[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Þetta er svo hátíðlegt. Það er alltaf gaman að flagga,“ segir Stefán Kristjánsson, eigandi og forstjóri Einhamars Seafood í Grindavík. Þegar ljósmyndara Morgunblaðsins bar að garði í gærmorgun var Stefán að flagga íslenska fánanum og fána Einhamars

Sonja Sif Þórólfsdóttir

sonja@mbl.is

„Þetta er svo hátíðlegt. Það er alltaf gaman að flagga,“ segir Stefán Kristjánsson, eigandi og forstjóri Einhamars Seafood í Grindavík. Þegar ljósmyndara Morgunblaðsins bar að garði í gærmorgun var Stefán að flagga íslenska fánanum og fána Einhamars. Stefán tekur fram að íslenski fáninn hafi farið í miðjuna á hæstu stöngina og fánar Einhamars hafi svo farið hvor sínum megin við hann.

Vinnsla hófst hjá Einhamri í gærmorgun en landað var í fyrradag líkt og greint var frá í blaðinu í gær.

„Við slægðum einhver 14 tonn og unnum 16 tonn. Svo er slatti til inni á kæli sem við vinnum á mánudaginn og bátarnir fara út á sunnudag,“ segir Stefán. Létt var yfir fólki í vinnslunni.

„Já, það er góður andi en við erum á varðbergi líka,“ segir Stefán.

Starfsfólk Einhamars býr hér og þar um Reykjanesskagann, mest í Reykjanesbæ og Vogum en líka í Hafnarfirði. Sjálfur sefur Stefán heima í Grindavík og segir að einhverjir séu að velta fyrir sér að gista líka heima. „Það verður þó sennilega ekki fyrr en eftir næsta atburð,“ segir Stefán. Hann kveðst sofa vel heima hjá sér í Grindavík.

„Við erum að reyna að halda í agnarögn af okkar gamla lífi í Grindavík. Við erum ekki tilbúin að kveðja þetta líf alveg strax. Eða helst bara aldrei.“

Höf.: Sonja Sif Þórólfsdóttir