Istanbúl Martin Hermannsson reynir að komast að körfu Tyrkja í leiknum í Istanbúl í gær og Tryggvi Snær Hlinason er við öllu búinn.
Istanbúl Martin Hermannsson reynir að komast að körfu Tyrkja í leiknum í Istanbúl í gær og Tryggvi Snær Hlinason er við öllu búinn. — Ljósmynd/FIBA
Karlalandslið Íslands í körfubolta var ótrúlega nálægt mögnuðum útisigri gegn Tyrkjum í Istanbúl í gær, í undankeppni Evrópumótsins. Tarik Biberovic skoraði sigurkörfu Tyrkja, 76:75, úr erfiðu færi á síðustu sekúndunni eftir að Jón Axel Guðmundsson…

EM 2025

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Karlalandslið Íslands í körfubolta var ótrúlega nálægt mögnuðum útisigri gegn Tyrkjum í Istanbúl í gær, í undankeppni Evrópumótsins.

Tarik Biberovic skoraði sigurkörfu Tyrkja, 76:75, úr erfiðu færi á síðustu sekúndunni eftir að Jón Axel Guðmundsson hafði komið Íslandi yfir, 75:74, af miklu harðfylgi þegar um fjórar sekúndur voru eftir af leiknum.

Ísland og Tyrkland eru því bæði með tvö stig eftir tvær fyrstu umferðirnar og frammistaðan gefur góðar vonir um að íslenska liðið geti náð því takmarki sínu að enda í einum af þremur efstu sætum riðilsins og komist á EM 2025. Sigur í gær, sem var svo lygilega nálægt því að verða niðurstaðan, hefði farið langt með að tryggja liðinu EM-sætið.

En nú eru heilir níu mánuðir í næstu leiki Íslands í keppninni, leikina tvo gegn Ítölum í nóvember, og á þeim tíma getur margt breyst.

Íslenska liðið átti einn sinn besta leik um árabil og hélt í við Tyrkina allan leikinn, og komst nokkrum sinnum yfir í fyrri hálfleiknum.

Tyrkir virtust vera að tryggja sér sigurinn þegar þeir komust í 66:56 þegar fjórar mínútur voru eftir og Martin Hermannsson var farinn af velli með fimm villur.

En lokakaflinn var ótrúlegur hjá íslenska liðinu. Fimm þriggja stiga körfur gerbreyttu leiknum, tvær frá Kristni Pálssyni og sín hver frá Jóni Axel, Ægi Þór Steinarssyni og Elvari Má Friðrikssyni. Staðan var 71:70 fyrir Tyrki þegar rúm mínúta var eftir og 74:73 þegar 27 sekúndur voru eftir. Dramatíkin í lokin féll með Tyrkjum og 16 þúsund áhorfendur sem troðfylltu Sinan Erdem-höllina í Istanbúl vörpuðu öndinni léttar.

Frammistaðan er mögnuð eftir sem áður og þeir sjö leikmenn sem spiluðu nær allan tímann léku allir vel. Ísland þarf á því að halda í leikjum gegn stóru þjóðunum og í þessum tveimur leikjum hafa Martin, Elvar, Tryggvi, Ægir og Jón Axel allir sýnt styrk sinn og gæði, ásamt því að Kristinn Pálsson og Orri Gunnarsson hafa stimplað sig vel inn í liðið. Sérstaklega Kristinn sem skilaði tveimur flottum leikjum og eykur með því enn breiddina í hópnum. Fjarvera Kristófers Acox kom ekki að sök, Craig Pedersen og hans menn leystu vel úr því að vera með lágvaxnara lið gegn stóru liði Tyrkja en gegn Ungverjum.

Stig Íslands: Martin Hermannsson 15, Elvar Már Friðriksson 14, Tryggvi Snær Hlinason 12, Ægir Þór Steinarsson 12, Kristinn Pálsson 11, Jón Axel Guðmundsson 8, Orri Gunnarsson 3.

Tryggvi tók tíu fráköst og varði þrjú skot, Martin tók sex fráköst og átti fjórar stoðsendingar, Elvar átti fimm stoðsendingar og Kristinn tók fjögur fráköst.

Sertac Sanli skoraði 20 stig fyrir Tyrki og tók 12 fráköst, Ercan Osmani skoraði fjögur stig og Tarik Biberovic 11.

Höf.: Víðir Sigurðsson