hefur ákveðið að nefna Kötu Jak. Þar er á ferðinni nýr búnaður sem leysir eldri af hólmi og mun koma að góðum notum við bræðslu þegar síldin loks lætur sjá sig.

Aðalsteinn segir afar leitt að fyrirtækið þurfi að fara í öfug orkuskipti og tryggja viðgang starfseminnar með þeim hætti. Ekkert rafmagn sé á lausu fyrir framleiðslustarfsemina. Hann viðurkennir þó að ef hann hefði grunað að engin loðna fyndist í ár þá hefði hann frestað kaupum á búnaðinum. En koma tímar og koma ráð. Loðnan mun aftur mæta til leiks, og þá verður olíu brennt í Hornafirði í stórum stíl og mikil verðmæti sköpuð úr gjöfum hafsins.

Höf.: Stefán E. Stefánsson& Andrés Magnússon