Skrifin Ragnheiður hefur gefið út fjórar barnabækur frá 2015.
Skrifin Ragnheiður hefur gefið út fjórar barnabækur frá 2015. — Ljósmynd/Elsa Kristjánsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ragnheiður fæddist í Reykjavík 26. febrúar 1984 og rétt slapp því við að eiga afmæli á fjögurra ára fresti. Hún ólst upp í gamla Vesturbænum og naut þess að flækjast um í bakgörðum með félögum sínum úr Vesturbæjarskóla, fela sig í kerfilbreiðum,…

Ragnheiður fæddist í Reykjavík 26. febrúar 1984 og rétt slapp því við að eiga afmæli á fjögurra ára fresti. Hún ólst upp í gamla Vesturbænum og naut þess að flækjast um í bakgörðum með félögum sínum úr Vesturbæjarskóla, fela sig í kerfilbreiðum, gera dyraat og sniglast um á bönnuðum svæðum gamla slippsins og stálsmiðjunnar Héðins. Fyrst og fremst fannst henni þó gaman að teikna og semja sögur. Einnig eyddi hún löngum stundum með föður sínum, Eyjólfi Eyjólfssyni húsasmíðameistara, sem var þá með trésmíðaverkstæði í bílskúrnum.

Þegar Ragnheiður var 11 ára flutti fjölskyldan til Danmerkur þar sem foreldrar hennar fóru í framhaldsnám. Þar bjuggu þau í þrjú ár en að námi loknu var förinni haldið aftur til Íslands. Ragnheiður mætti þá galvösk í 10. bekk í Hagaskóla og þurfti eins og við var að búast að vinna ýmislegt upp, þá sér í lagi í íslensku. Eyddi hún þá löngum stundum eftir skóla hjá ömmu sinni, Ragnheiði Jónsdóttur, sem sá þá um bókasafnið í Melaskóla. Bókasafnið veitti Ragnheiði yngri athvarf og næði til að vinna upp námsefni síðustu ára undir leiðsögn þeirrar eldri.

Danskar orðabækur

Að samræmdu prófunum loknum, þar sem Ragnheiður hlaut forláta danska orðabók í verðlaun fyrir hæstu einkunn í dönsku, tók hún stefnuna á málabraut í Menntaskólanum í Reykjavík. Þar sinnti hún hlutverki nemendaráðgjafa, tók þátt í leikfélaginu og eignaðist þar marga vini og félaga fyrir lífstíð. Við útskriftina úr MR hlotnuðust Ragnheiði aftur verðlaun fyrir hæstu einkunn í dönsku – sama orðabókin og fjórum árum áður nema í nýrri útgáfu. Í gegnum sameiginlega vini kynntist hún á þessum tíma Sigurvini Friðbjarnarsyni, sem bauð henni með sér í flugferð en hann var að safna flugtímum. Eftir það varð ekki aftur snúið og hafa þau verið saman síðan.

Eftir einn vetur í Iðnskólanum í Hafnarfirði þar sem Ragnheiður tók ýmsa listnámsáfanga komst hún inn í þá nýlega stofnaða arkitektúrdeild Listaháskóla Íslands. Við tóku þrjú ár þar sem Ragnheiður lærði arkitektúr með litlum, þéttum hópi byggingalistarnema. Til að drýgja tekjurnar þjónaði Ragnheiður til borðs á veitingastöðum, í veislum og á börum.

Haustið 2008, þegar þáverandi forsætisráðherra bað Guð að blessa Ísland, hafði Ragnheiður um vorið útskrifast úr Listaháskólanum og var í starfsnámi hjá hjónunum Steve og Margréti á Studio Granda. Ætlunin var að starfa þar í heilt ár áður en haldið væri í framhaldsnám erlendis en vegna efnahagshrunsins urðu miklar breytingar þar á. Ragnheiður skráði sig þá í þýsku í Háskóla Íslands í eina önn en sú ákvörðun reyndist örlagarík.

Bónorð og Þýskaland

Framhaldsnám við Arkitektaskólann í Árósum var næsta stopp en þaðan fór Ragnheiður í skiptinám til Technische Universität München. Sigurvin, sem hafði þá sagt starfi sínu sem flugumferðarstjóri á Keflavíkurvelli lausu, var kominn í starfsnám í München sem flugumferðarstjóri. Sigurvin skellti sér á skeljarnar 2011, (bókstaflega, enda voru þau stödd á strönd á Srí Lanka) og að sjálfsögðu samþykkti Ragnheiður ráðahaginn. Gengu þau í hjónaband sama ár.

