[ Smellið til að sjá stærri mynd ]

Karl Sigurbjörnsson fæddist 5. febrúar 1947 í Reykjavík. Hann lést á gjörgæsludeild Landspítalans í Fossvogi 12. febrúar 2024 í faðmi fjölskyldunnar.

Foreldrar hans voru Sigurbjörn Einarsson biskup, f. 30. júní 1911, d. 28. ágúst 2008, og Magnea Þorkelsdóttir, f. 1. mars 1911, d. 10. apríl 2006.

Karl var sjötti í röð átta systkina, hin eru Gíslrún, f. 23. september 1934, Rannveig, f. 28. febrúar 1936, Þorkell, f. 16. júlí 1938, d. 30. janúar 2013, Árni Bergur, f. 24. janúar 1941, d. 17. september 2005, Einar, f. 6. maí 1944, d. 20. febrúar 2019, Björn, f. 27. júní 1949, d. 27. janúar 2003, Gunnar, f. 3. ágúst 1951.

Eftirlifandi eiginkona Karls er Kristín Þórdís Guðjónsdóttir, f. 16. mars 1946. Foreldrar hennar voru Guðjón Jónsson, f. 14. september 1905, d. 6. desember 1987, og Ingveldur Jónsdóttir, f. 13. ágúst 1902, d. 11. mars 1968.

Börn þeirra eru: 1) Inga Rut, f. 3. febrúar 1971, gift Sigurði Arnarsyni, f. 29. júní 1967. Börn þeirra eru Kristinn Örn, f. 9. apríl 1999, Birna Magnea, f. 28. júlí 2002, Karólína María, f. 25. ágúst 2006, og Gunnar Karl, f. 3. apríl 2009. 2) Rannveig Eva, f. 23. desember 1975, barn Karl Guðjón Bjarnason, f. 8. mars 2005. 3) Guðjón Davíð, f. 8. apríl 1980, kvæntur Ingibjörgu Ýri Óskarsdóttur, f. 28. júlí 1984. Börn þeirra eru Óskar Sigurbjörn, f. 19. september 2008, Kristín Þórdís, f. 10. október 2011, og Ari Steinn, f. 29. október 2019.

Karl ólst upp í Reykjavík og lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík og síðar cand. theol. frá Háskóla Íslands.

Hann vígðist til prestþjónustu í Vestmannaeyjum 4. febrúar 1973 og var skipaður sóknarprestur í Hallgrímsprestakalli í Reykjavík 1. janúar 1975 og þjónaði þar í tæp 23 ár.

Hann bjó í Svíþjóð í eitt ár, ásamt fjölskyldu sinni, og starfaði hjá sænsku kirkjunni árið 1977-78. Einnig dvaldi hann með fjölskyldu sinni í Bandaríkjunum árið 1988-89, er hann nam sálgæslu við University of Washington, og starfaði á sjúkrahúsi í Tacoma.

Karl var kjörinn biskup Íslands árið 1997 og gegndi embættinu í 14 ár frá 1. janúar 1998. Hann þjónaði eftir það um tíma í Dómkirkjuprestakalli.

Karl var sæmdur stórriddarakrossi með stjörnu og var einnig skipaður heiðursdoktor við Háskóla Íslands. Hann gegndi ýmsum trúnaðarstörfum fyrir þjóðkirkjuna, sat í stjórn Prestafélags Íslands, var kirkjuþingsmaður og í kirkjuráði áður en hann var kjörinn biskup Íslands.

Eftir hann liggja fjölmargar bækur og rit, frumsamin og þýdd.

Útför Karls fer fram frá Hallgrímskirkju í dag, 26. febrúar 2024, kl. 13.

Í dag er hjartað mitt fullt af þakklæti og hugurinn fullur af sorg. Í dag græt ég um leið og ég þakka. Ég á nefnilega honum pabba svo margt að þakka. Hann var svo góð fyrirmynd rétt eins og mamma. Ég get fullyrt að samband þeirra var alveg einstakt. Þau elskuðu hvort annað skilyrðislaust og sýndu hvort öðru virðingu alla tíð. Það er ómetanlegt veganesti okkur afkomendum þeirra. Ég er full þakklætis fyrir að hafa átt hann að og opinn faðminn hans. Traustið sem foreldrar mínir sýndu mér er ómetanlegt. Pabbi sagði mér oft sögur af því þegar hann tók mig með sér í Landakirkju og ég lék mér með skó kvennanna í kórnum á meðan hann athafnaði. Við systkinin fórum alltaf með í messur bæði í hversdeginum og á hátíðum. Ég er þakklát fyrir þá virðingu sem mamma kenndi okkur með því að klæða okkur og sig upp fyrir athafnir og bera ómælda virðingu fyrir helginni sem var í kirkjunni. Ég vona að ég hafi komið því áfram til minna barna. Ég er þakklát fyrir jólin sem ég átti með pabba mínum á Bragagötunni þegar ég var rúmlega fjögurra ára og hann tók mig með sér í kirkjuna og í messurnar á Landspítalanum á aðfangadag þegar mamma lá á Fæðingarheimilinu eftir að Lalla fæddist. Mér skilst ég hafi fengið hangikjöt í tíu daga þessi jól. Ég er líka þakklát pabba og mömmu fyrir að leyfa mér að vera litla ráðskonan og litla mamma hans Góa, níu ára gamalli. Mér fannst ég vera fullorðin alveg eins og þau. Þau sýndu mér og systkinum mínum virðingu með því að við fengum að fara með þeim nánast allt sem þau fóru og eins að þau komu fram við okkur sem jafningja. Þannig reyni ég að koma fram við fólkið mitt. Þegar ég varð eldri fékk ég að hugsa um sunnudagaskólann. Það var lærdómsríkt og þegar við stofnuðum æskulýðsfélagið Örk (Öldungis ruglaðir krakkar las pabbi úr skammstöfuninni og hló). Fallega skrifstofan í Hallgrímskirkju var okkur krökkunum opin hvort sem við sátum þar og föndruðum, lærðum fyrir skólann eða sóttum í aðstoð pabba af einhverju tagi. Fyrir alla göngutúrana okkar um Þingholtin sem unglingur er ég þakklát. Í uppeldið sem unglingurinn ég fékk voru fléttaðar sögur af honum sem barni og mér sýndur fullur skilningur á því sem ég var að upplifa og í leiðinni einstök hvatning áfram. Einnig fæ ég aldrei fullþakkað það traust sem pabbi sýndi mér í veikindum sínum. Þá lærði ég svo ótal margt. Þvílíka æðruleysið sem pabbi sýndi. Erfiðar heimsóknir til lækna síðastliðið ár urðu að fallegum minningum eins og pabba var einum lagið. Þar skein í gegn sá mikli kærleikur sem mamma og pabbi sýndu hvort öðru og okkur. Samstiga í öllu voru þau. Ég þakka í dag að hann þurfi ekki að líða meiri kvalir en ég græt í dag af söknuði. Í dag er hugurinn fullur af sorg þegar ég kveð hann pabba minn. Í dag er ég full þakklætis fyrir allan þann kærleika, ást og hlýju sem hann sýndi mér og fjölskyldunni sinni. Guð geymi elsku pabba minn.

Vaktu, minn Jesú, vaktu í mér,

vaka láttu mig eins í þér.

Sálin vaki þá sofnar líf,

sé hún ætíð í þinni hlíf.

Inga Rut Karlsdóttir.

Það er ótrúleg gæfa að hafa fengið að alast upp í faðmi pabba, hann gaf endalaust af sér. Starfandi í fjölmennu prestakalli, með endalaus verkefni á sinni könnu, fékk ég aldrei að finna annað en að hann hefði allan tíma í heiminum fyrir mig. Ég fékk líka að fylgja honum í starfi, þar sem lítil og ákveðin pabbastelpa þverneitaði að fara í leikskóla. Hlutirnir voru látnir ganga upp.

Honum féll aldrei verk úr hendi, skrifaði predikanir, þýddi bækur, las ógrynnin öll af bókum, sér til gamans og uppfræðslu. Enda var hann mín alfræðiorðabók, mitt eigið uppflettirit. Ef svo ólíklega vildi til að hann hafði ekki svörin, þá fletti hann upp í bók og dró þau fram. Vissi nákvæmlega hvar þau var að finna og miðlaði áfram. Það var sama hver spurningin var, um trúarbragðafræði, sagnfræði, list, arkitektúr, hönnun, leiklist, tónlist, allt milli himins og jarðar.

Hann kom úr stórum systkinahópi, og sögurnar hans frá uppvaxtarárunum voru dýrmætar og innilegar. Þetta var góður hópur, ýmislegt var brallað í gegnum tíðina. Amma og afi héldu vel utan um börnin sín, sem gerir það að verkum að upplifun og samkennd er svo sterk.

Pabbi og mamma byggðu parhús á Þórsgötu, ég var sjö ára þegar við fluttum þar inn. Þar var dásamlegt að búa, en mannlífið skrautlegt oft á tíðum. Það var mikið álag á heimilinu, mikið um símhringingar, en upplifunin var aldrei sú. Ég á mikinn fjársjóð minninga sem ég held nú enn fastar utan um.

Ein af eftirminnilegustu minningunum úr æsku minni er ársdvöl okkar í Ameríku árið 1988-89. Ameríka, land tækifæranna, þar sem allt er risastórt. Pabbi keyrði út um allt, á rauðri óloftkældri Mözdu, til að sýna okkur um. Ein minning er frá því við heimsóttum vatnsrennibrautargarð. Þar var honum svo umhugað um að passa að rauðhausinn hans, ég, myndi ekki brenna í sterkri sólinni, að hann gleymdi sjálfum sér og skaðbrenndist.

Árið 2004 hafði ég búið í London í eitt og hálft ár, og lagði stund á nám í búningahönnun þar. Ég elskaði Lundúnalífið, söfnin þar og menninguna. Tveimur dögum fyrir heimför í páskafrí fékk ég heilablóðfall. Pabbi var á leið á biskupafund í Finnlandi, hafði millilent á Kastrup þegar hann fékk fréttirnar og breytti um stefnu. Var því kominn á gjörgæsluna til mín eftir örskamma stund. Sú tilfinning að sjá hann þar og þá er ógleymanleg.

Þegar ég eignaðist barnið mitt, fyrir næstum 19 árum, hann Kalla minn, var það stórkostlegt að fá að búa hjá pabba og mömmu. Ég naut þeirrar gæfu að hafa þau í húsinu. Fyrir vikið voru þeir Kallarnir svo nánir vinir. Fjöldi bíltúra, gönguferða í Gróttu, Öskjuhlíð, Heiðmörk, um miðbæinn, á æskuslóðir pabba, hvert sem leið lá. Og að skoða eyðibýli, rústir frá veru hermannanna á stríðsárunum, og í Gauragöngur frændanna með vasaljós, nesti og afa. Ótalmargar sögur og ævintýri.

Nú er komið að kveðjustund, hver hefði trúað því. Guð geymi allar þessar minningar, og svo ótalmargar fleiri. Enn einn kaflinn hefur nú lokast. Minningin lifir, elsku besti pabbi minn. Guð geymi þig.

Rannveig Eva Karlsdóttir.

Þegar lundin þín er hrelld.

þessum hlýddu orðum:

Gakktu við sjó og sittu við eld.

Svo kvað völvan forðum.

Þetta kenndi afi mér við göngu á Gróttu í einni af mörgum ferðum okkar þangað. Alltaf þegar það var fallegt sólsetur úti eða stjörnubjart kvöld hringdi afi og spurði hvort við ættum ekki að taka smá rúnt.

Hann afi var svo stór partur af mínu lífi, hann var mín föðurímynd, minn mentor, maðurinn sem ég leit mest upp til. Allt sem ég þurfti að læra um lífið og tilveruna kenndi hann afi mér á sinn sérstaka og fallega hátt. Hann vissi margt, stundum taldi ég að hann bara bókstaflega vissi allt, og það var það sem var svo æðislegt við hann, maður gat talað um hvað sem er við hann og manni leiddist aldrei.

Ég mun aldrei gleyma öllum stundunum sem við eyddum í að smíða skipamódel eða að skoða skipin á höfninni eða glápa á flugvélar eins og börn á nammibarnum í Hagkaup. Þetta var allt svo spennandi, hans áhugi á bílum, flugvélum og skipum varpaðist yfir á mig. Eitt af stærstu áhugamálum okkar afa var að keyra aðeins út á land og skoða eyðibýli, hann fór alltaf með okkur frændurna saman í gauragöngu eins og hann kallaði þetta, þar fórum við út í göngutúra í kolniðamyrkri með vasaljós og heitt kakó.

Núna verða þessar stundir ekki fleiri. Hann er farinn, en ég mun alltaf finna hann í sólsetrunum við Gróttu, sólsetrin svo falleg eins og brosið hans. Ég get fundið hann í stjörnubjörtum himninum þar sem hver og ein stjarna skín alveg jafn bjart og hann gerði alltaf. Takk, elsku afi minn, fyrir allar fallegu minningarnar sem þú gafst mér, farðu vel með þig.

Karl Guðjón Bjarnason.

Ég minnist tengdaföður míns með mikilli hlýju og virðingu. Kalli var einstaklega ljúfur og góður maður, bar virðingu fyrir fólki, hlustaði og ráðlagði. Hann hefur reynst mér ótrúlega vel síðustu 20 árin og tekið mér sem sinni eigin dóttur. Hann hjálpaði mér öll árin í háskólanum, fór yfir verkefni og ritgerðir og skipti engu máli hvort það var í hjúkrunarfræði eða ljósmóðurfræði. Kalli var mikill fræði- og tungumálamaður, uppfullur af fróðleik enda eru skáparnir okkar fullir af bókum sem hann hefur samið og þýtt í gegnum árin.

Ég bjó í nokkur ár á heimili þeirra Stínu sem alla tíð hefur einkennst af hlýju, ró og öryggi. Mestu gæðastundirnar voru þegar við sátum öll saman við borðstofuborðið og borðuðum dýrindis mat, spjölluðum og hlógum. Kalli hafði mjög gaman af því að vera boðinn í mat til okkar og þakkaði alltaf fyrir sig í marga daga á eftir. Ég er þakklát fyrir síðustu veisluna þar sem við öll fjölskyldan fögnuðum afmælinu hans hinn 5. febrúar heima hjá okkur Góa með góðum mat og píanóspili.

Hann var yndislegur afi, las mikið fyrir barnabörnin, lék sér í bíló á gólfinu og spjallaði um heima og geima. Ari, yngsta barnabarnið, var mikið í pössun hjá ömmu og afa í Hvassó á meðan við foreldrarnir unnum. Hann svaf vært á svölunum eftir að afi ruggaði og ruggaði vagninum á ofsahraða og söng hástöfum fyrir hann í leiðinni.

Hann vissi alltaf hvar allir voru og vildi alltaf fá mikið af myndum og myndsímtölum þegar við fórum í ferðalög, yfirleitt enduðu allir dagar á að senda minnst 20 myndir á afa Kalla.

