Við störf Unnið að lagningu hjáveitulagnarinnar á dögunum.
Við störf Unnið að lagningu hjáveitulagnarinnar á dögunum. — Ljósmynd/HS Veitur
Á laugardaginn tókst að koma heitu vatni á í Grindavík á nýjan leik með því að leggja hjáveitulögn. „Ákveðið var að endurnýta gamla lögn sem var í notkun þegar eldgosið byrjaði 14. janúar,“ segir Sigrún Inga Ævarsdóttir samskiptastjóri HS Veitna sem annaðist framkvæmdina

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Á laugardaginn tókst að koma heitu vatni á í Grindavík á nýjan leik með því að leggja hjáveitulögn.

„Ákveðið var að endurnýta gamla lögn sem var í notkun þegar eldgosið byrjaði 14. janúar,“ segir Sigrún Inga Ævarsdóttir samskiptastjóri HS Veitna sem annaðist framkvæmdina. Lokað var fyrir heita vatnið á laugardagsmorguninn á meðan framkvæmdir stóðu yfir.

Úrlausn málsins er svolítið ruglingsleg þar sem vinna við nýja lögn var langt komin þegar eldgos setti strik í reikninginn.

„Staðan var sú að framkvæmdir við nýja lögn frá Svartsengi til Grindavíkur, sem var niðurgrafin, voru langt komnar þegar hraunflæðið fór yfir gömlu lögnina. Strax þótti ljóst að gamla lögnin skemmdist undir hrauninu og fyrir vikið barst ekki lengur vatn inn til Grindavíkur. Þá var athugað hvort nýja lögnin hefði haldist heil undir heitu hrauninu og þá tókst að koma hitaveitu í gegnum nýju lögnina. Þegar í ljós kom að skemmdir voru á henni var ákveðið að taka heilu bútana úr gömlu lögninni og koma henni fyrir yfir hrauni. Nú er hún notuð sem hjáveitulögn,“ útskýrir Sigrún. Þeir sem að þessu máli komu hafa því þurft að hugsa í lausnum.

Stórmerkileg sjón

„Það var stórmerkilegt að sjá þegar farið var á vinnuvélum að ná í gömlu lögnina og færa hana til að hrauninu. Þessar lagnir eru ekki nein smásmíði.“

Búist er við að eðlilegur þrýstingur verði kominn á hitaveituna í Grindavík snemma í vikunni.

„Þegar vatn er tekið af veitukerfi þá tekur alltaf smá tíma að byggja upp þrýstinginn aftur. Þegar upp er staðið tók það um viku, frá því að ljóst var að lögnin var skemmd undir hrauninu, að koma fullum þrýstingi á hitaveituna,“ segir Sigrún Inga enn fremur.

Höf.: Kristján Jónsson