Jöfnunarmark Alexandra Jóhannsdóttir jafnar metin fyrir Ísland, 1:1, eftir langt innkast Sveindísar Jane og skalla Glódísar Perlu inn að markinu.
Jöfnunarmark Alexandra Jóhannsdóttir jafnar metin fyrir Ísland, 1:1, eftir langt innkast Sveindísar Jane og skalla Glódísar Perlu inn að markinu. — Ljósmynd/Aleksander Djorovic
Einvígi Íslands og Serbíu um sæti í A-deild undankeppni Evrópumóts kvenna í fótbolta er galopið eftir jafntefli liðanna í Stara Pazova í Serbíu í gær, 1:1. Úrslitin munu því ráðast á Kópavogsvellinum þegar liðin mætast þar á þriðjudaginn klukkan 14.30

Umspilið

Víðir Sigurðsson

Vladimir Novak

Einvígi Íslands og Serbíu um sæti í A-deild undankeppni Evrópumóts kvenna í fótbolta er galopið eftir jafntefli liðanna í Stara Pazova í Serbíu í gær, 1:1. Úrslitin munu því ráðast á Kópavogsvellinum þegar liðin mætast þar á þriðjudaginn klukkan 14.30.

Serbneska liðið var sterkari aðilinn mestallan leikinn og komst yfir á 19. mínútu þegar Tijana Filipovic skoraði með fallegu skoti eftir vel útfærða stutta hornspyrnu, 1:0.

Það tók þó íslenska liðið aðeins fjórar mínútur að jafna en Alexandra Jóhannsdóttir kom boltanum yfir marklínuna af örstuttu færi eftir langt innkast Sveindísar Jane Jónsdóttur frá hægri og skalla Glódísar Perlu Viggósdóttur, 1:1

Serbar sóttu mun meira mestallan síðari hálfleik og voru hársbreidd frá því að komast yfir á ný þegar Nevena Damjanovic skallaði í þverslá íslenska marksins. Dina Blagojevic fékk rauða spjaldið á 83. mínútu og Ísland skapaði sér tvö þokkaleg færi á lokakaflanum en náði ekki að nýta sér liðsmuninn.