Mikið á ég eftir að sakna hans en við fjölskyldan öll eigum ótal góðar minningar sem munu ylja okkur og styrkja um ókomin ár.

Takk fyrir allt það sem þú hefur kennt mér, væntumþykjuna og traustið allt. Takk fyrir yndislega Góa sem ólst upp í miklum kærleik og ást sem hefur gert hann að þeim manni sem hann er í dag.

Guð geymi þig, elsku Kalli.

Þín

Inga Ýr.

Elsku, elsku afi. Vá hvað þetta er skrítið allt saman. Þú varst svo mikið bestur og ég veit ekki hvernig lífið verður án þín. Mikið vona ég að þú finnir ekki til lengur og að þú sért í góðum félagsskap sem ég er nú alveg viss um. Ég veit ekki hvernig ég á eftir að klára Sölku Völku án þín eða bara íslensku yfirhöfuð. Þú varst alltaf til staðar og varst alltaf til í að hjálpa eða gera einhverja vitleysu. Það var alltaf svo gaman að fara með þér í ferðir og skoða alls konar staði og hlusta á sögurnar þínar og var aldrei hægt að spyrja þig spurningar sem þú vissir ekki svarið við. Öll ævintýrin sem við fórum saman og allt sem við sáum og allt skrítna fólkið sem við hittum og hlógum svo saman. Þú varst alltaf til í að bralla eitthvað og gerðir allt svo miklu skemmtilegra. Allar gauragöngurnar sem ég tróð mér með í og vasaljósagöngurnar og hvaðeina sem það var. Maður var aldrei út undan, þú passaðir alltaf upp á það. Þú passaðir alltaf upp á að við fyndum hvað við vorum elskuð af þér. Ég veit fátt skemmtilegra en þegar við vorum að skrifa saman ritgerð og þú vissir allt, við þurftum ekki einu sinni að nota skólabókina og áttum eiginlega frekar í vandræðum með að nota hana en ekki. Svo passaði amma að við værum nú ekki svöng og gerði pönnukökur fyrir 100 og var svo alltaf að spyrja hvort við þyrftum eitthvað meira eða hvort við værum nokkuð svöng. Þú varst svo skemmtilegur. Mér þótti líka svo vænt um að þú studdir mig alltaf í því sem mig langaði að gera þótt þér litist ekkert á það. Ég gleymi ekki þegar ég sagði þér að ég væri komin inn til þess að læra snyrtifræði og þér fannst það svolítið skrítið en fannst það svo í lagi þegar ég sagði þér að ég væri nú líka að taka stúdentinn. Svo varstu duglegur að fylgjast með hvernig mér gengi í skólanum og spurðir mig alltaf hvenær ég ætti nú að útskrifast. Ég elska þig svo mikið, elsku afi, þú ert svo mikið bestur.

Góða nótt og guð geymi þig.

Karólína María
Sigurðardóttir.

Ég, afi og frændur mínir fórum oft í göngutúra saman sem afi kallaði „gauragöngur“. Við spjölluðum um margt og mikið en oftast um mannkynssöguna, sem var í miklu uppáhaldi hjá okkur frændum og afa. Við tálguðum, teiknuðum og hlógum mikið saman og fengum okkur nóg af ópali, prins póló og kóki. Afi Kalli var ekki bara afi, hann var vinur og gjöf frá Guði. Þegar hann kom í heimsókn lýstist húsið upp og þegar hann brosti fór öll sorg. Hann talaði oft um að Guð væri skaparinn, Jesús væri frelsarinn og heilagi andinn væri hugarinn og heilagur andi lifði svo sannarlega í hjartanu hans. Ég væri ekki sama persóna og ég er núna ef það væri ekki fyrir hann afa. En þó að ég sé búinn að missa hluta úr lífi mínu er ég ekki búinn að missa minningarnar sem ég átti með honum. Hann var dýrlingur fyrir mér. Ég mun alltaf elska þig, afi.

Gunnar Karl Sigurðsson.

Elsku, elsku góði afi minn.

Afi vildi allt fyrir alla gera og var einfaldlega bestur. Hann kenndi manni líka ofboðslega margt og vissi ótrúlegustu hluti, fræddi mann um allt milli himins og jarðar, en það mikilvægasta sem hann kenndi mér var það hvað fjölskyldan og vinir eru okkur dýrmæt. Það sem ég er þakklát fyrir að kalla hann afa minn, afi minn var ekki bara afi heldur vinur, sannur og góður vinur, það var alltaf hægt að stóla á hann afa gamla.

Afi var maður sem vissi ansi margt, allt milli himins og jarðar og alveg ótrúlegustu hluti enda fannst honum fátt skemmtilegra en að fræða mann og segja manni alls kyns sögur og brandara. Það sem ég gæfi fyrir það bara að fá að heyra einn brandara í viðbót frá honum og heyra hann svo hlæja að sjálfum sér manna hæst.

Ég er alveg viss um nú er hann að segja alls konar sögur og brandara við bræður sína og foreldra sem eru nú sameinuð á ný.

Það er svo skrítið að hugsa til þess að fyrir tæpum tveimur vikum fórum við fjölskyldan saman í bíó og skemmtum okkur konunglega og hann hló manna hæst og svo daginn eftir vorum við að halda upp á afmælið hans í svaka hamborgaraveislu sem var hans uppáhaldsmatur.

Það sem ég sakna afa gamla eins og hann myndi segja sjálfur.

Verður erfitt að finna ekki ópallyktina inni í bílnum hans og krakka að flissa þegar hann byrjar að syngja langhæst í messu.

Elsku, elsku afi minn, góða nótt og Guð geymi þig, ég elska þig.

Þín

Birna Magnea
Sigurðardóttir.

Sannleikurinn er sjaldnast einfaldur, er oft mótsagnakenndur. En hvernig nálgumst við sannleikann? Er það yfirhöfuð hægt? Stundum er það svo að því minna sem við vitum, þeim mun vissari erum við í okkar sök. Við sættum okkur við einfalda mynd, stólum á frasa og klisjur, og teljum að takmarkinu sé náð. En fyrir þá sem vilja meira og kafa dýpra, þá vita þeir að þetta snýst ekki um að komast á leiðarenda. Þekkingarleitin er aldrei fullkomnuð. Því lengra sem farið er og því meiri lönd sem numin eru, þá eykst samtímis meðvitundin um hversu langt er enn í land. Í því liggur mikil þversögn. Því meiri þekking, því meiri óvissa. En á sama tíma er það líka hvatning til að halda áfram leitinni að sannleikanum, að þreifa fyrir sér, skoða, greina, skerpa og slípa.

Kalli frændi minn hafði einmitt dýptina, ímyndunaraflið, iðnina og tilfinningagreindina til að höndla og meta hinar stóru mótsagnir lífsins og fór manna lengst í þessari leit. Hann var svo gáfaður og vel að sér, en á sama tíma svo einstaklega hógvær og reiðubúinn að hlýða á aðra og læra af reynslu þeirra. Hann var sífellt að afla sér þekkingar og finna nýjar leiðir til að skilja hið óskiljanlega, að lýsa hinu ólýsanlega. Kalli var þessi sérstaka blanda af einstakri blíðu og hlýju en á sama tíma svo kraftmikill, sterkur og ákveðinn. Hann var með hugann við hefðina og söguna en ávallt horfandi til framtíðar. Hann var viss í sinni trú en stöðugt að vinna við að auðga og þróa eigið trúarlíf. Spurningarnar knúðu hann áfram og við hin nutum afraksturs þess. Með sitt fágaða og milda fegurðarskyn náði hann að gera hversdagsleikann hátíðlegan, byrði sorgarinnar léttari og hið dularfulla skýrara. Hann var hrifnæmur en á sama tíma með báða fætur á jörðinni. Hann var vel stillt hljóðfæri Skaparans, sífellt gefandi og þjónandi – aldrei feilnóta. Framsetning hans var tær, ekki klisjukennd einföldun. Hún sýndi viðfangsefninu lotningu en bar líka virðingu fyrir þeim sem á hlýddu með því að sýna hvar og hvernig máttur og fegurð almættisins birtist.

Hann var leiðtogi og kennari af Guðs náð þar sem hann tengdi saman stærstu og helstu mótsagnirnar og náði því að skýra fyrir okkur helstu undur og spursmál samtímans. Hans ríka líf með sína ástríku fjölskyldu hefur skilað svo miklu. Það er engin mótsögn í því að þótt hann hafi kvatt er hann enn á lífi og hans þjónusta heldur áfram. Hann var og er fyrirmynd. Leit okkar verður því fyrir vikið aðeins auðveldari og gæfuríkari. Fyrir allt sem hann gaf verð ég honum ævinlega þakklátur.

Magnús Þorkell
Bernharðsson.

Hvernig undirbýr maður sig undir hið óumflýjanlega, stundina sem nálgast? Mildur septembermorgunn í logagylltum litum er ég hitti föðurbróður minn, við spítalann þar sem faðir minn færðist nær hinu óumflýjanlega, þegar allt yrði breytt. Lífsandinn síðasti dreginn og ekkert aftur eins og áður. Hvernig er hægt að undirbúa sig spurði ég í örvæntingu á haustregnglampandi bílastæði við spítalann þennan morgun, hann á leið frá veikum föður mínum einu sinni sem oftar, ég á leið til föður míns með nýfædda son minn í fanginu. Orð frænda míns þennan morgun hljóma enn svo sönn, eins og stundin sem meitlaðist inn í huga minn þá; það er ekki hægt að undirbúa sig undir dauðann, svaraði hann, ekkert verður aftur eins, allt mun breytast. Eins og fæðing barns breytir lífinu frá þeirri stundu, svo mun og dauðinn breyta öllu, ekkert verður aftur eins. Svarið hans málað regnvotum haustlitum. Samtal okkar bergmálaði í huga mér við andlát pabba stuttu seinna og svo mömmu og aftur og aftur við andlát ömmu og afa og bræðra hans og margra annarra ástvina minna, og nú hans. Elsku frændi minn sem var mér, börnunum mínum, föður mínum í hans veikindum og foreldrum mínum svo óendanlega dýrmætur í stóru sem smáu. Kalli frændi minn.

Hvernig á að orða hið óendanlega sára? Ná utan um söknuðinn? Segja í fáum orðum hver hann var mér. Fátækleg orð ná ekki utan um það.

Hann fermdi fjögur barna minna eftir andlát pabba og skírði eldri ömmustelpu mína. Allt sem hann gerði var gert af næmi og örlæti í öllum aðstæðum.

Þannig tók hann börnin mín sem hann fermdi í einkaskemmtiferð, til að kynnast þeim enn betur. „Hann Kalli er svo skemmtilegur og fyndinn!“ Þau kát eftir það, enda ekki nema von. Þannig var hann, mætti unglingunum mínum þar sem þau voru stödd.

Litla ömmustelpan mín með hlaupabólu og um leið kom Kalli frændi upp í hugann:

„Ertu með hlaupabólu? Þá verðurðu að hlaupa hring eftir hring þar til þú losnar við þær!“ Þessu trúði ég auðvitað fimm ára og útsteypt þegar Kalli sagði þetta glettinn við mig. Hljóp af mér bólurnar, og svo gáfu þau Kristín mér stóra dúkku sem auðvitað fékk nafn Kristínar hans Kalla. Alltaf Kristín og Kalli.

Ógleymanlegir merkimiðar á jólapakka, klifrandi skelmislegir jólasveinar með talblöðrur sem á var skrifað örsmáu letri: Gleðileg jól, Harpa! Þessi pakki er til systur þinnar! Hvað við hlógum að þessum pappírssveinum sem urðu að jólaskrauti á jólatré bernsku minnar, eins og Betlehemsundrið fíngerða smáa inni í eldspýtnastokki, teiknað og málað, á pakka til pabba og mömmu. Fegursta jólaskrautið alla tíð síðan. Listamaðurinn sem hann var og allt fagurt sem hann gerði. Teikningar hans, í hinni fallegu bók hans Táknmál trúarinnar, svo fátt eitt sé nefnt. Næmi og listfengi í öllu alla tíð.

Ég kveð elskaðan föðurbróður minn með söknuði og þakklæti fyrir allt sem hann var mér og mínum. Guð blessi bjarta minningu hans og styrki Kristínu, Ingu Rut, Löllu, Góa og fjölskyldur þeirra í sorginni.

Harpa Árnadóttir.

Mér er tregt tungu að hræra, þegar ég nú minnist míns ágæta frænda og vinar, Karls biskups.

Þegar ég kom í Hallgrímskirkju á námsárum mínum í guðfræði, þá hitti ég þar fyrir prestana tvo, Ragnar Fjalar Lárusson og Karl. Sigurbjörn og Magnea komu svo alltaf í messu á sunnudögum. Þá vissi ég ekki, hversu náskyld ég var þeim feðgunum, eins og ég komst síðar að.

Ég kunni alltaf vel við Karl. Það var gott að tala við hann, og hann var alveg einstakur á sína vísu. Ef manni leið illa, þá talaði hann alltaf uppörvandi við mann. Eins gat hann verið glettinn og skemmtilegur, stundum stríðinn, ef því var að skipta, án þess að það kæmi illa við mann á nokkurn hátt. Líkt og faðir hans og Einar bróðir hans hafði hann mjög góða nærveru, og það var alltaf indælt að hitta hann, hvenær sem var og við hvaða aðstæður sem var.

Ekki var það verra, þegar ég fræddi hann um hversu skyld við værum – fimmmenningar – og þá fékk ég að kynnast hversu frændrækinn hann var, ekki síður en Einar. Stórfróður um margt – ekki vantaði það. Og hafði sínar ákveðnu skoðanir á mönnum og málefnum, og við oft sammála að mörgu leyti. Þess vegna hafði ég svo gaman af að ræða við hann og heyra hans álit um málefni líðandi stundar, enda lá hann ekki á skoðunum sínum, hreinskilinn að vanda og ávallt trúr köllun sinni og þjónustu við kirkju og kristni í landinu. Það var hægt að læra margt og mikið af Karli.

Meðan ég sótti enn Dómkirkjuna á tíunda áratugnum bar við að við hittumst þar við ýmis tækifæri, en hin síðari ár hafði ég mest samband við hann í gegnum vefpóstinn, auk þess sem hann var vinur minn á fésbókinni.

Nú er hann horfinn yfir í eilífðarlandið eftir erfið veikindi og eftir situr söknuðurinn og eftirsjáin. Ég á svo sannarlega eftir að sakna þessa ágæta frænda míns, og finnast heldur tómt um mig á margan hátt, þegar þeir eru báðir horfnir úr þessum heimi, bræðurnir Einar og hann, eins og var alltaf gaman að tala við þá og heyra í þeim og leita álits þeirra á ýmsu, sem átti sér stað innan kirkju sem utan.

Þegar ég nú kveð blessaðan frænda minn hinstu kveðju, þá er ég ekki aðeins full þakklætis fyrir góða viðkynningu og vináttu gegnum árin auk frændrækninnar, og alls þess góða og gjöfula, sem hann skildi eftir hjá mér, heldur bið ég honum allrar blessunar Guðs, þar sem hann er nú, og votta Kristínu og fjölskyldunni allri mína dýpstu samúð, og bið Guð að styrkja þau í sorginni og eftirsjánni.

