Þýðandinn Jón Erlendsson tók við þýðingaverðlaununum á Gljúfrasteini í gær. Hann hefur að eigin sögn mest fengist við þýðingar í frítíma sínum.
Þýðandinn Jón Erlendsson tók við þýðingaverðlaununum á Gljúfrasteini í gær. Hann hefur að eigin sögn mest fengist við þýðingar í frítíma sínum. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
„Þetta eru náttúrulega mjög ánægjuleg tíðindi og ekkert sem ég bjóst endilega við, enda margir ágætir þýðendur tilnefndir,“ segir Jón Erlendsson sem hlaut Íslensku þýðingaverðlaunin 2024 fyrir þýðingu sína á Paradísarmissi eftir John Milton

Ragnheiður Birgisdóttir

ragnheidurb@mbl.is

„Þetta eru náttúrulega mjög ánægjuleg tíðindi og ekkert sem ég bjóst endilega við, enda margir ágætir þýðendur tilnefndir,“ segir Jón Erlendsson sem hlaut Íslensku þýðingaverðlaunin 2024 fyrir þýðingu sína á Paradísarmissi eftir John Milton. Verðlaunin voru afhent á Gljúfrasteini síðdegis í gær.

Í dómnefnd sátu Elísabet Gunnarsdóttir, Þórður Helgason og Guðrún H. Tulinius sem jafnframt er formaður nefndarinnar. Í rökstuðningi hennar segir meðal annars: „Það er ekki lítið verk eða létt sem Jón Erlendsson tekst á hendur er hann þýðir á okkar tungu Paradísarmissi Miltons, eitt af höfuðverkum heimsbókmenntanna. [...] Texti Jóns Erlendssonar er afar nákvæmur og læsilegur og sýnir oft mikla hugkvæmni þýðandans. [...] Þýðing Jóns Erlendssonar er ekki aðeins eljuverk, heldur afreksverk. Við höfum fengið stórvirki í hendur.“

Jón segist verða „hálf hvumsa“ þegar hann heyri hól af þessu tagi. „Eins og þegar talað er um þetta sem afrek. Þegar ég sat við þetta heima í tómstundum mínum eins og hvert annað tómstundagaman, eða mér til heilsubótar, þá var ég ekki með neitt afreksverk sérstaklega í huga. Þetta kom nokkurn veginn af sjálfu sér.“

Þýðingar fyrir skúffuna

Þýðingar hafa lengi verið áhugamál hjá Jóni. „Ég var búinn að vera að grúska í þessum gömlu bókmenntum lengi og þreifa svolítið fyrir mér með þýðingar fyrir skúffuna. Þegar ég byrjaði á þessu var ég í fullri vinnu í gjörólíku starfi. Það er kannski gott, að vera á daginn í einhverju allt öðruvísi og fara svo inn í þetta þegar tíminn gefst. Ég vann hjá Vegagerðinni í upp undir 40 ár, við landmælingar aðallega.“

Eins og segir í rökstuðningi dómnefndar er Paradísarmissir eitt af þekktustu verkum bókmenntasögunnar og Jón segir það með mest þýddu verkum heims.

„Þetta verk hefur verið á allra vörum. Þýðing Jóns á Bægisá kom út 1828, sem var í raun og veru alveg sérstakt með svona fámenna þjóð, og það hefur verið alþekkt í Íslandssögunni að Jón skuli hafa þýtt þetta. En verkið er kannski ekki jafn þekkt,“ segir Jón en bætir við: „Og þó, ég hitti um daginn mann sem kunni brot úr því utan að. Það hefur ekki verið gefið út aftur en hafði töluverð áhrif. Ég komst að því um daginn að það gæti verið að verkið hefði haft áhrif á Jónas Hallgrímsson þegar hann skrifaði hina þekktu smásögu „Grasaferð“, að hún sé undir sterkum áhrifum frá Paradísarmissi.“

„Hefði aldrei lagt í það“

Spurður hvort hann hafi fundið fyrir einhverri pressu þegar kom að þýðingunni segir Jón: „Já, sérstaklega gagnvart Jóni á Bægisá. En þó ég hafi átt bókina þá lá ég ekkert í henni. Ég býst við að ég hefði aldrei lagt í að koma þessu á framfæri ef þetta verk hefði haft einhverja kanóníska stöðu eins og til dæmis þýðingar Sveinbjarnar Egilssonar á Hómerskviðum. Ég hefði ekki dirfst að gera það. Það hefði ekki truflað mig sjálfan í glímunni við þýðinguna en ég veit ekki hvort ég hefði lagt í að koma henni á framfæri.“

Að lokum minnist Jón á hve ánægjulegt það sé að stórt forlag á borð við Forlagið hafi ráðist í útgáfu á Paradísarmissi og lagt jafn mikið í útgáfuna og raun ber vitni.

Höf.: Ragnheiður Birgisdóttir