Fuglamerkingar Merkingar á bjargfugli eru ekki fyrir lofthrædda. Myndin er tekin á Svalbarða.
Fuglamerkingar Merkingar á bjargfugli eru ekki fyrir lofthrædda. Myndin er tekin á Svalbarða.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ólafur E. Jóhannsson oej@mbl.is Elsta stuttnefja sem merkt hefur verið var skotin utan við Dalvík fyrr í vikunni, en hún var merkt þann 10. júlí 1984 í Kóngsfirði á Svalbarða af norskum vísindamönnum. Var hún með hringmerki klemmt um fótinn.

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

Elsta stuttnefja sem merkt hefur verið var skotin utan við Dalvík fyrr í vikunni, en hún var merkt þann 10. júlí 1984 í Kóngsfirði á Svalbarða af norskum vísindamönnum. Var hún með hringmerki klemmt um fótinn.

Fuglinn var fangaður við varp í fuglabjargi, en stuttnefjur verpa ekki fyrr en þær eru orðnar fjögurra til sex ára gamlar og var því stuttnefjan 44 ára gömul hið minnsta þegar hún hlaut sitt skapadægur á Eyjafirði, að því er greint er frá í innleggi á Facebook-síðu norsku fuglamerkingastöðvarinnar.

Veiðimaðurinn Jón Þór Arngrímsson greindi frá feng sínum á Skotveiðispjallinu á Facebook og tilkynnti um hina öldruðu stuttnefju og kvaðst þar ekki hafa átt von á að fuglinn væri eins merkilegur og raunin varð.

Sumar fuglategundir eru langlífari en aðrar og einhverjar ná yfir 20 ára aldri. Hins vegar er sjaldgæft að fuglar eldri en þetta séu skráðir.

Um 22.500 stuttnefjur hara verið merktar af Norðmönnum og hafa rúmlega 7.000 merki endurheimst.

Á heimasíðu Náttúrufræðistofnunar segir að stuttnefja verpi allt í kringum norðurhvelið og að útbreiðsla hennar sé norðlægari en langvíu. Þær sjáist lítið á grunnslóð yfir veturinn en íslenskir fuglar dvelja sumir við landið en aðrir halda vestur fyrir Grænland, en einnig komi hingað fuglar úr norðri á veturna. Stuttnefjan sem skotin var á Eyjafirði var úr þeim hópi.

Þar segir einnig að stuttnefju hafi fækkað verulega á undanförnum áratugum í austurhluta heimkynna sinna við Atlantshaf, á Íslandi, víða á Grænlandi, á Svalbarða og í Noregi. Hún hafi þó enn ekki verið sett á alþjóðlega válista en skráð sem tegund í nokkurri hættu hér á landi árið 2000.

Eigi að síður er heimilt að veiða stuttnefju á tímabilinu 1. september til 25. apríl, en hún er friðuð utan þess tíma nema með sérstökum undantekningum vegna hlunninda.