Formannsskipti Þorvaldur Örlygsson, nýr formaður KSÍ, og Vanda Sigurgeirsdóttir, fráfarandi formaður, féllust í faðma þegar niðurstaðan lá fyrir.
Formannsskipti Þorvaldur Örlygsson, nýr formaður KSÍ, og Vanda Sigurgeirsdóttir, fráfarandi formaður, féllust í faðma þegar niðurstaðan lá fyrir. — Morgunblaðið/Óttar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Mitt fyrsta verk var í raun að slíta 78. ársþingi KSÍ á laugardaginn og síðan hef ég verið á mínum fyrstu fundum í dag,“ sagði Þorvaldur Örlygsson, nýkjörinn formaður KSÍ, við Morgunblaðið síðdegis í gær

KSÍ

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

„Mitt fyrsta verk var í raun að slíta 78. ársþingi KSÍ á laugardaginn og síðan hef ég verið á mínum fyrstu fundum í dag,“ sagði Þorvaldur Örlygsson, nýkjörinn formaður KSÍ, við Morgunblaðið síðdegis í gær.

Hann er ellefti formaðurinn í sögu KSÍ, frá árinu 1947, og tók á laugardag við af fyrstu konunni sem gegndi embættinu, Vöndu Sigurgeirsdóttur, sem lét af störfum eftir rúmlega tvö ár í formennskunni.

Þorvaldur hafði betur gegn Vigni Þormóðssyni þegar kosið var á milli þeirra tveggja í annarri umferð, 75:70. Í fyrstu umferð fékk Vignir 59 atkvæði, Þorvaldur 55 og Guðni Bergsson 30 atkvæði.

„Ég byrjaði á því að funda með Jörundi Áka Sveinssyni yfirmanni knattspyrnumála og mun hitta Klöru Bjartmarz framkvæmdastjóra í fyrramálið. Annars er landsleikur gegn Serbum strax á þriðjudag, starfsfólk KSÍ fór nánast beint af þinginu á Kópavogsvöll til að undirbúa hann. Þegar sá leikur er búinn vil ég reyna að fá nýja stjórn saman sem fyrst, fara yfir öll mál og setja fólk í hlutverk.“

Nýr framkvæmdastjóri

Klara hættir störfum hjá KSÍ síðar í vikunni og Þorvaldur sagði að ráðning nýs framkvæmdastjóra væri mikilvægt verkefni.

„Starfið hefur verið auglýst og umsóknarfrestur rennur út á þriðjudag. Þá förum við yfir umsóknirnar. Það verður ekki auðvelt að koma í stað Klöru sem hefur starfað lengi og staðið sig mjög vel, og býr yfir mikilli þekkingu. Ég efast samt ekki um að fjölmargt hæft fólk sæki um starfið.

Um leið og nýr framkvæmdastjóri er kominn er lykilatriði að fá skýra mynd af hlutverkaskiptingu milli formanns, framkvæmdastjóra og fjármálastjóra og að þeir vinni vel saman. Þar er ég ekki að gagnrýna þá sem sinntu þessum hlutverkum áður en hreyfingin vill hafa þetta allt á hreinu og það þarf því að skerpa á þessu til þess að vinnan verði skilvirkari og betri og skili meiri árangri,“ sagði Þorvaldur.

Vallarmálin á hreint

„Eins þarf að koma vallarmálunum í Laugardal á hreint. Ef við fáum ekki góð svör frá ríki og borg með nýjan leikvang á næstunni þarf að fá strax nýtt undirlag á Laugardalsvöllinn. Því miður hefur ekkert þokast í þessum málum og því þarf að breyta, og ég óska eftir stuðningi frá allri hreyfingunni. Við viljum öll fá vallarmálin í betra horf og til þess þarf öll hreyfingin að pressa á þau,“ sagði Þorvaldur enn fremur.

Samskipti KSÍ og Íslensks Toppfótbolta, ÍTF, hafa verið talsvert í umræðunni og Þorvaldur sagði brýnt að setjast niður og fara yfir þau mál.

„Það er hugur í báðum aðilum að gera það mjög vel. Ég vil að samvinnan verði miklu meiri og menn stefni í sömu átt. Það er ekkert launungarmál að þarna hefur verið núningur á milli og fólk verið með misjafnar skoðanir. Þetta þarf ég að takast á við með nýrri stjórn og ef allir vinna á heiðarlegan máta verður það ekkert vandamál,“ sagði nýkjörinn formaður.

Spurður um hugðarefni sem hann vildi koma í framkvæmd svaraði Þorvaldur að þar kæmi tvennt upp í hugann.

„Annars vegar þarf að fjölga dómurum. Við þurfum að fá fleiri iðkendur til að fara á dómaranámskeið, gera dómarastarfið meira heillandi fyrir ungt fólk, og þá vil ég koma því inn í framhaldsskólana eins og hverri annarri valgrein.

Hins vegar þurfum við að auka hlut kvenna í fótboltanum, í stjórnunarstörfum og líka sem þjálfurum. Við þurfum sem dæmi að fá fleiri leikmenn sem hætta til að þjálfa á öllum stigum,“ sagði Þorvaldur Örlygsson.

Höf.: Víðir Sigurðsson