Blessuð sé minning míns kæra frænda og vinar, Karls Sigurbjörnssonar biskups.

Guðbjörg Snót Jónsdóttir.

Biskup Íslands ber fjölþætta ábyrgð. Stjórnar þjóðkirkju með aldalangar rætur í menningu og sögu en fetar einnig ótroðnar slóðir, brautir nýsköpunar og tíðaranda hins sífellt flóknara samfélags. Þarf að vera andlegur leiðtogi, víðsýnn og vitur, en líka sálusorgari, einkum þegar hörmuleg áföll heltaka hugi fólksins í landinu.

Allt þetta var Karl Sigurbjörnsson. Sannur kirkjuhöfðingi. Metinn að verðleikum. Sómdi sér vel meðal merkra biskupa á þúsund ára vegferð Íslendinga. Mun um ókomna tíð skipa þar virðingarsess ásamt nafntoguðum biskupum Skálholts og Hóla. Herra Karl þó biskup alls Íslands. Sóknin í reynd þjóðin öll.

Mannvit og gáfur léttu honum sporin. Samt skipti mestu að séra Karl var einstaklega góður maður; vinur í raun.

Það þekktum við í fjölskyldunni. Okkur dýrmætt í veikindum og við andlát Guðrúnar Katrínar. Þá og næstu árin reyndist hann okkur vel. Líka þegar Dorrit kom til sögunnar. Hún ætíð metið mikils hve fagnandi hann tók henni; lærður vel í trú og siðum gyðinga. Naut sín til hlítar í lærðum samræðum við aldinn föður hennar. Þeir lengi á rökstólum um atburði og persónur Gamla testamentisins.

Á hverjum jólum barst til Bessastaða bókargjöf frá Karli og Kristínu. Stundum voru ritin eftir hann sjálfan. Viskuorð. Nægtabrunnur. Þó mest um vert að skynja vináttuandann sem gjöfunum fylgdi.

Í minningunni ljómar líka för okkar í Páfagarð í aðdraganda aldamóta. Erindið að ná fundi Jóhannesar Páls II, bjóða hans heilagleika að senda fulltrúa á þúsund ára kristnihátíð sem halda skyldi á Þingvöllum. Mun vera í fyrsta og eina sinn sem kirkjuhöfðingi og þjóðhöfðingi Íslands gengu saman til Rómar eins og sagt var fyrrum, mættu báðir í frægðarsali Vatíkansins. Leiðangurinn árangursríkur; kardínáli hinnar kaþólsku kirkju með þjóðinni við Öxará.

Á kveðjustundu þökkum við Dorrit, Dalla og Tinna allt sem hann gerði fyrir okkur; einkum á erfiðum tímum, og vottum Kristínu og fjölskyldunni einlæga samúð.

Ólafur Ragnar Grímsson.

Þakkið Drottni því að hann er góður,

því að miskunn hans varir að eilífu.

Amen.

(Sálm. 106:1)

Við fráfall okkar dýrmæta vinar sr. Karls Sigurbjörnssonar kemur þessi fallega borðbæn upp í hugann, sem við fjölskyldan vorum svo lánsöm að mega deila með honum og Kristínu og börnunum þeirra í óteljandi samverustundum gegnum áratuga langa vináttu okkar.

Það var mikil blessun að koma til starfa í Hallgrímskirkju vorið 1982, þar sem sr. Karl og Kristín tóku opnum örmum á móti ungum tónlistamanni og fjölskyldunni hans. Bygging kirkjunnar var enn í fullum gangi og ekki búið að ljúka við kirkjuskipið sem stóð opið án þaks, svo messað var í öðrum væng kirkjuturnsins. Mikið starf beið okkar sem þar störfuðum við að byggja upp kirkju- og listastarf sem samboðið væri þjóðarhelgidóminum. Bæði Mótettukór og Listvinafélag Hallgrímskirkju voru stofnuð haustið 1982 sem liður í þeirri uppbygginu og var sr. Karl mikill og einlægur stuðningsmaður þeirra alla tíð. Við þessar krefjandi aðstæður í hálfbyggðri kirkjunni myndaðist dýrmæt vinátta milli okkar og fjölskyldna okkar sem gaf af sér mjög skapandi og frjótt samstarf. Hver messa og athöfn var tilhlökkunarefni í samvinnunni við sr. Karl, sem var prestur af Guðs náð. Hann naut þess að þjóna og laðaði alltaf að sér stóran söfnuð jafnvel löngu áður en byggingu Hallgrímskirkju var lokið. Hann var frábær predikari og þekkti bæði sálma og sálmalög betur en aðrir, svo aldrei var komið að tómum kofunum hjá honum.

Það er einnig mikið þakkarefni að hafa verið einn nánasti samstarfsmaður sr. Karls við nokkrar stærstu stundir í ævistarfi okkar og í sögu íslensku þjóðkirkjunnar – við vígslu Hallgrímskirkju, vígslu Klais-orgelsins í Hallgrímskirkju, biskupsvígslu sr. Karls og Kristnihátíð á Þingvöllum í tilefni af 1000 ára afmæli kristni á Íslandi. Einnig sinnti sr. Karl prestsþjónustu við margar stórar stundir í okkar persónulega lífi, sem er okkur afar dýrmætt.

Karl var einstakur vinur, kærleiksríkur, hlýr, gáfaður, glettinn, vel lesinn og stálminnugur og alltaf kom maður ríkari af hans fundi.

Við þessi tímamót langar okkur að þakka Kristínu eiginkonu Karls fyrir allt sem hún gaf af sér svo Karl gæti blómstrað í lífi og starfi, en hún hefur alla tíð staðið þétt við bak hans og voru þau einstaklega glæsileg, samhent og gestrisin hjón.

Hugur okkar er fullur þakklætis fyrir okkar dýrmætu vináttu og allar stóru stundirnar sem við áttum saman í gleði og sorg. Minningin um þennan einstaka öðling mun alltaf lifa með okkur.

Guð blessi minningu elsku Kalla og ykkur elsku Stína, Inga Rut, Lalla og Gói og fjölskylduna ykkar alla.

Hörður Áskelsson,

Inga Rós Ingólfsdóttir,

Guðrún Hrund,

Inga, Áskell og

fjölskyldur.

Það er ekki sjálfgefið að eignast góða nágranna. Kynni okkar hófust einmitt þannig. Það er heldur ekki sjálfgefið að mikil og náin vinátta skapist þar til viðbótar. Karl Sigurbjörnsson og Kristín fluttu í íbúðina á móti okkur árið 2012, þegar hann lét af embætti biskups. Það sem vakti fyrst athygli manns var afar þægileg og ljúfmannleg nærvera. Hann var svo algerlega laus við hroka eða oflátungshátt. Afar glaðvær og mikill húmoristi. Það var gaman að fara yfir til þeirra og skiptast á sögum og hlæja. Þau tóku þátt í gleði okkar og sorgum. Þegar dætur okkar áttu afmæli eða þegar þær útskrifuðust birtust þau með gjöf og kveðjur. Þegar veikindi og andlát knúðu dyra voru þau ávallt til staðar á sinn nærgætna hátt. Þegar við höfðum verið nágrannar í nokkur ár fékk Karl sjúkdómsgreiningu sem hafði mikil áhrif á líf hans og lífsgæði. Þá kynntumst við nýjum fleti á honum og hans persónu. Hann tók sjúkdómnum af ótrúlegu æðruleysi. Þegar fólk greinist með krabbamein eða aðra alvarlega sjúkdóma er afar mannlegt og eðlilegt að fólk spyrji: „Hvers vegna ég, hvers vegna þurfti þetta að koma fyrir mig?“ Hann sagði hins vegar: „Hvers vegna ekki ég?“ Með æðruleysið og húmorinn að vopni tókst hann á við þessa baráttu og þannig barðist hann til síðasta dags. Sá tími kom að þau þurftu að flytja en sem betur fer fluttu þau ekki langt. Við áttum síðast yndislega stund með þeim hjónum og Ingu Rut og hennar börnum í janúar á þessu ári. Hann bar sig vel og enn var frásagnargáfan svo sannarlega til staðar. Það mátti þó sjá að nokkuð hafði dregið af honum og þrekið minnkað. Það kom þó á óvart þegar Inga Rut hringdi til okkar og sagði okkur frá því að hann væri kominn á spítala og lést hann nokkrum dögum síðar. Við kveðjum góðan mann og einstakan vin með trega og sendum Kristínu og fjölskyldu okkar dýpstu samúðarkveðjur.

Hildur, Ásgeir Valur,
Þorbjörg, Dagný og
Anna Lilja.

Í árdagsbirtu efsta dags

mun augljós birtast oss

sá Guð er heimi huldist fyrr

af harðri jötu' og kross.

Þó enn sé samur og hann var

mun alskær vera hans

og sólu fegri ásýnd öll

fyrir augum sérhvers manns.

(Karl Sigurbjörnsson, sb 13.)

Karl biskup var predikari af Guðs náð. Hann var einn þeirra sem fagnaðarerindi Jesú Krists hafði svo gegnsýrt að honum gat orðið allt að predikun, hvert tilefni, allar kringumstæður. Og – hann var maður bænarinnar. Í prestsþjónustunni var hann nærfærinn sálusorgari sóknarbarna í einrúmi og safnaðarins í guðsþjónustunni og í biskupsþjónustunni er hann eftirminnilegastur þegar hann úr predikunarstóli mælti orð huggunar og sálgæslu til allrar þjóðarinnar, eða þegar hann talaði til prestastéttarinnar á synodus.

Í biskupsþjónustunni var hann í senn nákvæmur embættismaður, eins og vísitasíur hans bera best vitni um og hlýr og heillandi félagi kirkjufólksins sem hann vitjaði á þeim ferðum. Hann var sístarfandi, eins og bækur hans og þýðingar bera fagurt vitni um. Allt starf hans bar merki um löngun hans og þörf fyrir að þjóna því embætti sem honum hafði verið trúað fyrir, ekki aðeins í vígslu sinni til prests og til biskups heldur sem barn í heilagri skírn. Sem biskup tók Karl við yfirumsjón kirkjunnar á miklum tímamótum, með því að hún var ekki lengur ríkiskirkja heldur sjálfstæð í öllum meginatriðum með öflugra kirkjuþing. Engu að síður hvíldi meiri þungi á biskupi og embætti hans á þessum tímamótum en áður hafði verið þegar fjölmörgu í stjórnsýslu kirkjunnar þurfti að koma fyrir á nýjan hátt. Karl hafði til dæmis forustu um Samþykktir um innri málefni þjóðkirkjunnar sem er hinn eiginlegi innri kirkjuréttur og var aðalhöfundur þeirra.

Honum var margt mótdrægt í biskupsþjónustunni og vegna kærleikans til kirkju Krists í landinu og í heiminum tók hann oft á sig þyngri byrðar en honum einum var ætlað að bera. Margir vildu létta undir með honum en vegna sinnar eigin samviskusemi var hann sjaldan fús til þess.

Séra Karl var mikill gæfumaður í sínu einkalífi. Frú Kristín Guðjónsdóttir kona hans var í senn lífsförunautur hans og besti vinur. Guð blessi og styrki hana og fjölskylduna á sorgarstundu. Lofaður sé Guð fyrir líf og störf Karls Sigurbjörnssonar biskups.

Margrét Bóasdóttir og Kristján Valur Ingólfsson.

Sælir eru hjartahreinir

því að þeir munu Guð sjá.

Sú dýrðlega sjón sem hjartað þráir ævilangt hafi það séð bjarma af henni nokkru sinni er nú gengin í uppfyllingu vonarinnar fyrir vini okkar og samferðamanni, Karli Sigurbjörnssyni. Við höfum átt samleið nokkrir frá námsárunum með sama mark og mið, séð hver til annars á leiðinni og sent hvatningarhróp, fallið hver á annars brjóst og haldið áfram styrktir af voninni og vináttunni.

Ég þakka Karli leiðsögn og samstarf frá því við vorum komnir á sömu þúfuna hér í borginni og þær vonir sem okkur auðnaðist að koma til veruleika ekki síst á Kirkjuþingi þegar fyrir lá að setja þjóðkirkjunni starfsreglur og móta nýja háttu. Því starfi stýrði hann af visku.

Ég vil ekki síst gleðjast yfir samverunni í Dómkirkjunni við embættisathafnir hans og þeirri vináttu sem gekk í endurnýjun lífdaga seinustu árin þegar hann leysti af þar og varð einn af hópnum sem hittist við messur þar sem og í samveru í safnaðarheimilinu á fimmtudögum.

Hann fer með blessun okkar allra í von um sæla endurfundi þegar tími okkar kemur.

Algóður Guð huggarinn mildi veri með Kristínu hans og fjölskyldunni allri.

Jakob Ágúst Hjálmarsson, fv. dómkirkjuprestur.

Hr. Karl Sigurbjörnsson er „genginn inn í fögnuð herra síns“.

Ég kynntist honum ekki persónulega fyrr en sumarið 2003 þegar ég var að ljúka starfsþjálfun hjá dr. Sigurði Pálssyni þáverandi presti í Hallgrímskirkju. Frá fyrstu kynnum var Karl mér einstaklega velviljaður og strax um haustið var ég vígð til Setbergsprestakalls. Þegar sorgin knúði dyra hjá okkur hjónum haustið 2005 var hringt úr Biskupsgarði til að uppörva og minna okkur á að beðið væri fyrir okkur og þegar sonur okkar Kolbeinn Högni fæddist á Landspítalanum hraustur og fullkomlega skapaður mánuði fyrir tímann bárust hamingjuóskir áritaðar í bænabók barnsins beint á sængina úr næstu götu.

Ógleymanleg er ferð með Karli til Úganda og Malaví snemma árs 2010 þegar við heimsóttum verkefni á vegum Hjálparstarfs kirkjunnar. Hann var frábær ferðafélagi, hlýr og elskulegur, hafsjór af fróðleik, skemmti okkur „meðreiðarsveinum sínum“ með endalausum sögum og skrýtlum og sagði alltaf eitthvað viðeigandi og uppbyggilegt við fólkið sem við sóttum heim. Flest var það bláfátækt, bjó við yfirvofandi hungursneyð, heilsufarsógn eða í flóttamannabúðum norður undir Súdan. Í tvær vikur prédikaði hr. Karl undir berum himni og á hverjum degi lagði hann eitthvað gott til.

Þegar hann hafði látið af embætti biskups féllst hann á að rita örhugleiðingar fyrir hverja dagleið pílagrímsleiðarinnar frá Bæ í Borgarfirði í Skálholt og þegar sú leið var formlega opnuð í júlí 2012 fékk félagið Pílagrímar hann til að flytja erindi um pílagrímsferðir á miðöldum í Bæjarkirkju í Borgarfirði. Erindið er eftirminnilegt og örhugvekjurnar standa enn fyrir sínu, prentaðar á upplýsingaskilti sem aðgengileg eru á þessari leið.

