[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Mikilvægt er fyrir bókaútgefendur á Íslandi að nota tímann meðan þeir fá endurgreiðslur frá ríkinu til að móta framtíðaráform sín. Fram undan séu gríðarlegar breytingar á bókamarkaði, bæði vegna tæknibreytinga en einnig tilkomu gervigreindar

Sviðsljós

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

Mikilvægt er fyrir bókaútgefendur á Íslandi að nota tímann meðan þeir fá endurgreiðslur frá ríkinu til að móta framtíðaráform sín. Fram undan séu gríðarlegar breytingar á bókamarkaði, bæði vegna tæknibreytinga en einnig tilkomu gervigreindar. Þetta kom fram í máli Halldórs Guðmundssonar stjórnarformanns Forlagsins, á ráðstefnunni Fjárfesting í íslenskum bókum – skiptir hún máli? sem menningar- og viðskiptaráðuneytið stóð fyrir á dögunum.

Ráðstefnan var haldin í kjölfar úttektar sem Deloitte vann fyrir ráðuneytið seint á síðasta ári. Fram kom í kynningu á niðurstöðum að veltan á íslenskum bókamarkaði hefði dregist verulega saman, samkvæmt gögnum Hagstofunnar allt frá 2008-2018, eða um 43% á föstu verðlagi, eins og fjallað hefur verið ítarlega um í Morgunblaðinu. Endurgreiðslur stjórnvalda vegna kostnaðar við útgáfu bóka á íslensku voru meðal annars hugsaðar til að bregðast við þessu ástandi.

Niðurstöður Deloitte sýna að endurgreiðslur vegna bókaútgáfu hafi stuðlað að lægra verði á bókum til neytenda en ella. Þannig má sjá svart á hvítu að verðlag á bókum hefur á tímabilinu sem til rannsóknar var hækkað minna en almennt verðlag sem skilgreint er í vísitölu neysluverðs. Jafnframt segir að sterkar vísbendingar séu um að endurgreiðslurnar hafi haft áhrif á fjölda útgefinna titla og stuðlað að fjölbreyttara framboði bóka.

Bryndís Loftsdóttir, framkvæmdastjóri Félags íslenskra bókaútgefenda, segir við Morgunblaðið að verðþróun bóka hafi verið með misjöfnum hætti eftir flokkum þeirra. Sem dæmi hafi íslenskar skáldsögur lækkað að raunvirði um 13% frá árinu 2016 til 2023. Á meðfylgjandi grafi má sjá að raunlækkun barnabóka er tæp 9% og lækkun á ævisögum er 5,5%. Mesta raunlækkunin er á íslenskum skáldverkum í kilju, upp á rúm 18%.

Í máli sínu á ráðstefnunni gat Bryndís þess að sölutölur einstakra titla yllu áhyggjum því þeim hefði fækkað jafnt og þétt frá 2016-2022. Eins og fjallað var um í Morgunblaðinu á dögunum benda þó tölur fyrir árið 2023 til þess að bóksala sé aftur að taka við sér.

Á vef menningar- og viðskiptaráðuneytisins er vitnað til ræðu Halldórs Guðmundssonar um framtíðarhorfur í bókaútgáfu. Líkti Halldór stöðunni nú, með tilkomu hljóðbóka, við þá áskorun sem tónlistarmarkaðurinn stóð frammi fyrir um síðustu aldamót þegar streymi á vefnum tók við af geisladiskum. Hann sagði að rúmlega þriðja hver bók sem lesin væri á Íslandi bærist lesendum í gegnum heyrnartól og hér á landi væru á sjötta tug þúsunda með áskrift að streymisveitum hljóðbóka. Viðskiptamódel kringum hljóðbókina væri hins vegar enn mjög óhagfellt rithöfundum, bókaútgefendum, forlögum og öðrum rétthöfum og hefði skert tekjumöguleika þeirra mikið.

Höf.: Höskuldur Daði Magnússon