Hólmfríður Bjartmarsdóttir, Fía á Sandi, setti inn nýja mynd af sér á fésbók, þar sem hún situr í gullstól sem fenginn var að láni hjá jólasveininum. Hún segir marga hafa strítt sér á stólavalinu og spurt hvort hún ætli í forsetaframboð

Hólmfríður Bjartmarsdóttir, Fía á Sandi, setti inn nýja mynd af sér á fésbók, þar sem hún situr í gullstól sem fenginn var að láni hjá jólasveininum. Hún segir marga hafa strítt sér á stólavalinu og spurt hvort hún ætli í forsetaframboð. Eins og nærri má geta svarar hún í bundnu máli:

Ég býð mig nú fram, í bjartsýni von og trú

og berst fyrir stólnum, í ljósvaka- miðlum og blöðum

Því Siggi minn yrði svo ágæt
forsetafrú.

Hann færi svo vel í upphlut, á
Bessastöðum.

Sigrún Haraldsdóttir kastar fram fallegri vísu – eins og hennar er von og vísa:

Enginn forðar eigin grandi,

allt til spillis fer,

böl er hversu bráðdrepandi

blessað lífið er.

Það má vel sækja heilræði í smiðju Þorgeirs Magnússonar, sem er í anda Piets Heins:

Oft mun rétt það allra fyrsta

er í hugann kemur.

Brenni sneið, er best að rista

brauðið aðeins skemur.

Guðrún Bjarnadóttir lætur ekki sitt eftir liggja:

Fínt er að róa fram í gráðið,

finnst hverjum ellismelli,

og brenni sneið er besta ráðið

að borða hana í hvelli.

Jón Jens Kristjánsson setur á sig limruhattinn:

Sighvatur býr uppí bjálkanum

í bænum þar yst á kjálkanum

þreytandi flestum

þylur hann gestum

það sem hann las í Fálkanum.

Jón Ingvar Jónsson og Hjálmar Freysteinsson könkuðust oft á þegar Leirinn, póstlisti hagyrðinga, var og hét. Eitt sinn var Jón Ingvar daufur í dálkinn:

Er gekk ég vestur Grandaveg

af gömlum leiðum vana

eina vísu orti ég.

Ekki man ég hana.

Gekk ég niður Gnoðarvog

gneypur mjög og þagði

góða vísu gerði og

gleymdi henni að bragði.

Hjálmar reyndi að stappa
stálinu í Jón Ingvar:

Leikmenn jafnt og lærðir prestar

mér löngum færðu sanninn heim

að jafnan eru bögur bestar

ef búið er að gleyma þeim.