Karl Sigurbjörnsson var óvenju afkastamikill og mér segir svo hugur að sjaldan hafi honum fallið verk úr hendi, en hann bjó við þá gæfu að vera vel kvæntur. Minnisstæð er mér vísitasía þeirra heiðurshjóna, hans og frú Kristínar Guðjónsdóttur, sumarið 2006 þegar Grundarfjarðarkirkja átti vígsluafmæli. Glaðværð þeirra, örlæti og hlýja hreif alla sem urðu á vegi þeirra. Ég minnist Karls Sigurbjörnssonar með gleði og þökk fyrir allt sem hann gaf mér persónulega af hollráðum, velvild og hlýju. Ég bið góðan Guð að styrkja Kristínu, eftirlifandi systkini hans, börn, tengdabörn, barnabörn og aðra ástvini sem sakna og syrgja.

Guð blessi minningu Karls Sigurbjörnssonar.

Elínborg Sturludóttir dómkirkjuprestur.

Karl Sigurbjörnsson lauk dögum sínum með blessunarorð á vörum og í hjarta eins og hann hafði óskað sér á prenti. Fram til síðustu stunda var hann með okkur í orði og verki: „Blessaður minn, ég veit ekki hvort þarf formála, en ég skal hugsa það,“ sagði í tölvuskeyti þegar við leituðum ráða vegna endurútgáfu í vor á snilldarþýðingu Björns heitins bróður hans á Passíusálmunum sem lengi hefur verið ófáanleg. Hallgrímskirkja fékk það hlutverk frá biskupi Íslands á sínum tíma að sinna útgáfu Passíusálma Hallgríms Péturssonar á erlendum tungumálum. Karl var vakinn og sofinn yfir því hlutverki og traust hjálparhella þýðenda alla tíð.

Ævi hans var samofin sögu Hallgrímssafnaðar og byggingu Hallgrímskirkju. Sú saga nær allt til bernskuára þegar faðir hans, Sigurbjörn Einarsson, var prestur í sókninni og fram undan var bygging Hallgrímskirkju. Skólavörðuholtið var Karli í blóð borið, þar sleit hann barnsskónum og þar strengdi faðir hans það heit að „þetta ljóta holt skal verða fegursti staður landsins, þeirra sem mannshöndin mótar“. Feðgarnir tóku sinn þátt í baráttusögunni sem bygging þjóðarhelgidómsins var og er raunar enn, því henni lýkur seint. Á holtinu byggði presturinn sér einnig hús með Kristínu Guðjónsdóttur konu sinni ásamt annarri fjölskyldu sem komið hefur við sögu kirkjunnar.

Hann hafði verið prestur í Hallgrímskirkju í hartnær áratug þegar hún var vígð 1986 og þjónaði söfnuðinum af miklum myndugleik í nærri 23 ár þar til hann tók við embætti biskups 1998. Það má með sanni segja að Karl hafi tekið til hendinni þegar á þurfti að halda og í raun féll honum aldrei verk úr hendi. Um það bera ritaskrá hans og sálmar fagurt vitni og ekki síður sú staðreynd að eftir prestskap og biskupstíð má segja að hann hafi stofnað stóran söfnuð á Facebook þar sem hann miðlaði uppörvunar- og vísdómsorðum í veikindum sínum.

Séra Karl var farsæll sálusorgari síns safnaðarfólks og svo margra annarra. Hann var sóknarprestur sem gekk í takt við söfnuð sinn og í öll störf hvort sem var að styðja við starf kvenfélagsins og hlúa að barna- og æskulýðsstarfi eða vera ráðgjafi þegar kom að listrænum þáttum og skreytingum í kirkjubyggingunni af einstöku listfengi. Margt ber merki þeirrar smekkvísi í Hallgrímskirkju þar sem ljósið fær að streyma óáreitt inn um háa glugga og minna okkur á þann sem er ljós heimsins bæði í gleði og sorg, Jesú Krist. Minni Karls var næsta óbrigðult á fólk, sögu, listaverk, kirkjugripi, sálma og kirkjutónlist. Karl var áhrifaríkur prédikari og orðsins maður sem miðlaði sterkri upprisutrú og áminningu um að minnast dauðans en grípa daginn, rétta fram hjálpandi hönd og gleðja samferðafólk sitt. Kímnigáfa og broslegar frásögur Karls í prédikunum og samskiptum vöktu gleði og kátínu.

Hallgrímssöfnuður og starfsfólk Hallgrímskirkju votta fjölskyldu sr. Karls og ástvinum innilega samúð.

Irma Sjöfn Óskarsdóttir
sóknarprestur,
Einar Karl Haraldsson,
formaður sóknarnefndar.

Legg mér, Drottinn, ljóð á tungu,

ljóð sem bjartir englar sungu,

blítt sem barnsins trú,

söng um ljósið lífsins sanna

ljóð um náð og frelsi manna,

það sem þráum nú.

(KS, sálmur nr. 707)

Með örfáum orðum en djúpu þakklæti minnumst við sr. Karls Sigurbjörnssonar.

Karl biskup starfaði í anda einingar, sátta og friðar og vann kirkjunni allt það gagn sem hann gat og kunni. Hann hafði alla tíð að leiðarljósi að gleðjast yfir hverju nýju tækifæri til að styrkja kirkju Jesú Krists og vinna að framgangi hennar. Hann minnti okkur stöðugt á að kirkjan er biðjandi, boðandi og þjónandi og það er engin tilviljun að bænin sé þar fyrst nefnd til sögunnar. Auðfundinn var sá sterki bænarandi sem sr. Karl hvíldi í og miðlaði á sinn einstaka hátt til kirkju sinnar. Hann vakti yfir kirkjulífi landsins með trúarstyrk og hlýju, hann las tákn tímanna og leitaðist við að þekkja þörf hverrar tíðar til að bera fram hinn góða og heilaga boðskap á sem bestan hátt. Þannig stýrði hann þjóðkirkjunni af eðlislægri trúmennsku, reisn og sívökulli viðleitni við að láta sem mest gott af sér leiða og bar þannig vitni þeim Guði sem tendraði eldinn í hjarta hans. Guð blessi minningu sr. Karls, huggi og styrki fjölskyldu hans og ástvini.

Fyrir hönd Prófastafélags Íslands,

Sr. Hans Guðberg

Alfreðsson.

„Að kveldi dags skuluð þér vita að Drottinn kemur.“

Þessi orð eru hluti af hátíðatóni á aðfangadagskvöld. Þarna er vísað til atburðanna sem jólaguðspjallið segir frá. Flestir, sem þetta tóna eða hlýða á, munu hugsa til loka eigin æviferils, er kallið hinsta hljómar. Fyrir þá er þetta mikill fagnaðarboðskapur, að vita „að Drottinn kemur“. Við hugsum þá um erindi Krists inn í þennan heim. Hann sagði, að faðir okkar á himnum væri ekki hinn reiði, hefnigjarni Jahve Gyðinga. Hann væri kærleiksríkur faðir okkar.

Leiðir okkar Karls biskups lágu fyrst saman sumarið 1964. Hann var þá 17 ára og þátttakandi í skosk-íslenskum vinnubúðum, sem ég stjórnaði þetta sumar á Hólum í Hjaltadal. Það kom mér þægilega á óvart, þegar ég sá, að kvöldlesning þessa unga pilts var trúarheimspeki í ætt við þau fræði sem tilheyrðu þá lokaáfanga háskólanáms í guðfræði. En hann gat líka brugðið sér á ball með hópnum yfir á Sauðárkrók, þegar Hljómar frá Keflavík buðu upp á „bítlamúsík“ af bestu gerð. Á þessum dögum urðum við vinir. Allt okkar samstarf innan kirkjunnar bar því vitni.

Bænahald er eitt af því sem einkennir vinnubúðir kirkjunnar. Ég skipti því niður á unga fólkið að annast kvöldbænirnar í Hóladómkirkju. Á óvenjufögru sumarkveldi braut hópurinn þá hefð að hafa bænastundina í kirkjunni og fór með hana í fallegan hvamm handan við kórgafl kirkjunnar. Segja má að hugur hópsins hafi farið gegnum kórgaflinn og yfir í hið „eilífa austur.“ Þá er átt við það hugræna svið sem helgast af upprisu Krists og hástóli hans á himni. Á þessu svæði efndi unga fólkið til helgistundar, las öll helstu ritningarorð sem fjalla um kærleikann og síðan var sameinast í bæn og blessun. Þetta varð afar falleg stund. Karl Sigurbjörnsson stóð í miðjum hópnum, hafði örugglega bent á einhverja ritningarstaðanna og gefið vel af innra auði. Ég fann fyrir ómi orðanna góðu: „Að kveldi dags skuluð þér vita að Drottinn kemur.“

Síðustu mánuðina vissi Karl biskup, að vegna heilsu sinnar stóð hann á mærum lífs og eilífðar, að nú væri þegar tekið að kvölda. Ég veit hitt einnig, að þá var honum fátt, ef nokkuð, dýrmætara en boðskapur hátíðasöngs jólanna: „Að kveldi dags skuluð þér vita að Drottinn kemur,“ – kemur til að leiða þjáðan lærisvein að uppsprettum gleðinnar. Í þeirri trú vil ég kveðja hann og biðja ástvinum hans öllum blessunar Guðs.

Þórir Stephensen.

Karl Sigurbjörnsson biskup var ekki aðeins menntaði guðfræðingurinn, fágaði helgisiðameistarinn, mikli prédikarinn og duglegi kirkjuhöfðinginn. Hann var fyrst og fremst lifandi vitni um guðstrú sem mótaði allan persónuleika hans.

Þegar ég skrifa fáein minningarorð um vininn Karl kemur frásögnin í Jobsbók sterkt upp í huga mér. Karl gekk í gegnum miklar þrautir og þjáningar í veikindum sínum, en lífssýn hans og rödd varð á undarlegan hátt ekki bæld eða deyfð af þeim óskiljanlegu örlögum sem hann varð fyrir. Guðstrú hans varð einungis bjartari og skýrari því meir sem sjúkdómurinn braut líkamann niður og hann stóð styrkur í anda hvern einasta dag.

Karl biskup var stöðugur í guðsþjónustunni sem hann var vígður til allt til hinsta andartaks. Aldrei heyrðist hann kvarta og alltaf átti hann gott bros og hlýja hugsun til okkar allra. Fram til hins síðasta gaf hann okkur samferðamönnum orð til huggunar og hjálpar með sálmum, biblíuorðum og bænum sem hann sendi út á netinu.

Við Karl kynntumst fyrir meira en fjörutíu árum þegar ég kvæntist Þorgerði minni. Sigurbjörn biskup, faðir Karls, gaf okkur saman í Dómkirkjunni. Fjölskyldur Karls og Þorgerðar voru nánir vinir og ég var strax tekinn inn í þennan sterka, góða vinahóp. Við Karl áttum svo mörg sameiginleg áhugamál, guðfræði, bókmenntir og sögu. Hann var sannarlega maður orðsins, hann skrifaði fjölda bóka og var þýðandi erlendra bókmennta, bæði fræðirita og fagurbókmennta. Einnig sem prédikari var hann meistari orðsins. Prédikanir hans voru fylltar visku, undrun, fegurð – en þar mátti líka finna aðvörun og varnarorð gegn þeim niðurbrjótandi öflum sem ógna heimi mannkyns, menningu okkar og öllu lífi á jörðu. Í huga mínum lifa sterkt margar prédikanir hans í Dómkirkjunni á jólanótt þegar hann leiddi messuna og kórinn hennar Þorgerðar fyllti kirkjuna fögrum söng.

Við áttum svo margar glaðar og góðar stundir saman og ég upplifði sem mikið andlegt ríkidæmi að við, hann lúterskur og ég kaþólskur, vorum svo fullvissir um að við stæðum á sama bjargi. Saman gátum við velt fyrir okkur stofnun og sögu heimskirkjunnar, og líka hér á Íslandi fyrir meira en þúsund árum. Það er ekki langt síðan við héldum mjög djúpþenkjandi symposium heima á Hofteigi með lúterskum og kaþólskum guðfræðingum sem reyndu að átta sig á örlögum og stöðu Guðmundar góða í kirkjusögunni. Þá vorum við ekki lútersk eða kaþólsk, Gyðingar eða Grikkir, konur eða karlar – á slíkum stundum vorum við öll eitt í Kristi.

Fyrir kristnu kirkjuna á Íslandi er andlát Karls biskups mikill og sár missir. Nú er hann á leið í sína eiginlegu heimahaga. Fyrir kristnar manneskjur er dauðinn ekki sorg heldur gleði. En fyrir okkur, sem erum hér eftir í jarðnesku lífi okkar, er það sár söknuður eftir mikinn mann, sem okkur þótti svo óendanlega vænt um og erum svo þakklát fyrir að hafa átt að vini.

Við hugsum til og föðmum elsku Kristínu hans, börnin þeirra og barnabörn, sem syrgja elsku eiginmann sinn, föður og afa.

Requiescat in pace, kæri Karl biskup.

Knut Ødegård.

Elsku vinurinn fallinn frá eftir hetjulega baráttu í fimm ár. Og aldrei brást andinn, kímnin, hlýjan.

Við Kalli kynntumst 17 ára gamlir, fyrst í vinnubúðum þjóðkirkjunnar á Hólum í Hjaltadal þar sem við máluðum skólabyggingu í yndislegum og eftirminnilegum hópi alþjóðlegra sjálfboðaliða. Þarna lærði ég að biðja, dálítið seinn til. Síðar um sumarið 1964, fyrir réttum 60 árum, héldum við vestur um haf, í 16 manna hópi ungmenna sem valist hafði í nemendaskipti ICYE. Við kölluðum þau Kristileg alþjóða ungmennaskipti, KAUS, en k-ið átti eftir að detta upp fyrir. Markmið þessara samtaka voru róttæk, að fá skiptinemana til að horfast í augu við raunveruleikann sem við blasti. Bilið milli ríkra og fátækra sem fór vaxandi, aðskilnaðarstefnu í S-Afríku og Bandaríkjunum og síðast en ekki síst stríðsrekstur í Víetnam og víðar.

Við Kalli vorum í sömu borg í eitt ár, Seattle, og gátum heimsótt hvor annan og dvalið nokkra daga. Það voru yndislegir dagar og þá treystust tryggðaböndin sem héldu alla tíð.

Eftir heimkomu brösuðum við margt saman í félagsmálum. Við stofnuðum KAUS, samtök skiptinema, strax haustið 1965 sem átti sér drauma um að láta til sín taka í starfi kirkjunnar, ekki síst æskulýðsstarfi, og varð margt skemmtilegt úr. Kalli var listrænn og myndskreytti það sem við sendum frá okkur. Segja má að upp úr þeim samtökum hafi önnur orðið til snemma árs 1966, alla vega voru margir KAUSar með í að stofna sjálfboðahreyfinguna TENGLA sem lét til sín taka í geðheilbrigðismálum. TENGLAR einsettu sér í fyrstu að rjúfa félagslega einangrun sjúklinga á Kleppi með heimsóknum og félagsstarfi. Þetta þróaðist og breiddist út á næstu árum.

