Hraun Eldgos hófst snemma morguns þann 8. febrúar milli Sundhnúks og Stóra-Skógfells. Hraunið rann yfir Grindavíkurveg og til Svartsengis, og yfir Njarðvíkuræðina sem flutti heitt vatn til bæja á Reykjanesskaganum.
Hraun Eldgos hófst snemma morguns þann 8. febrúar milli Sundhnúks og Stóra-Skógfells. Hraunið rann yfir Grindavíkurveg og til Svartsengis, og yfir Njarðvíkuræðina sem flutti heitt vatn til bæja á Reykjanesskaganum. — Ljósmynd/Hörður Kristleifsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Skúli Halldórsson sh@mbl.is Eldgosið sem braust út 8. febrúar, það þriðja á tveimur mánuðum og það sjötta á þremur árum á Reykjanesskaganum, sker sig ekki úr frá yfirstandandi goshrinu hvað samsetningu kvikunnar varðar. Kvikan í eldgosinu er því ólík öllum þeim hraunum sem rannsökuð hafa verið á skaganum til þessa, rétt eins og þau fimm eldgos sem á undan komu.

Baksvið

Skúli Halldórsson

sh@mbl.is

Eldgosið sem braust út 8. febrúar, það þriðja á tveimur mánuðum og það sjötta á þremur árum á Reykjanesskaganum, sker sig ekki úr frá yfirstandandi goshrinu hvað samsetningu kvikunnar varðar. Kvikan í eldgosinu er því ólík öllum þeim hraunum sem rannsökuð hafa verið á skaganum til þessa, rétt eins og þau fimm eldgos sem á undan komu.

Þetta segir Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði við Háskóla Íslands, í samtali við Morgunblaðið. Áður hefur blaðið greint frá þessari gjörólíku kviku, og hvernig henni svipar helst til hrauna sem runnið hafa úr Öskju og Veiðivötnum, og jafnvel Grímsvötnum. Þá hefur Þorvaldur varpað fram þeirri kenningu að þetta kunni að skýrast af því að möttulstrókurinn undir landinu, sem á miðju sína undir Vatnajökli, hafi styrkst og teygt sig undir Reykjanesskagann með þessum afleiðingum.

Þorvaldur segir að reynist þessi kenning rétt kunni möttulstrókurinn að leiða af sér öðruvísi eldgos en orðið hafa áður í landshlutanum.

„Hvort það þýði að þau verði aflmeiri eða stærri, eða hvort þau fari í hina áttina og verði aflminni – það er þó erfitt að segja til um,“ segir Þorvaldur.

„En það er mjög athyglisvert að þessir atburðir sem nú eiga sér stað, þeir virðast vera að koma upp með kviku sem hefur ekki sést áður á Reykjanesskaganum, alla vega ekki upp á yfirborðið í formi hrauns,“ bætir hann við.

„Gagnabankinn okkar bendir til þess, en það getur vel verið að það vanti eitthvað í gagnabankann, að það leynist í honum göt eða að við höfum akkúrat ekki náð sýnum af því þegar þetta hafi þá gerst áður. Það kemur þá bara í ljós í framtíðinni.

Það breytir því þó ekki að þessi kvika er óvenjuleg. Hún er í það minnsta mjög ólík þeirri kviku sem mest hefur komið upp á skaganum.“

Hvað veldur landrisi Íslands?

Greiningar á gervihnattamyndum af öllu landinu hafa undanfarin ár leitt í ljós greinilegt og víðfeðmt landris, sem af myndunum að dæma er mest undir og við Vatnajökul. Sú kenning er ríkjandi að landrisið sé sökum bráðnunar jökla. Sem sagt, þungu fargi af landinu létt sem lyftist svo í kjölfarið.

„Ég set ákveðið spurningarmerki við það,“ segir Þorvaldur.

„Sér í lagi vegna þess að Langjökull og Hofsjökull eru líka að bráðna, en þú sérð ekki neitt í líkingu við þetta í kringum þá. Það ætti að minnsta kosti að sjást eitthvað þar, miðað við þá kenningu. Þeir hafa sömuleiðis bráðnað mjög mikið.

Og þá vaknar spurningin: Er þessi landlyfting mögulega tengd meiri virkni í möttulstróknum? Það er hugsanlegt. Og er þá aukin virkni á Reykjanesskaganum hluti af þeirri sögu?“

Þau eldgos sem orðið hafa á Reykjanesskaganum undanfarin tæp þrjú ár svipar þeim ekki til þeirra gosa sem vitað er að urðu á síðasta gosskeiði skagans?

„Við vitum það nefnilega ekki. Ef við horfum á Sundhnúkahraunið gamla – það er tekið sem einn atburður – það er ansi stórt. Mun stærra en þau hraun sem hafa komið upp núna.

En eftir átta hundruð ár, þá er ég ekki viss um að við munum geta greint þessi hraun í sundur. Hvort hægt verði að benda og segja: „Þetta var gosið 18. desember, þetta var gosið 14. janúar og svo var þetta gosið 8. febrúar.“ Þannig að það er alveg möguleiki að Sundhnúkahraunið sé myndað í mörgum svona litlum gosum. Það kann líka að hafa verið eitt stórt gos sem myndaði töluvert stórt hraun og að við séum þá að sjá eitthvert annað mynstur núna.“

Þorvaldur tekur fram að þó vísindamenn viti töluvert þá sé margt sem þeir viti ekki.

„Það þarf að taka tillit til þess. Upplausnin í gögnunum sem við höfum úr eldri hlutanum er ekki eins góð og upplausnin í þeim gögnum sem við náum að afla í dag. Ég er ekki viss um að menn greini hraunin þrjú í Fagradalsfjalli frá hvert öðru eftir nokkur hundruð ár. Þetta er það sem við er að etja.“

Spurður hvort hann sé sammála þeirri viðteknu túlkun jarðvísindamanna, að búast megi áfram við álíka eldgosum í grennd við Svartsengi með um mánaðar millibili, svarar Þorvaldur játandi.

