Vopnafjörður Mörgum þykir lambakjötið úr sveitinni bera af í gæðum.
Vopnafjörður Mörgum þykir lambakjötið úr sveitinni bera af í gæðum. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Höskuldur Daði Magnússon hdm@mbl.is „Við sjáum enga möguleika á því að halda rekstrinum áfram. Þetta er þó síður en svo auðveld ákvörðun,“ segir Skúli Þórðarson, framkvæmdastjóri Sláturfélags Vopnafjarðar.

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

„Við sjáum enga möguleika á því að halda rekstrinum áfram. Þetta er þó síður en svo auðveld ákvörðun,“ segir Skúli Þórðarson, framkvæmdastjóri Sláturfélags Vopnafjarðar.

Ákveðið var að slíta félaginu á hluthafafundi á fimmtudag. Þar með lýkur 35 ára rekstri en slátrað hefur verið á Vopnafirði um langt skeið samhliða verslun á staðnum. Rekstur sláturhúss var lengi í höndum kaupfélagsins á staðnum. Elsta sláturhúsið var byggt 1935 en núverandi húsnæði á árunum 1948-1950, að sögn Skúla. Sjálfur hefur hann starfað alla sína starfsævi hjá Sláturfélaginu, byrjaði 17 ára 1989 og hefur alla tíð verið á gólfinu, jafnvel eftir að hann tók við framkvæmdastjórastarfinu af föður sínum.

Vaxtakostnaður aukist mikið

Ástæða þess að ákveðið var að slíta Sláturfélaginu er að rekstrar- og vaxtakostnaður hefur aukist gríðarlega á síðustu árum. Þannig segir Skúli að árlegur vaxtakostnaður hafi aukist um 20 milljónir á síðustu tveimur árum. Auk þess séu fram undan ýmsir fyrirsjáanlegir kostnaðaraukar. „Við sjáum ekki fyrir okkur að staðan lagist á næstu árum. Okkur þótti ekki raunhæft að biðja fólk að leggja inn tugi milljóna til að halda rekstrinum gangandi vitandi að það þyrfti eflaust að gera það aftur eftir nokkur ár. Við viljum frekar hætta þessu þegar fyrirsjáanlegt er að eignir dugi fyrir skuldum og skuldbindingum.“

Vopnfirskt lambakjöt er rómað fyrir gæði og hefur verið markaðssett sérstaklega. Hafa þekktir matreiðslumenn til að mynda sérpantað kjöt frá Skúla í gegnum árin. Þá kunna margir vel að meta vopnfirskt verkuð svið. „Það eru til menn sem vita að þetta kjöt er betra en annað,“ segir Skúli sem kveðst munu skoða það í framhaldinu hvort hann geti sett upp lítið sláturhús í sveitinni ásamt samstarfsmönnum sínum. Því myndu eflaust margir taka fagnandi enda verður ekkert sauðfjársláturhús á Austurlandi að óbreyttu.

Besta lambakjöt á landinu

Axel Örn Sveinbjörnsson, oddviti sveitarstjórnar á Vopnafirði, lýsir tíðindum af slitunum sem „ömurlegum“. „Þetta er leiðinlegt fyrir fólkið sem þarna hefur unnið og fyrir samfélagið hér. Miðað við hvernig stjórnin setur þetta upp held ég þó að þetta hafi verið rétt skref,“ segir hann.

Fjórir hafa starfað hjá Sláturfélaginu að jafnaði en 40-50 manns yfir sláturtíðina. Hann segir að þetta muni hafa áhrif á hreppinn að einhverju leyti. Um 8-10 milljónir tapist í útsvarstekjur og muni um minna. Auk þess munu lok starfseminnar hafa afleidd áhrif, til að mynda er varðar vinnu fyrir iðnaðarmenn og minni umsvif í verslun, sjoppu og á veitingastað bæjarins.

Þá segir Axel að eftirsjá verði að framleiðslunni og frábærri þjónustu hjá starfsmönnum Sláturfélagsins. Ekki hafi allir bæir getað státað af því að íbúar gætu sótt sér ferskt kjöt úr sveitinni á grillið í búðina. „Ég leyfi mér að segja að þetta er með besta lambakjöti sem þú getur fengið á Íslandi.“