KAUSar héldu ráðstefnu í Skálholti sumarið 1968 og við fengum róttækan prest frá Hollandi, Henk Van Andel, úr forystu ICYE til að vera með okkur í Skálholti. Hann varð einnig aðalræðumaður á opnum fundi í Sigtúni við Austurvöll um stúdentabyltinguna. Einhvern veginn artaðist það svo að ég fór í stúdentapólitíkina um haustið og snemma árs 1969 stofnuðum við Verðandi, félag vinstrimanna í HÍ.

Upp úr þessu fórum við ólíkar leiðir, en þráðurinn slitnaði aldrei.

Það er óskaplega dýrmætt að eiga góðar minningar og þær gerast ekki mikið betri en um Kalla, þennan hlýja og skemmtilega félaga, sem var alltaf til í að stríða manni, en aðallega að gera grín að sjálfum sér.

Það er magnað að hugsa til þessi hversu vel það fór í einum og sama manninum að vera svo lítillátur, ljúfur og kátur en jafnframt afburða kennimaður sem gaf svo mörgum svo mikið alveg fram á síðasta dag.

Það voru margir erfiðir dagar hjá mínum manni þegar nær dró kveðjustund. En aldrei kom ég til hans eða heyrði í honum án þess að meginstefið væri æðruleysi, þakklæti og gleði þrátt fyrir allt. Trúin, vonin og kærleikurinn brást aldrei.

Guð blessi minningu Karls Sigurbjörnssonar.

Sveinn Rúnar Hauksson.

Við hittumst fyrst í stofu 5. Við vorum tveir, algjörlega ókunnir hvor öðrum. Nú hófst samtal og innan nokkurra mínútna vorum við farnir að hlæja saman. Efni í vinaband varð til. Þegar prófessorinn kom urðum við þrír. Þannig var það reyndar oft þennan fyrsta vetur í guðfræðinni. Eins konar einkakennsla. Mér veitti nú ekki af. Hvað Karl snerti var það góð viðbót á kjarngott nestið heiman að. Guðfræðin er unaðslegt fag. Samt aldrei áreynslulaus, hvorki líkamlega né tilfinningalega. Mér er minnisstæð morgunstund í þessari nefndu stofu Háskólans í janúar 1973, þegar Kalli mætti í munnlegt lokapróf í „dogmatik“, síðasta og erfiðasta prófið og stóðst það með láði, eins og önnur próf. Hann hafði þó átt svefnlausa nótt, ekki af því að lesa trúfræðiskruddur, heldur vegna þess að hann hafði verið kallaður út sem verðandi sálusorgari Vestmannaeyinga. Gosið mikla hófst einmitt þá nótt. Við slíkar aðstæður verður hástemmd trúfræðin að jarðneskum veruleika.

Eftir lærdómsríka og farsæla þjónustu sem Eyjaklerkur var hann kjörinn prestur í hálfbyggðri Hallgrímskirkju. Næstum aldarfjórðungs þjónusta þar var ærið annasöm og verkefnin margbreytt, andleg og veraldleg. Margar svefnlausar nætur bættust við. Þau Kristín voru sjálf að byggja sér hús og heimili í næstu götu. Við Dísa og þau gátum hlegið saman að því brölti öllu innilega, enda í sama heimilislega ástandi. Þegar við borðuðum saman á þeim árum, við eldhúsborðin, hér eða þar, varð hláturinn þó stundum tárvotur, en vináttan styrktist og hefur enst í meira en hálfa öld.

Hallgrímskirkja fékk loks þak yfir höfuðið og sr. Karl heilsaði sóknarbörnum sínum „brosandi sveittur“, eins og starfsfólkið í kirkjunni sagði síðar. Predikunin dýpkaði, raustin styrktist, viðmótið varð enn bjartara og bænin mildari. Enda var hann síðan kjörinn biskup Íslands. Yfir stóðu erfiðir tímar í þjóðkirkjunni. Hr. Karl tók þessari áskorun af kjarki og festu, en umfram allt í heitri og staðfastri trú á góða framvindu þessa verkefnis. Með góðum eiginleikum sínum, óendanlegum dugnaði og stjórnvisku, tókst honum enda að leysa farsællega fjöldamörg erfið viðfangsefni. Á sama tíma setti hann sér oftsinnis að „vaka nóttina“ til þess að skrifa og gefa út bækur af margvíslegum toga. Bókum og kverum, sem einkum hjálpa okkur, sem leitum styrks og friðar í hugarangri, sorg eða lífsbaráttunni almennt. Bókin „Í helgum steini“ er svo stórmerkilegt predikunarsafn frá síðustu þjónustuárum hans í Dómkirkjunni. Þá loks var betri tími til að skrifa og skapa þau orðsins guðfræðilegu og listrænu verk, sem birtast þar á prenti.

Karl bjó yfir einstaklega skemmtilegri frásagnargáfu. Minni hans var nær óbrigðult, bæði á fræðileg atriði, söguleg og guðfræðileg, og ekki þó síður á skemmtilegar sögur úr samtíðinni. Stór vinahópur og samstarfsfólk fékk einmitt að njóta þess. Þrátt fyrir ógnar erfið veikindi undir lokin hvarf honum hvorki minni né kímnigáfa. Frásagnarsnilldina toppaði enginn og Kristín með sinn eldsnögga og leiftrandi húmor magnaði augnablikið upp í dásemd. Minning samverustunda, vináttu og gleði lifir í huga og hjarta okkar Dísu.

Góður Guð blessi góðan dreng og varðveiti sálu hans. Elsku Kristín, blessun Guðs umvefji þig í heilögum anda, börnin þín, barnabörn og fjölskylduna alla.

Birgir Ásgeirsson.

„Mjök erum tregt tungu að hræra“ kvað Egill forðum í sorg sinni. Eins er mér farið nú er ég kveð Karl vin minn og starfsbróður. Við kynntumst fyrst í guðfræðideild Háskólans, sem þá var aðeins einn. Þótt við yrðum ekki mjög nánir þá átti það eftir að breytast eftir að við urðum samstarfsmenn í biskupsembættum. Þá urðum við nánast eins og fóstbræður, enda féllu skoðanir okkar og lífsviðhorf mjög saman. Karl var hafsjór af þekkingu og fróðleik, ekki aðeins á sviði guðfræðinnar, sem var honum sem opin bók, en einnig nánast hvar sem leitað var. Það var unun að eiga við hann spjall, ekki síst í einrúmi, nú á seinni árum í síma. Fyrir þær stundir er ég ævinlega þakklátur. Síðast hringdi hann í mig nokkrum dögum áður en hann lést. Þá grunaði mig ekki að endir væri nær en eftir á að hyggja finnst mér eins og hann hafi verið að kveðja mig.

Gott var að eiga Karl að yfirmanni. Það var ekki alltaf létt né ánægjulegt að fást við erindin sem lágu fyrir biskupafundum í okkar tíð. En Karl gerði þá fundi, eins og aðra þá er hann stýrði, ævinlega ánægjulega með léttleika sínum og spaugsemi, og þá sakaði ekki heldur að fá nokkur tóbakskorn í nef frá Skálholtsbiskupi. En ákveðinn gat hann einnig verið og alvörugefinn ef við átti og setti jafnvel ofan í við menn svo undan sveið. En allt var það jafnað eftir á með kærleiksríkri umhyggju og nærgætni.

Að taka þátt í helgri þjónustu með honum var unun. Þar var hann svo sannarlega á heimavelli. Allt fórst honum vel úr hendi. Saman fóru kunnátta, smekkvísi og næmi. Boðunin var skýr og meitluð, borin uppi af bjargfastri trú, þekkingu og orðsnilld. Víst er um það að kristni í landinu var enginn greiði gerður með því honum skyldi ekki vera gefinn friður til að rækja embætti sitt til enda.

Þau Karl og Kristín voru okkur hjónum nánir og kærir vinir. Með þeim áttum við margar glaðar stundir. Umhyggja þeirra og kærleiksþel, ekki síst er við misstum dóttur okkar, var okkur mikils virði. Hugur okkar er því fullur þakklætis er við kveðjum kæran vin og velgjörðarmann. Kristínu og fjölskyldu hennar sendum við hlýjar samúðarkveðjur um leið og við hörmum það að geta ekki fylgt Karli til grafar vegna óviðráðanlegra aðstæðna.

Blessuð sé minning Karls biskups.

Jón Aðalsteinn
Baldvinsson.

Í dag kveð ég Karl Sigurbjörnsson biskup, merkan mann sem hafði mikil áhrif á mig. Vegna starfs míns við Dómkirkjuna hlutu leiðir okkar að liggja saman.

Okkur Karli varð strax vel til vina og vinátta hans hefur verið mér afar dýrmæt. Vináttan er aflið sem best tengir hjörtu og hugsanir okkar mannanna, og geymir í senn yl og styrk. Karl var mikill og sannur vinur. Því mun minning hans ætíð skapa þakklæti og hlýju. Góðmennska, hvatning, dugnaður og gleði voru einnig sterkir þættir í persónuleika Karls.

Minningarnar eru margar, auk allra góðu stundanna í safnaðarstarfi Dómkirkjunnar, þar sem Karl brann fyrir að efla starfið í kirkjunni, hann var öflugur kirkjunnar maður.

Þá var einstök helgistund þegar hann kom og prédikaði við messu heima á Búrfelli, pylsu„partí“ hjá Marinó við Þingvallavatn, ferðir á Vestfirði og vinafundir.

Ógleymanlegt þegar hann brá sér í gervi Skota og tróð upp sem vinur sóknarnefndarfólks, hvað hann var óborganlega fyndinn.

Guðstrúin var honum í blóð borin. Allt hans líf var samkvæmt boðskap kristinnar trúar. Hann sýndi trú sem starfar í kærleika. Elja, kraftur og lífsgleði fylgdu þar með.

Karl var góðum gáfum gæddur, greindur og listrænn. Hann kunni vel að njóta alls þess fagra sem lífið hefur að gefa. Hann naut þess að gleðjast með glöðum, en hann kunni einnig manna best að gefa styrk og hlýju þegar sorgin knúði dyra. Þar hjálpaði Karl mér mikið þegar ég missti nána ástvini. Karl kunni líka að sýna samhygð, samúð og gefa von.

Karl var lánsamur í einkalífinu, þau Kristín áttu fallegt samband, þar sem ástin og hamingjan umvafði þau og börnin þeirra, Ingu Rut, Löllu og Góa, tengda- og barnabörnin.

Elska hans og vinátta við mig og fjölskyldu mína er mér óendanlega dýrmæt í minningunni.

Að leiðarlokum hlýt ég að þakka fágætan kærleika og tryggð. Ég er þakklát fyrir að hafa átt Karl að vini. Hann mun ætíð eiga stóran hlut í hjarta mínu.

Ég votta Kristínu og fjölskyldunni allri mína dýpstu samúð. Guð blessi minningu Karls Sigurbjörnssonar.

Er vinir kveðja

oss hverfur daggardropinn smár

við dagsins yl,

vér vitum samt, að efra er

hann áfram til.

Og voru lífi lagði braut

að ljóssins strönd

sá Guð, sem kveikti geimsins sól

og gaf oss önd.

(Einar M. Jónsson)

Laufey Böðvarsdóttir.

Samstarf okkar Karls hófst í tengslum við sóknarkirkjuna Hallgrímskirkju og Guðbrandsstofu, afgreiðslu Biblíufélagsins sem þar var staðsett, en þar starfaði ég í þrjú ár og eitt sumar við kirkjubygginguna.

Á biskupsárum sínum hélt Karl á lofti mikilvægi kristniboðsins og hvatti presta og sóknir til að styðja við starf Kristniboðssambandsins með fyrirbæn og fjárframlögum. Hann heimsótti starfssvæðin í Eþíópíu og Keníu, fyrst við upphaf starfs síns sem biskup og eins undir lokin í upphafi árs 2012, en ferðirnar voru jafnframt til að heimsækja verkefni Hjálparstarfs kirkjunnar. Með gleði minntist hann þess að hafa skírt fjölda fólks á sunnudegi á sléttunni í Pókot í Keníu. Einfaldur umbúnaður og fátæklegar aðstæður, en engu að síður himnesk stund.

Karl beitti sér einnig fyrir stefnumörkun kirkjunnar um kristniboð og var sú stefna samþykkt á kirkjuþingi árið 2011. Þar er lögð áhersla á mikilvægi þessa starfs enda hafði hann séð það með eigin augum að fram voru vaxnar öflugar systurkirkjur sem ávöxtur af starfi íslenskra kristniboðsvina. Einkunnarorð þjóðkirkjunnar á starfstíma Karls drógu fram kjarnaatriðin í starfi sérhverrar kirkju og kristniboðssamtaka: „Boðandi, biðjandi, þjónandi.“

Ljóst þegar lífið dvín,

leið þú mig heim til þín

í föðurlandið fríða,

firrtan öllum kvíða.

Jesús mér fylgi í friði

með fögru englaliði.

(Hallgrímur Pétursson)

Með þakklæti blessum við sem tengjumst Kristniboðssambandinu minningu Karls Sigurbjörnssonar biskups og biðjum Drottin að styrkja og hugga aðstandendur alla.

Ragnar Gunnarsson.

Tvennum hjónum er stefnt til fundar hjá fasteignasala. Þau hafa aldrei hist áður en eru talin á að hefja húsbyggingu saman. Þau eru Karl Sigurbjörnsson prestur í Hallgrímskirkju og Kristín Guðjónsdóttir bankastarfsmaður, Einar Karl Haraldsson ritstjóri Þjóðviljans og Steinunn Jóhannesdóttir leikkona í Þjóðleikhúsinu. Þau taka áhættu í vaxandi verðbólgu, en hvað flýtir meira fyrir kynnum en að svitna saman af líkamlegu striti, deila áhyggjum sem gleði yfir árangri erfiðisins. Húsið reis og þau fluttu inn hvor fjölskylda í sinn hluta vorið 1983.

Síðan eru liðin rúm fjörutíu ár gagnvirkra áhrifa og vináttu sem aldrei hefur borið skugga á. Karl og Kristín löðuðu okkur æ meira að kirkjunni, fyrst sem kirkjugesti, sem lögðu eyru við snjöllum prédikunum hans. En þegar tímar liðu drógumst við inn í formlegra starf gegnum Listvinafélag Hallgrímskirkju, ég sem rithöfundur og leikstjóri en Einar í sóknarnefnd og framkvæmdastjórn kirkjunnar. Þá hafði Karl að vísu kvatt sem sóknarprestur og hafist til æðsta embættis þjóðkirkjunnar þegar hann var kjörinn biskup Íslands 1997. Umskiptunum fylgdi að þau Kristín fluttu með fjölskyldu sína í embættisbústað og seldu húshlutann sinn á Þórsgötu.