Snemma árs 2012, eftir að hafa útskrifast frá Arkitektskolen Aarhus, fluttist Ragnheiður aftur suður til München. Þar starfaði hún á arkitektastofu uns hún var skikkuð í svokallað „Mutterschutz“ rúmlega mánuði fyrir fæðingu eldri sonarins en kerfið í Þýskalandi býður að konur eigi að hafa möguleikann á að hvíla sig vel fyrir komandi átök.

Fór að skrifa

Eftir að hafa glápt á Netflix í tvo daga gafst Ragnheiður upp og fylgdi ráðum móður sinnar, Friðbjargar Ingimarsdóttur, og hóf að skrifa skáldsögu. Sonurinn Högni Sigurvinsson kemur í heiminn í desember 2012 og milli þess sem hann sefur grípur Ragnheiður af og til í handritið. Eftir ábendingu frá móður sinni sendir Ragnheiður handritið inn í samkeppnina um Íslensku barnabókaverðlaunin sem er nafnlaus, opin samkeppni. Öllum að óvörum sigrar handritið í keppninni og bókin Skuggasaga – Arftakinn kemur út haustið 2015 á vegum Forlagsins. Segja má að enginn hafi verið eins hissa og Ragnheiður þegar símtalið kom þar sem henni var tilkynnt að handrit hennar hefði borið sigur úr býtum. Hlaut sú bók einnig Bóksalaverðlaunin í sínum flokki. Þar sem Ragnheiður var einungis búin að skrifa helminginn af sögunni þegar hún sendi hana inn í samkeppnina ákvað hún að fresta því að fara aftur á vinnumarkað til að ljúka verkinu. Haustið 2016 kemur út seinni bókin, Skuggasaga – Undirheimar. Hlaut sú bók Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar árið eftir. Árið 2019, sama ár og yngri sonurinn, Sindri Leon Sigurvinsson, fæðist kemur næsta bók Ragnheiðar út en hún hlaut nafnið Rotturnar. Bókin var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna, Barnabókaverðlauna Reykjavíkurborgar sem og Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs. Fjórða bókin, miSter einSam, kom út árið 2021.

Harðsperrur og filterar

Ragnheiður býr enn og starfar í München með fjölskyldu sinni ásamt kettinum Giuliano. Milli þess sem hún situr og skrifar sér hún um útibú Berlína í München sem er íslenskt leiðsögufyrirtæki sem býður ferðaglöðum Íslendingum leiðsögn um München og Berlín.

Ragnheiður mun halda upp á daginn með fjölskyldu sinni í rólegheitum enda með harðsperrur. Hún er nefnilega nýlega byrjuð að lyfta lóðum – henni lítillar skemmtunar – en þar sem hana langar að halda í heilsuna og ganga á fjöll þar til yfir lýkur er víst ekkert annað í boði. Að sjálfsögðu verður stórt partí í München um næstu helgi en Ragnheiður sendi út boðskort með ljósmynd af sér með elli-filter til að plata það fólk sem hún hefur ekki séð lengi.

Fjölskylda

Maki Ragnheiðar er Sigurvin Friðbjarnarson flugumferðarstjóri, f. 15.2. 1982. Foreldrar hans eru hjónin Kristín Björk Guðmundsdóttir, f. 15.3. 1953, og Friðbjörn Örn Steingrímsson, f. 27.4. 1952, búsett í Borgarnesi.

Börn Ragnheiðar og Sigurvins eru Högni, f. 10.12. 2012, nemi, og Sindri Leon, f. 16.4. 2018, leikskólastrákur.

Bróðir Ragnheiðar er Eyjólfur Ingi, f. 15.1. 1989, verkfræðingur í Reykjavík.

Foreldrar Ragnheiðar eru Friðbjörg Ingimarsdóttir framkvæmdastýra Hagþenkis, f. 8.8. 1959, og Eyjólfur Eyjólfsson, húsasmíðameistari og byggingafræðingur, f. 14.5. 1961. Þau skildu 2002. Maki Friðbjargar er Gunnar Hersveinn Sigursteinsson, heimspekingur, rithöfundur og verkefnastjóri miðlunar, og maki Eyjólfs er Kristín Margrét Kristjánsdóttir, lífeyris- og lánafulltrúi.