Mæting á úkraínsku teiknimyndina Mavka í Laugarásbíói í gær fór fram úr öllum væntingum, að sögn Sveins Rúnars Sigurðssonar, læknis og talsmanns samtakanna Flottafólks. Samtökin stóðu að baki sýningunni í samstarfi við Laugarásbíó en á laugardaginn voru tvö ár liðin frá upphafi innrásar Rússlands í Úkraínu. Myndin var sýnd klukkan 12 og 14 og voru gestirnir alls fimm hundruð talsins.
„Hugmyndin var að dreifa huganum og gera fjölskyldum og börnum kleift að koma saman yfir ofboðslega fallegri úkraínskri teiknimynd, sem er byggð á gamalli sögu frá landinu,“ segir Sveinn. Sýningin var ókeypis fyrir alla, en þetta er í fjórða skiptið sem samtökin standa að bíósýningu í samstarfi við bíóhús á höfuðborgarsvæðinu.