Eftir fjórtán ára setu á biskupsstóli sneri Karl sér að ritstörfum og fræðimennsku. Jól eftir jól færði hann okkur nýja áritaða bók að gjöf, þar á meðal Bænabókina dásamlegu, fulla af fróðleik og lífsvisku. Prédikana- og ljóðasafnið Í helgum steini kom út 2018 og þar bregður skáldið Karl upp mynd úr húsbyggingarsögu okkar í Hinni íslensku herkvaðningu: … Hreinsa timbur/stafla timbri/ rétta nagla/ lemja á fingur./ Þursabit./ Herútboð í steypuna/ Enginn má undan líta. …

Enginn má undan líta. Karl Sigurbjörnsson leit ekki undan þegar hann greindist með sjúkdóm sem áður hafði lagt fjóra bræður hans að velli. Hann horfðist frá upphafi í augu við dauðann og hinn takmarkaða tíma sem okkur er öllum skammtaður. Andlegt þrek hans hefur verið með ólíkindum, vinnuaginn, skerpa hugsunarinnar, æðruleysið og húmorinn því kímnigáfa er eitt af því sem einkennt hefur persónu þessa manns frá því við kynntumst honum fyrst. Þar gefur Kristín manni sínum reyndar ekkert eftir. Yngsta barnið í húsinu, dóttir okkar Einars, varð mikill aufúsugestur hjá grannhjónunum. Í einni heimsókninni þótti þeirri stuttu galsinn ganga fulllangt og sagði kotroskin: Kristín þó, þú átt ekki að segja Kalli, þú átt að segja séra Karl. Hún þekkti ekki annað en talað væri um Karl af dýpstu virðingu.

Og nú er þessi mikli kennimaður, fjölhæfi listamaður á akri fræðanna og orðsins, þrekmaður til líkama og sálar, genginn á vit formæðra sinna, feðra og frelsara. Áhættan sem forðum var tekin með því að byggja hús í félagi við hann og Kristínu skilaði okkur vináttu við hjón og mann sem varð meiri og dýpri áhrifavaldur í lífi okkar en allir aðrir utan okkar nánustu fjölskyldu.

Kristínu, Ingu Rut, Rannveigu Evu, Guðjóni Davíð og fjölskyldum þeirra sendum við Einar einlægar samúðarkveðjur.

Blessuð sé minning séra Karls Sigurbjörnssonar.

Steinunn Jóhannesdóttir.

Við bekkjarfélagar Karls Sigurbjörnssonar og samstúdentar hans árið 1967 frá Menntaskólanum í Reykjavík hörmum fráfall okkar kæra vinar og bekkjarbróður. Karl var alla tíð traustur félagi og greiðvikinn ef því var að skipta enda hafði hann miklu að miðla til flestra okkar hinna, sem ekki sinntum náminu af sama kappi og Karl. Það átti ekki síst við um latínuna, en oft kom Karl til liðs með hvetjandi spjalli við marga okkar sem höfðum ekki sama brennandi áhuga á að ná tökum á því merka tungumáli fortíðarinnar og hann.

Svo vildi til að við áttum þrír bekkjarbræðurnir heima við sömu götu í Reykjavík og fylgdumst því iðulega að í skólann og áttum góðar stundir saman á þeim gönguferðum, þar naut Karl sín vel, en var framan af frekar hlédrægur þegar allir komu saman. Það var þó fljótt að fara af honum.

Karl var skemmtilegur maður og hafði fjöruga og græskulausa kímnigáfu. Við bekkjarbræðurnir hittumst reglulega, einkum hin síðari ár, og þá voru gömul minni rifjuð upp og glaðst saman. Umræður um stjórnmál voru það sem mest fór fyrir á menntaskólaárum okkar og fram eftir ævinni. Karl leiddi slíkar umræður hjá sér þótt ekki væri hann skoðanalaus maður. Hann einfaldlega áleit tímanum betur varið í annað en það að karpa um pólitík.

Eftir því sem tíminn leið hlutu umræðuefni okkar skólabræðranna að breytast þegar við hittumst. Var ekki komið að tómum kofunum hjá Karli þegar alvarleg og eilíf málefni tóku að skipta meira máli í lífi okkar allra. Við glöddumst og fundum til stolts yfir starfi okkar kæra bekkjarbróður í þágu Guðs kristni hér. Ekki er hægt að hugsa sér betra eða göfugra hlutskipti en einmitt það sem hann valdi sér.

Við kveðjum okkar kæra vin og bekkjarbróður Karl Sigurbjörnsson með miklum söknuði og þakklæti fyrir góða samfylgd. Vottum við eiginkonu hans og afkomendum einlæga samúð.

Fyrir hönd bekkjarbræðra í 6. D 1967,

Jón Magnússon hrl.

„Blessaður, minn kæri!“ Þannig heilsaði hann, blessunar Karls verður saknað.

Kynnin hófust í Hallgrímskirkju fyrir meira en þremur áratugum. Leikarabörnin okkar, Gói og Kristín Þóra, voru hluti af barnakórnum í kirkjunni. Öflugt foreldrafélag var því tengt. Karl og fjölskyldan hans var allt í öllu í kirkjunni, Sigurbjörn gaf predikunarstólinn og kom á kvöldin með fræðsluerindi, Magnea saumaði altarisdúkinn, kirkjuskipið fyllt af fallegri tónlist og Klais-orgelið að raungerast. Karl og Kristín voru vakin og sofin að láta hlutina þar gerast. Þetta var staðurinn að ná sér í andlega næringu.

Ræðurnar hans voru alltaf áhugaverðar, skemmtilegar og vel fluttar. Hann hikaði ekki við að sigla á móti straumnum ef honum fannst það við eiga. Á þessum tíma var hringekja peningaveldisins að ná afli. Hann var krítískur á hugmyndafræðina, sagan hefur kennt okkur hver hafði rétt fyrir sér í þeim efnum.

Hann var fjölfróður um allt mögulegt. Kristín og Kalli voru aufúsugestir hjá okkur austur í Hrunamannahreppi. Það var gaman að rölta þar, hann þekkti fugla himinsins og greindi plöntur betur en þau sem höfðu komið þeim fyrir. Alltaf var hann skemmtilegur, mikill sögumaður og leiftrandi húmoristi. Leið best þegar allir voru kátir í kringum hann og með Kristínu sína sér við hlið. Einstaklega fallegt og kærleiksríkt samband, söknuður hennar er mikill.

Og svo kom höggið, krabbameinsófétið. Enn og aftur sýndi hann okkur hvernig á að takast á við óvin án þess að reiðast. Barátta hans við sársaukann var eftirtektarverð. Til þess að hemja verkina þurfti mikið af verkjalyfjum, þá varð hugsunin þokukennd. Það fannst honum ömurlegt, á stundum væri skárra að þola verkina og njóta óskertrar hugsunar. Þegar hreyfifærnin hjá honum minnkaði, þá fjölgaði símtölum okkar á milli. Ógleymanleg og gefandi, alltaf yfirvegaður og skynsamur, vissi af góðum Guði með sér í þessari baráttu.

Að leiðarlokum drúpum við höfði og segjum takk fyrir okkur, döpur og sorgmædd, en glöð að hafa notið samneytis við hann og fólkið hans allt. Guð blessi minningu Karls Sigurbjörnssonar.

Guðleif og Haraldur.

Þegar daginn var tekið að lengja barst sú harmafregn að Karl Sigurbjörnsson væri látinn. Okkur sem til hans þekktum var hann fyrirmynd að trúartrausti, þakklæti, æðruleysi, lífsgleði og umhyggju fyrir sínum nánustu. Það er erfitt að sjá á bak Karli, að þurfa að kveðja hann, að geta ekki leitað til hans lengur, spurt hann ráða eða álits og hlæja svolítið með honum. En þetta þarf að gera – að kveðja og þakka, það er lífsins saga. Þá koma minningarnar fram á sjónarsviðið, fagrar, hlýjar og innihaldsríkar minningar sem fleyta mér yfir daga eftirsjár og saknaðar.

Árið 1994 stofnuðu nokkrir kollegar félagsskap sem þeir nefndu Félag presta á höfuðborgarsvæðinu. Markmiðið var að efla presta og fjölskyldur þeirra í sértækum aðstæðum starfa þeirra. Í stjórn voru kjörin Kristján Einar Þorvarðarson, Hjallakirkju, Jakob Ágúst Hjálmarsson, Dómkirkjunni, Karl Sigurbjörnsson, Hallgrímskirkju, og undirrituð, nýráðin prestur Háteigskirkju. Við héldum fundi, fórum í skemmri ferðalög með prestsfjölskyldurnar og héldum jólaböll fyrir litlu börnin og okkur öll.

Árið 1997 ákvað sr. Karl að gefa kost á sér til embættis biskups Íslands. Við héldum fundi á heimili okkar Toshiki í Skerjafirði, lögðum línurnar undir stjórn Karls og reyndum að átta okkur á stöðunni. Karl stóð á fimmtugu þegar þetta var, hann hlaut afburða kosningu og gegndi biskupsembætti til ársins 2012. Í upphafi varð samstarf okkar tveggja töluvert vegna formennsku minnar í Prestafélagi Íslands. Ég setti á dagskrá endurmenntun presta og handleiðslu og saman unnu stjórn Prestafélagsins og biskupsembættið að því að hrinda þessum hugmyndum í framkvæmd.

Karl naut sín í embætti biskups. Hann var kirkjuarkitekt. Hann lagði drög að reglum og siðum, samdi stefnuskrár, skipulagði framkvæmd vísitasía, samdi ræður og prédikanir, skrifaði bækur og gaf út fallegt, uppbyggilegt og hvetjandi hirðisbréf. Hann sá hlutina fyrir sér, hverju hann vildi koma til leiðar og hvernig hann ætlaði að fara að því. Þar kom til greind og þekking, uppeldi en líka listhneigð sem var ótvíræð og öllum ljós sem til hans þekktu.

Presturinn og biskupinn Karl Sigurbjörnsson átti láni að fagna í störfum sínum. Hann vann með góðu fólki. Þar voru t.d. Hörður Áskelsson organisti og Þorvaldur Karl Helgason biskupsritari. Samstarf þeirra var gjöfult, heilt og skapandi. Karl og Þorgerður Ingólfsdóttir kórstjóri lögðu saman gáfur sínar í starfi með ungu fólki hver jól um árabil.

En mesta gæfa Karls var sú að eiga örugga höfn á heimili sínu, að njóta ástríkis, glaðværðar, tryggðar og fegurðar með þeim sem hann unni. Þau Kristín Guðjónsdóttir voru fallegt par og samhent hjón, þau gerðu allt saman og leiddust hönd í hönd frá fyrsta til síðasta dags. Allt var fallegt, hlýlegt og virðulegt hjá þeim. Kristínu, börnum þeirra og aðstandendum votta ég dýpstu samúð. Í virðingu og þökk kveð ég minn elskulega vin, samstarfsmann og biskup Karl Sigurbjörnsson, hann hvíli í friði og Guðs eilífa ljós lýsi honum.

Helga Soffía
Konráðsdóttir.

Á björtum sumardegi fyrir rétt tæpum 40 árum gifti sr. Karl okkur Þóru í gömlu kirkjunni á Árbæjarsafni.

Alla tíð síðan reyndist hann okkur umhyggjusamur og velviljaður.

Þjóðin þekkti best biskupinn Karl, kennimanninn, prédikarann.

Á mörgum heimilum í landinu eru til bækurnar hans með leiðsögn á vegi trúarinnar í meðbyr og mótlæti. Litlu bækurnar með vel völdum setningum í gleði og sorg hafa orðið mörgum til blessunar.

Þau, sem nutu prestsþjónustu sr. Karls, kynntust nærgætnum sálusorgara sem lagði sig eftir því að sinna syrgjendum og hlúa að þeim særðu í lífsins stríði. Hann kunni að sýna umhyggjuna og taka frumkvæði, taldi ekki eftir sér að hafa samband við þau sem leið illa, hlusta og uppörva.

Í allri þessari þjónustu Karls stóð Kristín við hlið hans með sinni góðu nærveru. Eftir langa og góða samleið eru þau nú aðskilin um stund en við kveðjum í öruggri vissu um endurfundi á landi lifenda. „Guði séu þakkir, sem gefur oss sigurinn fyrir Drottin vorn Jesú Krist!“ (I Kor. 15:57)

Ólafur Jóhannsson.

Við hjónin höfum þekkt Karl síðan á unglingsárum. Hann var bekkjarbróðir annars okkar í menntaskóla og hins í guðfræðideild háskólans. Karl settist í fjórða bekk MR með okkur bekkjarsystkinum, nýkominn frá BNA þar sem hann hafði verið skiptinemi eitt ár. Eftir þann vetur las Karl 5. bekk utanskóla og útskrifaðist með sínum jafnöldrum. Karl lét ekki mikið fyrir sér fara, var hógvær og sinnti náminu af áhuga.

Þeim Jóni og Karli varð strax vel til vina í guðfræðideildinni og hélst sú vinátta til dauðadags.

Fljótlega kom í ljós að þarna var á ferð maður með einstakar gáfur og hæfileika sem stefndi á það eitt að verða þjónn kirkjunnar.

Á þessum árum kynntist Karl Kristínu sinni, sem varð hans trúfasta stoð í lífinu. Þau voru gjarnan nefnd í einu í okkar vinahópi, Kalli og Kristín, enda einstaklega samrýnd. Ávallt var glatt á hjalla þegar vinahópurinn hittist og þar naut Karl sín vel og með sinni miklu kímnigáfu deildi hann oft skemmtisögum ásamt því að ræða alvarleg mál. Við undruðumst alltaf hans einstaka minni.

Karl var sérstaklega farsæll í störfum sínum sem prestur enda framúrskarandi ræðumaður, hlýr í samskiptum við alla sem til hans leituðu og vandvirkur í öllu sem hann tók sér fyrir hendur. Það kom því ekki á óvart þegar nafn hans var nefnt í sambandi við biskupskjör, þó svo að hann væri ekki sá sem sóttist eftir embættinu. Hann vissi af eigin reynslu að það var ekki auðvelt verkefni.

Sem biskup Íslands hélt Karl vel utan um hjörð sína, starfsfólk kirkjunnar, og var einstaklega gott að leita til hans sem embættismanns, hvort sem um var að ræða safnaðarmál eða mál sem tengdust prófastsdæminu. Hann var með eindæmum skipulagður, afkastamikill og lagði gott til málanna. Meðfram embættisstörfum sínum vann hann að ritstörfum og birtust eftir hann bæði ritverk og sálmar.

Eftir að Karl hætti opinberum störfum urðu vinafundirnir tíðari og nutum við samverustunda með þeim hjónum bæði á fallega heimilinu þeirra og í sumarbústað okkar hjóna. Þær stundir voru einkar gefandi, sem gott er að minnast. Síðast en ekki síst nutum við þess að ferðast með þeim til Ísraels árið 2018, þar sem farið var í fótspor frelsarans og er okkur enn í fersku minni síðasta stundin í grafargarðinum þar sem Karl hafði guðsþjónustu fyrir okkur ferðalanga og þeir félagar, hann og Jón, þjónuðu saman við heilaga kvöldmáltíð.

