Farsími Notkun verður bönnuð í skólum í Hafnarfirði í apríl.
Farsími Notkun verður bönnuð í skólum í Hafnarfirði í apríl. — Colourbox
Fræðsluráð Hafnarfjarðar samþykkti á fundi sínum í vikunni að í aprílmánuði næstkomandi verði símafrí í öllum grunnskólum bæjarins. Tillagan felur það í sér að ekki er heimilt að vera með síma í notkun á skólatíma og á þetta við um nemendur í 1

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Fræðsluráð Hafnarfjarðar samþykkti á fundi sínum í vikunni að í aprílmánuði næstkomandi verði símafrí í öllum grunnskólum bæjarins. Tillagan felur það í sér að ekki er heimilt að vera með síma í notkun á skólatíma og á þetta við um nemendur í 1. til og með 10. bekk.

„Vonast er til þess að tillaga þessi leiði af sér jákvæðan skólabrag, bæti samskipti og styrki tengslamyndun á meðal barna og starfsfólks í grunnskólum bæjarins,“ segir í bókun ráðsins. Sviðsstjóra mennta- og lýðheilsusviðs verður falið að tala fyrir málinu gagnvart skólastjórnendum, sem hvattir verða til að auka framboð á tómstundum í frímínútum meðan á símafríi stendur.

Tillaga þessi er studd af ungmennaráði og hefur jafnframt verið rædd innan foreldraráðs grunnskólabarna. „Við erum þess fullviss að símafrí muni auka vellíðan og einbeitingu hjá nemendum og bæta skólabrag til muna. Ljóst er að til þess að símafrí heppnist vel þá þarf að bæta aðstöðu og afþreyingu fyrir nemendur. Símafrí í apríl er góð byrjun og vonandi fyrsta skrefið í átt að viðmiðunarreglum fyrir alla grunnskóla Hafnarfjarðar,“ segir foreldraráð sem Kristín Blöndal Ragnarsdóttir fer fyrir.

„Með þessari samþykkt erum við m.a. að svara óskum um símafrí sem voru komnar fram,“ segir Kristín María Thoroddsen, formaður fræðsluráðs Hafnarfjarðar, við Morgunblaðið. „Skólabragurinn í bænum er jákvæður, en með þessari ráðstöfun getum við ef til vill gert enn betur. Skemmtilegir leikir og skipulagt starf í frímínútum kemur á móti símafríi. Núvitund til að njóta umhverfisins, án síma, er börnum mikilvæg og fullorðið fólk ætti líka að tileinka sér slíkt.“

Höf.: Sigurður Bogi Sævarsson