Meðal ritverka Karls er bókin Dag í senn. Sú bók á sinn sérstaka stað í eldhúskróknum okkar og hún er lesin á hverjum morgni, ár eftir ár, og eru hugleiðingar hans út frá biblíutextunum alltaf jafn nærandi. Við erum þakklát fyrir allt sem Karl gaf samtímamönnum sínum bæði í ræðu og riti, en boðskapur hans var allt í senn fræðandi, uppbyggilegur, beinskeyttur og huggandi.

Við söknum góðs, trausts vinar og samhryggjumst Kristínu og öllum afkomendum þeirra og stórfjölskyldu sem kveðja frábæran mann, sem var trúr þjónn í kirkju Krists.

Inga Þóra Geirlaugsdóttir og Jón Dalbú
Hróbjartsson.

Það var fyrir réttum sextíu árum að leiðir okkar Karls lágu saman. Við höfðum verið valdir í hóp skiptinema á vegum þjóðkirkjunnar. Hópurinn hélt til Bandaríkjanna sumarið 1964 þar sem hann dvaldi í eitt ár. Hópurinn átti eftir að kynnast vel og sterk vináttubönd mynduðust sem haldist hafa allt fram á þennan dag. Til stóð að hópurinn mundi hittast á heimili okkar Elínar þegar líða tæki á febrúarmánuð. Ég hafði rætt við Karl og vonuðust þau Kristín til að geta mætt. Við áttum þá langt og ógleymanlegt samtal. Þegar ég ætlaði að fá staðfestingu á komu þeirra hjóna kom í ljós að Karl hafði kvatt þennan heim og haldið þangað þar sem „englarnir okkar eru yfir og allt um kring með eilífri blessun sinni“. Fundur okkar skiptinemanna og maka verður því haldinn síðar. Þar munum við minnast góðs vinar og samferðamanns. Síðar, eftir skiptinemaárið, lágu leiðir okkar Karls saman er við stunduðum nám við guðfræðideild HÍ. Að námi loknu vorum við vígðir til prestþjónustu. Báðir þjónuðum við á landsbyggðinni, hann í Vestmannaeyjum og ég á Siglufirði. Ég veit að hann átti mjög góð ár í Vestmannaeyjum og síðar í Hallgrímskirkju. Ég nefndi það oft við vini mína, skiptinemana og síðar við guðfræðinemana og auðvitað við kollegana, að Karl ætti án efa eftir að feta í fótspor föður síns, Sigurbjarnar Einarssonar biskups. Svo varð og það var mjög ánægjulegt að fá að taka virkan þátt í kjöri hans. Árið 1988-1989 stunduðum við báðir framhaldsnám í guðfræði í Bandaríkjunum, hann í Seattle í Washingtonríki og ég í Berkeley í Kaliforníu. Það var ánægjulegt þegar Karl og fjölskylda hans heimsóttu okkur í Berkeley. Samvera þeirra daga gleymist seint. Ofarlega í huga mínum, þegar við þökkum blessunarríkt starf hans og þeirra hjóna fyrir kirkju og þjóð, er þegar Karl biskup vígði Grafarvogskirkju á kristnihátíðarárinu 2000. Áður hafði séra Sigurður Arnarson verið vígður til þjónustu í Grafarvogssöfnuði en hann er tengdasonur Karls og Kristínar, kvæntur Ingu Rut. Áhrif séra Karls biskups munu vara í kirkjunni þótt ár og dagar líði. Hann hefur ritað og gefið út margar uppbyggilegar bækur er fjalla um kristna trú, lífið sjálft og tilveruna, sem og sálma sem meðal annars eru í nýju sálmabókinni. Þjónar kirkjunnar, prestar, djáknar sem og leikmenn, notfæra sér oft Bænabókina sem Karl tók saman. Margar aðrar trúarlegar bækur má nefna eins og bókina „Í helgum steini“ sem svo sannarlega er uppspretta guðfræðilegra hugleiðinga og prédikana, enda er séra Karl talinn í hópi okkar bestu prédikara á þessari öld.

Kæra Kristín! Við Elín vottum þér og fjölskyldunni okkar innilegustu samúð og biðjum hinn lifandi guð og föður að styrkja ykkur á kveðjustundu lífsins. Það á vel við að ljúka þessari kveðju með versi úr sálmi eftir séra Karl:

Í árdagsbirtu efsta dags

við endurkomu hans,

mun mætti dauðans, angist, ógn

rýmt út úr lífi manns.

Og heimar, geimar, mannsins mál

allt merlar gleði og trú.

Því aðventunnar ómi bæn:

Kom, ástvin, Kristur, nú!

Vigfús Þór Árnason.

Karl var fyrst og fremst tryggur þjónn kirkjunnar, predikari af Guðs náð og boðaði fagnaðarerindið af djúpri trúarsannfæringu. Hann var prestur af lífi og sál. Allt helgihald var honum dýrmætt og almennur safnaðarsöngur var hans hjartans mál. Listrænn var hann og vel að sér um kirkjutákn og helgisiði og átti stóran þátt í að koma á fót öflugu listalífi í Hallgrímskirkju meðan hann þjónaði þar.

Hann var vel til þess fallinn að gegna þeirri ábyrgðarmiklu þjónustu að vera biskup Íslands. Guðfræði hans byggðist á tryggð við orðið sem boðar okkur hið himneska ljós. Einkunnarorð hans fyrir þjóðkirkjuna voru „biðjandi, boðandi og þjónandi“ kirkja. Hann gaf hirðisbréfi sínu heitið „Í birtu náðarinnar“. Það lýsir best guðfræði hans og trú. Hann var trúr boðberi fagnaðarerindisins, vel að sér um sögu kristni og kirkju, með eindæmum minnisgóður og víðlesinn, eftirsóttur guðfræðingur og predikari. Erlendir biskupar leituðu til hans um kyrrðardaga fyrir þá sjálfa og fræðslu fyrir prestana og einn þeirra lét þau orð falla við mig að Karl hlyti að vera besti biskup Evrópu.

Hann var skipulagður og fljótur að vinna, hæfileikaríkur eldhugi og trúr því sem honum var falið. Hann hafði ótal sögur á hraðbergi, oft fullar af glettni og gamansemi og fólk þyrsti í að hlýða á hann. Í Dómkirkjunni lauk hann þjónustu sinni við altarið 50 árum eftir prestsvígslu sína. Eftir það herti sjúkdómurinn tökin en áfram vann hann við þýðingar og útgáfu, var virkur á Facebook allt fram á síðustu daga með hugleiðingar sem margir nutu góðs af.

Á vísitasíum virtist hann vita deili á öllum sem hann hitti, og ef ekki þá var hann fljótur að leita tengsla. Það sýndi áhuga hans á fólki en það var ríkur þáttur í fari hans. Þótt hann færi í margar kirkjur á yfirreiðinni flutti hann alltaf nýja prédikun. Hann hvatti mæður og feður til að biðja bænir með börnum sínum og tók saman bænabók sem mikið er notuð.

Sem biskup Íslands vissi hann að það blæs stundum köldu í þeirri þjónustu. En það reyndist honum afar þungbært að þurfa þess vegna að láta af embætti fyrr en hann hefði sjálfur kosið, hann sem hafði helgað kirkjunni alla krafta sína af svo mikilli alúð.

Hann var vígsluvottur minn og ég er þakklátur fyrir að hann valdi mig til að starfa sér við hlið á Biskupsstofu. Við áttum svo ótal margt sameiginlegt í guðfræði og lífsviðhorfi. En Karl var líka besti vinur minn. Við hjónin höfum átt samleið með Karli og Kristínu í rúm 50 ár og aldrei hefur borið skugga á þá vináttu. Það var ómetanlegt að eiga alltaf stuðning þeirra vísan, ekki síst þegar dóttir okkar féll frá í blóma lífsins.

Karl var mikil fjölskyldumaður og sinnti vel börnum, barnabörnum og stórum systkinahópi. Kristín eiginkona hans var besti vinur hans og sálufélagi, stoð hans og stytta.

Kirkjan er vissulega fátækari við fráfall hans og við hjónin söknum hans af heilum hug. Nú hefur hann lokið sinni trúu þjónustu við Guð og menn og gengið inn í birtu náðarinnar. Guð blessi hann og allt hans fólk.

Þorvaldur Karl Helgason.

Andlát Karls biskups 12. febrúar sl. kom ekki á óvart en kom við kviku. Í hugvekju sinni fyrir þennan dag árs í bókinni Dagur í senn hugleiðir hann þessi orð postulans: Verið stöðugir í bæninni. Vakið og biðjið með þakkargjörð. Slík bæn og lofgjörð voru þungamiðja í lífi Karls. Hann ólst upp við bænrækni á heimili foreldra sinna, biskupshjónanna Magneu og séra Sigurbjörns, í stórum systkinahópi og sótti helgihald er faðir hans stýrði í kórkjallara Hallgrímskirkju. Karl varð síðar prestur í kirkjunni stóru, táknmynd Reykjavíkur, og vígður þar biskup. Eldskírn hlaut hann þó fyrr er hann vígðist til að þjóna flóttafólki úr Vestmannaeyjum eftir eldgos og fylgdi því þangað til að byggja líf sitt upp úr ösku. Nývígður biskup Íslands hélt Karl fyrstu prestastefnu sína í Hafnarfjarðarkirkju og Strandbergi, sem var enn í byggingu, og sambyggðum tónlistarskóla vorið 1998 á 90 ára afmælisári Hafnarfjarðarbæjar. Yfirskriftin var „Kristnitaka – fögnum og gleðjumst yfir sköpun Guðs“, og stefnan gaf fögur fyrirheit við aldaskil. Um haustið blessuðu Sigurbjörn og Karl Hásali Strandbergs. Karl prédikaði á fjölsóttri kristnihátíð í Kaplakrika á sjómannadag 2000. Dýrlegt var svo að fylgjast með þeim biskupsfeðgum á Kristnihátíð á Þingvöllum við helgihald í glampandi sól og sjá tugþúsundir ganga til helgrar máltíðar sem vitnaði um lífið í Kristi er tengir fortíð og nútíð, jörð og himin. Blessun biskups síðar á minnismerki í Hafnarfirði um fyrstu lútersku kirkjuna á Íslandi var líka gleðirík.

Hirðisbréf Karls, Í birtu náðarinnar, lýsir erindi kirkjunnar sem sendiför Krists er glæðir líf í trú og trú á lífið og gefur kraft til þjónustu í dagsins önn og berast þarf um veröld víða. Bréfið markar stefnu biðjandi og boðandi þjóðkirkju og birtir trúarvisku og djúpsæi höfundar, er finnur vel strauma sinnar tíðar. Átök í veröld og aukin gróðahyggja drógu úr vonum um batnandi heim á nýrri öld. Karl varaði í prédikunum við niðurrifsöflum er vægju að trúnni, en sárast var þegar þeirra gætti innan kirkjunnar. Efnahagshrun þrengdi að þjóð og kirkju og ljóst varð að endurreisnin fælist í heilbrigðara þjóðlífi svo sem biskup staðhæfði. Hann þakkaði þá bænir og stuðning færeyskrar kirkju og jók samskiptin við hana. Lestur Passíusálma á Biskupsstofu er mér minnisstæður svo og allur vitnisburður Karls er byggðist á kjarna kristinnar trúar, fórnardauða og upprisu Frelsarans og virkni Andans helga. Þar var kjölfestan og áttavitinn rétti. Þótt Karl væri ekki lengur biskup Íslands sinnti hann trúboðun áfram úr „Helgum steini“ sem prédikari í Dómkirkjunni og gaf sem fyrr út trúarrit um kristin gildi, líka fyrir börn, sem öllu skipti að kynntust Jesú Kristi. Karl fjallaði einnig um dauðann er sótti hart að honum síðustu æviárin, en vitnaði helst um áhrifa- og sigurmátt Jesú Krists, líka á Ásjónubók. Prédikun Karls og boðun voru rík af Andans auðlegð og gjöfum og vottuðu einlæga trú hans sjálfs og bænalíf í lofgjörð og þökk. Því gaf hann þjóð sinni og kirkju mikið. Við Þórhildur þökkum leiðsögn og samleið Karls biskups í Kirkju Krists og biðjum góðan Guð að blessa ávöxtinn af prests- og biskupsþjónustu Karls og lýsa fjölskyldu hans og ástvinum í Jesú nafni.

Gunnþór Ingason.

Í ársbyrjun 1941 var síra Sigurbjörn Einarsson, faðir Karls, kjörinn prestur í Hallgrímsprestakalli í Reykjavík. Hann og eiginkona hans, frú Magnea Þorkelsdóttir, settust að, ásamt fjórum börnum sínum, í húsinu nr. 17 við Freyjugötu, því er næst stendur frá róluvellinum í vestur. Foreldrar síra Sigurbjarnar voru hjónin Einar Sigurfinnsson og Gíslrún Sigurbergsdóttir á Efri-Steinsmýri í Meðallandi. Frú Magnea var dóttir hjónanna Rannveigar Magnúsdóttur og Þorkels Magnússonar í Reykjavík. Í móðurætt var hún afkomandi þess góðfræga síra Jóns eldklerks Steingrímssonar á Prestsbakka á Síðu.

Vigdís Ketilsdóttir, húsfreyja á Grettisgötu 26, unni vel prestakallinu og var eindreginn stuðningsmaður síra Sigurbjarnar. Vigdís var dóttir Ketils hreppstjóra og dannebrogsmanns í Kotvogi í Höfnum Ketilssonar, þess er reisti Hvalsneskirkju fyrir eigin reikning. Voru vináttubönd milli heimila Vigdísar og prestshjónanna ungu. Ásbjörn Ólafsson stórkaupmaður, sonur Vigdísar, sá er flutti inn Bernína-saumavélarnar og Prinspóló-kexið, fór á kjörstað við prestskosningarnar og heyrðist hljóða innan úr kjörklefanum: „Hvað heitir hann aftur, þessi, sem hún mamma sagði að ég ætti að kjósa!“

Eftir að síra Sigurbjörn varð prófessor við Guðfræðideild Háskólans fór hann fótgangandi vestur eftir. Persóna snillingsins hafði aðdráttarafl og vakti athygli á götu. Einhver sagði, að í hvert sinn sem prófessor Sigurbjörn gengi yfir Tjarnarbrúna hugleiddi að minnsta kosti einn skólapiltur í Reykjavík að læra til prests.

Uppeldi barna lét frú Magneu einstaklega vel. Hún var kvenna stilltust og þó næsta kímin bak við. Þorkell tónskáld Sigurbjörnsson hafði snemma á sér snið listamannsins. Kvað frú Magnea grannana taka svo til orða um þá feðga: „Kyndugur er karlinn og ekki er strákurinn betri.“

Valmennið Karl Sigurbjörnsson var alla ævi trúr því heiti, sem hann vann á vígsludegi, „að prédika Guðs orð hreint og ómengað, eins og það er að finna í hinum spámannlegu og postullegu ritum og samkvæmt vitnisburði vorrar evangelísk-lúthersku kirkju í játningum hennar“. Honum sveið, að prestar skyldu einatt prédika Krist án þess að holdtekjan, líf hans og dauði, friðþægingin á krossinum og upprisan væru talin hafa sérstaka þýðingu. Þar væru tvær meginstefnur. Dóketismi með höfuðáherslu á kenningu Jesú þar sem saman færi áhugaleysi á jarðnesku lífi Krists og tröllatrú á andlegum möguleikum mannsins. Og svo ebjónítismi, þar sem athyglin beindist einkum að persónu lausnarans. Hér væri prédikað, að guðsvitund Jesú hefði verið svo sterk, að hann frelsaði mennina með því að hafa á þá sálræn áhrif.

Í stað þessa vildi Karl biskup boða friðþægingarkenninguna; þá latnesku, þar sem það er Guð og lögmál hans, sem er andlag verks Krists til hjálpræðis; þá subjektívu, þar sem vandinn er skortur mannsins á trú og ást á Guði, sem síðan er vakið með því að virða fyrir sér gefandi kærleika Jesú; og þá klassísku, þar sem afrek Jesú er stríð móti djöflinum og sigur yfir valdi hans.

Guð blessi minningu drengsins góða, Karls Sigurbjörnssonar. Guð huggi, verndi og styrki ástvini hans alla.

Gunnar Björnsson
pastor emeritus.

Það er aðdáunarvert hve Karl Sigurbjörnsson biskup fékk miklu áorkað í veikindum sínum. Þýddi bækur og samdi, talaði í kirkjum eftir því sem kraftar leyfðu. Á tímum kófsins sýndi hann hve honum var lagið að bregðast við nýjum aðstæðum. Sendi reglulega út hugvekjur gegnum síma frá heimili sínu eða jafnvel úti í náttúrunni. Og fékk mikla áheyrn.

Tvö prédikanasöfn sendi Karl frá sér. Í inngangsorðum ritsins „Í helgum steini“ (2018) gerir Karl að umtalsefni orðalagið að „setjast í helgan stein“. Þar sé vísað til hvíldar og kyrrðar sem líkja mætti við kirkju eða klaustur, hinn helga stein. Karl lét af biskupsembætti 1. júlí 2012. En í árslok 2013 var hann beðinn að hlaupa í skarðið og sinna prestsþjónustu í Dómkirkjunni. Tók því fegins hendi.

Höfundur leyfir sér allvíða að gerast persónulegur. Ekki bara að flytja kristna kenningu heldur líka að greina frá reynslu prédikarans af henni. Þannig verður prédikunin sem flutt var á 65 ára afmæli Óháða safnaðarins eftirminnileg. Þar var Karl settur inn í embætti vorið 1973, sem sóknarprestur í Vestmannaeyjum. Söfnuðurinn þá landflótta af völdum eldgossins í Vestmannaeyjum. Þessa reynslu rifjar hann upp, m.a. með orðunum „Skelfing var ég ungur þá og óburðugur“. Hann lýsir því hvernig bæjarstjórn Vestmannaeyja ákvað að halda grunnstofnunum samfélagsins gangandi á fastlandinu. Óháði söfnuðurinn bauð Vestmannaeyingum afnot af kirkjunni sinni. En presturinn kom líka víða í sumarbúðabyggðir og vinnuskála til flóttafólks í algerri óvissu um lífsafkomu og framtíð.

Það var enginn uppgjafartónn í prédikunum Karls, þó hann hafi talað um það sem lensku hér á landi að gera lítið úr kristinni trú. Hann vissi að andófið gegn kirkju og kristni er engin nýlunda. Vissi sömuleiðis að kirkjan er ekki yfir gagnrýni hafin. Hans ráð voru sýnilega þau að gera sér grein fyrir óvildinni, vega og meta og flytja sinn kristna boðskap með kröftugum hætti inn í þær aðstæður.

Í hugvekjusafninu „Dag í senn, eitt andartak í einu“ (2019) birtir Karl 365 hugvekjur. Þar grípur hann líka á stundum til minningarbrota. Rifjar upp reynslu sína af að hafa sem ungur drengur verið smali. „Í sveitinni var mér falið það tignarembætti að reka og sækja kýrnar. Virðulegra embætti hef ég ekki hlotið um dagana…“ Í því sambandi kom mér í hug að tvær helstu trúarhetjur Biblíunnar, Móse og Davíð konungur, voru báðir fjárhirðar áður en þeir urðu hirðar þjóðar. Og Jesús sjálfur talaði um sig sem góða hirðinn.

Karl biskup var einhver áhrifamesti boðberi kristninnar hér á landi um sína daga. Það var gæfa mín að kynnast honum vel og ekki síst að starfa við hlið hans í stjórn Hins íslenska biblíufélags. Síðast hitti ég Karl og Kristínu konu hans við guðsþjónustu í Kópavogskirkju að kvöldi gamlársdags. Það leyndi sér ekki að hann var veikur. En viðmót hans hið sama og jafnan áður, hlýlegt og elskulegt.

Guð blessi minningu hins mæta biskups og styrki Kristínu eiginkonu hans og ástvini alla í sorginni.

Gunnlaugur A. Jónsson.

Fyrir nokkrum árum kom Karl Sigurbjörnsson biskup í safnaðarheimilið í Neskirkju með erindi fyrir eldri borgara þar. Hann var mættur snemma og þegar fólk tíndist inn þá heilsaði hann, aðstoðaði þau elstu við að taka af sér, hengdi upp jakka og kápur og spjallaði í leiðinni. Ég fylgdist með og dáðist að því hvernig frá honum geislaði bæði virðing fyrir fólkinu og hlýja. Hvernig þjónusta hans var hafin löngu áður en kom að formlegu erindi. Og þegar hann hóf erindi sitt inni í sal fannst mér ég þegar hafa lært heilmikið.

Þetta var ekki það fyrsta sem ég lærði af Karli biskupi. „Lestu Biblíuna og sálmabókina og þá verður þér ekki orða vant,“ sagði hann við mig í viðtali til undirbúnings prestsvígslu. Ég vann þá á biskupsstofu. Meðal margra góðra minninga þaðan eru ferðir þar sem Karl var að hitta fólk, vísitasíur um landið vítt og breitt, kirkjuskoðun á hverjum stað, samtal, hugvekjur og aldrei sú sama þó að þær væru nokkrar á dag. Honum varð aldrei orða vant. Ég undraðist oft það gríðarlega minni sem hann hafði á menn og málefni, á staði, staðarheiti, sögur af fólki og nöfn heilu ættanna. Sögurnar voru af ýmsu tagi, margar fyndnar enda Karl mikill húmoristi.

Viskan og hlýjan eru ofarlega í huga þeirra gömlu samstarfsaðila okkar á alþjóðavettvangi sem brugðist hafa við fréttum af andláti Karls. Karl var virtur meðal kollega og samstarfsfólks erlendis sem hafa minnst hans og þakkað samfylgdina.

Tíminn á biskupsstofu var ekki alltaf auðveldur og mér þótti ómaklega að Karli vegið á köflum. Og sárt að geta ekki stöðvað það. En Karl hélt áfram að vinna og sinna, þjóna og miðla og gefa af sér, líka þegar hann lét af störfum sem biskup Íslands. Þá tóku einnig þýðingar við og bættust við það sem hann hafði sjálfur skrifað og tekið saman, þar á meðal bækurnar Orð í gleði, Fleiri orð í gleði og Huggun í sorg, sem eru safn sögubrota og orða til að lesa, íhuga, hugga sig við. Þessar bækur, bænabókina hans og bókina Dag í senn, hef ég notað ómælt í starfi síðan. Þær eiga ekki síður þátt í því að í þjónustunni verður mér sjaldan orða vant. Þó finnst mér mig skorta orð til að kveðja Karl sem skyldi. Og leita því til orða hans og ráða.

Karl Sigurbjörnsson lagði iðulega áherslu á hið fagra, á gæsku, náð og gleði – bæði í því sem hann flutti, skrifaði og orti. Þar fannst mér ég oft sjá listamanninn í prestinum og biskupnum sem ég þakka gefandi samfylgd með hans eigin orðum:

Ætíð mér þau ljóðin lýsi,

lífs og gæfu veginn vísi

orð þín yndisleg;

gleði' og birtu' í geði hlýju,

glæði' og laði fram að nýju

æ um æviveg.

(Sálmur 707, KS)

Kristínu, Ingu, Góa, Löllu og fjölskyldunni allri votta ég innilega samúð. Megi Guð umvefja þau og blessa allar góðu minningarnar.

Steinunn Arnþrúður Björnsdóttir.

Séra Karl Sigurbjörnsson er látinn eftir erfið veikindi.

Hann var sá kirkjunnar fulltrúi sem ég þekkti helst enda hef ég hvað lengst búið í nágrenni Hallgrímskirkju. Tók hann mér vel er ég gerðist þar sóknarmeðlimur kringum 1990.

Minnisstætt er mér svo, er ég var farinn að vinna á elliheimilinu Grund en hann var hættur sem biskup, að hann gat skilið vaknandi áhuga minn á vestrænni goðafræði og vættatrú út frá áhuga sínum á barnabókmenntum.

Síðast sló það mig er hann fór að tjá sig um lífið og ritlistina í Heimilispósti Grundar!

Það er erfitt að sjá á bak svo miðlægum manni í lífi borgarbúa svo snemma.

Við í messuhópi Grundarkórsins vottum nú samúð okkar yfir þessum velunnara okkar.

Líkt og ég kom Karl við í Vesturheimi í sínu háskólanámi. Því þykir mér ekki óviðeigandi að kveðja hann með tilvitnun í minningarljóð mitt er fjallar um (vesturíslenskan) umsjónarprófessor minn í framhaldsnámi mínu í mannfræði í Winnipeg í Kanada kringum 1979. En í því ljóði, er heitir Prófessorinn minn í Kanada, yrki ég m.a. svo:

Hvernig gat svona maður dáið?

Sem virtist boða eilífð okkar
kynslóða?

Hvernig gat hann tekið slíkt í mál?

Hann hefði svarað, að ef við
mannfræðinemarnir

sæjum ekki fyrir dauða kynslóðanna

fengjum við; um seinan þó; um ærið
nóg að hugsa;

er hlutverkjaleikjum fræðalífsins lyki!

Tryggvi V. Líndal.

Mér er það minnisstætt að Karl sá Loeb-útgáfuna af postullegu feðrunum inni á skrifstofu hjá mér – grískur texti og enskur – gluggaði aðeins í hana og spurði svo: „Má ég fá hana lánaða?“ Það var auðsótt. Að rúmri viku liðinni kom hann með skjal til mín. „Ertu fáanlegur að lesa yfir þetta?“ Þarna var þá komin skínandi góð þýðing að Didache: Erfð postulanna. Þýðinguna gaf hann svo út í fáeinum eintökum en þessi útgáfa hefði gjarnan mátt fara hærra og víðar.

Í þessari sögu birtast atriði sem voru nokkuð lýsandi fyrir hann: Hvað hann vann hratt og vel; einnig hógværð hans. En ekki síst var það þó efni ritsins sem talaði til hans: Arfleifðin, erindið sem kristnum er falið að bera áfram og byggist ekki á sendiboðunum, heldur þeim sem sendir þá til að gera allar þjóðir að lærisveinum; og hversu mikilvægt er að vera trúr þessu erindi.

Karl var afbragðskennimaður; fáa þekki ég sem höfðu jafn víðfeðma þekkingu á sögu og samhengi kristninnar en ég held að fyrir honum hafi sú þekking átt gildi sitt í því að styrkja og efla kirkju Krists á jörðu.

Karl varð biskup fljótlega eftir að ég vígðist og þekkti ég hann sem slíkan en eftir að hann lét af biskupsdómi leysti hann af í Dómkirkjunni þar sem við störfuðum saman. Þar tókust sterkari og betri kynni sem ég er afar þakklátur fyrir. Var í raun ómetanlegt að starfa með Karli og eiga þess kost að fá að læra af honum; en ekki síst að mega eignast vináttu hans. Hann var ráðhollur og styðjandi; sannkallaður reynslubrunnur. Var hann og afar hugmyndaríkur, skipulagður og fljótur að vinna, hvort heldur það var í safnaðarstarfi eða á sviði fræðanna. Karl kenndi frábærlega, bæði í stól og á stéttunum og gjarnan með góðum húmor þegar það átti við enda með næmt auga fyrir hinu spaugilega og hverjum manni skemmtilegri ef hann vildi.

Við í Dómkirkjunni kveðjum góðan vin og frábæran félaga með miklum söknuði. Guð blessi minningu Karls en styrki og huggi alla ástvini hans.

Sveinn Valgeirsson, sóknarprestur
Dómkirkjunnar.

Þessi skrifari fæddist á háalofti gamla Landspítalans við Hringbraut í júlí 1938. Sá hluti spítalans var vígður af Alexandrínu Danadrottningu 1929. Bóndi hennar var Christian X. Á sömu stofu lá frú Magnea Þorkelsdóttir og hafði alið annað barn þeirra hjóna Sigurbjarnar Einarssonar. Það var Þorkell sem síðar varð þjóðþekkt tónskáld. Móðir mín, Elísabet Ísleifsdóttir, var eitthvað sein til að fara að mjólka – svo að ég var settur á þrýstinn barm prestsfrúarinnar. Mamma og Sigurbjörn gengu saman í MR 1926-31. Eitt sinn voru þau á kvöldgöngu við Reykjavíkurtjörn. Þá birtist Sigurbirni Jesús – þar sem hann gekk þurrum fótum á Tjörninni. Við hjónin Nína Björk Árnadóttir bjuggum á Laufásvegi 54 í 10 ár búskaparins. Á Bergstaðastræti var bústaður biskups. Að vetrardegi 1973 setti Nína ljóð í Lesbók Morgunblaðsins sem hét „Dapur er hljómur Dómkirkjuklukkunnar“. Dr. Sigurbjörn skrifaði pistil í Morgunblaðið og andmælti túlkun höfundarins. Jafnframt sendi hann henni í pósti áritaða Sálmabók þjóðkirkjunnar með vinsemdarkveðjum. Sigurbjörn og Magnea voru tíðir gestir á mínu æskuheimili. Þá kom oft samtímis stjórnmálamaðurinn umdeildi Jónas Jónsson frá Hriflu. Síðar kynntist ég öðrum börnum biskups – Karli, Gunnari, Árna Bergi og fleirum. Séra Karl Sigurbjörnsson var ekki sami kirkjuhöfðinginn og faðir hans en hann var maður friðar og meðalhófs í kirkjunni. Tengdasonur Karls biskups, sem kvaddur er í dag, er æskuvinur Ara Gísla, elsta sonar míns, séra Sigurður Arnarson prestur í Kópavogskirkju. Sá hágöfugi drengur. Þeir voru saman í Tjarnarborg en þar bjó fyrsti ráðherra Íslands – Hannes Hafstein. Þrjá erfingja á hver maður; mennina, moldina og sálarinnar meðtakara.

Bragi Kristjónsson.