„Ég held að það sé óhætt að fullyrða það og engin ástæða til að búast við öðru. Nema þá ef einhverjar breytingar verða í kerfinu, sem virðist vera komið í ákveðinn stöðugan takt. Það flæðir þarna úr dýpra geymsluhólfinu og upp í grynnra geymsluhólfið. Það flæði virðist vera nokkuð stöðugt og lítur ekki út fyrir að breytast frá einum tíma til annars. Á meðan það heldur áfram og þetta grynnra geymsluhólf tekur enn við – og lyftir lokinu og losar kvikuna upp á yfirborðið og myndar smá hraun – þá megum við búast við óbreyttri þróun.

En ef við klippum á uppstreymið, hvort sem það er gert með jarðskjálfta eða ef kvikan klárast að sinni þarna undir niðri, þá náttúrulega stöðvast þetta.“

Töluvert ólíkt Fagradalsfjalli

Ferlið í jarðskorpunni í aðdraganda eldgosanna er töluvert ólíkt því sem vísindamenn urðu vitni að við Fagradalsfjall.

„Þetta er eiginlega allt öðruvísi þarna í Fagradalsfjalli. Þar sjáum við ekki þessa miklu gliðnun. Sú kvika kemur beint úr dýpra hólfinu. Það hefur bara myndast einhvers konar sprunga í áttina til yfirborðs og kvikan fór bara að flæða upp. Og hún streymdi bara hægt og rólega. Enda braust það gos ekki út með neinum látum. Framleiðnin var kannski í fjórum rúmmetrum á sekúndu til að byrja með og fór svo upp í átta rúmmetra.“

Þorvaldur grípur til samlíkingar til einföldunar:

„Í Fagradalsfjalli varstu bara með eina stóra blöðru, djúpt niðri, og stakkst á hana gat með títuprjóni. Svo fór bara að leka út um títuprjónsgatið.“

Af þessum sökum eru litlar líkur á jafn langvinnu gosi við Svartsengi.

„Þar erum við aftur á móti með grynnra geymsluhólf. Þegar það hefur náð ákveðnu rúmmáli, sem virðist vera í kringum tíu til tólf milljónir rúmmetra, þá lyftir það lokinu og kvikan kemst áfram. Þetta er næstum því eins og ventill. Þess vegna er þetta svona reglubundið.“

Gígaröðin Eldvörp liggur vestur af Svartsengi og Þorbirni. Áður en skýrari mynd fékkst á þróun landrissins við Svartsengi þótti jafnvel líklegt að gos gæti brotist út þar.

Ef við sjáum eldgos þar, telurðu að það yrði þá úr þessu grynnra kvikuhólfi undir Svartsengi?

„Já, ég myndi halda það. Þó maður geti ekkert fullyrt um það, þá hallast ég að því. Vegna þess að þessi miðja landrissins sem mælist – hún nær alveg út í Eldvörpin. Landrisið nær alla leið þangað. Kvikan reynir að finna auðveldustu leiðina og við sjáum að þarna í Svartsengi sjálfu virðist vera erfiðara fyrir hana að komast upp á yfirborðið. Þannig að hún lyftir þá bara jöðrunum. En það væri auðvitað miklu betra að fá þetta út í Eldvörpin, þar sem það yrði miklu lengra frá Grindavík. Það yrði því mjög jákvæð þróun.“

Spurður hvort hann telji líkur á að grynnra geymsluhólfið stækki, sem leiða myndi af sér stærri gos þegar þau brjótast út, kveðst Þorvaldur telja það ólíklegt.

„Það er allt sem bendir til þess að lokið lyftist bara þegar hólfið er orðið fullt. En það gæti náttúrulega breyst líka.“

Gæti enn gosið innan garða

Nú er þjóðhagslegt mikilvægi Svartsengisvirkjunarinnar almennt viðurkennt, langt umfram Grindavíkurbæ eins og fram hefur komið. Telurðu virkjunina enn í hættu, þrátt fyrir þá varnargarða sem reistir hafa verið á síðustu mánuðum?

„Hættan er enn til staðar. Þessir leiðigarðar sem eru þarna – þó svo þeir hafi reynst okkur vel fram til þessa þá gefa þeir okkur ekki 100% öryggi á því að halda hrauninu frá virkjuninni. Það eru sumir staðir sem eru kannski veikari en aðrir. Til dæmis garðurinn norðan við Hagafellið. Ef hraun fer í þá áttina, einhverra hluta vegna, þá liggur hann beint fyrir. Ef hraun fer þar yfir þá getur það runnið beint ofan í lægðina. Það er því að ýmsu að huga.

Svo getur auðvitað gosið innan garðanna, þó það sé ólíklegt. Þá er þetta allt saman farið. Þetta er því bæði flókin og erfið staða sem við erum í, í augnablikinu. Vonandi fær það okkur til að hugsa okkar gang líka. Taka kannski aðeins meira tillit til náttúrunnar og þeirrar hættu sem af henni getur stafað.

Við erum komin inn í nýjan raunveruleika. Þetta er bara breytt ástand. Og það finnst mér mjög mikilvægt að við sem samfélag sættum okkur við. Að við áttum okkur á því að við verðum að breyta kannski aðeins okkar hugsunarhætti og nálgast þessa hluti öðruvísi en við höfum gert fram til þessa.“

Eitt er það þá sem Þorvaldur nefnir helst.

„Ef Reykjanesbrautin fer undir hraun. Hvað ætlum við að gera þá? Ætlum við að beina umferðinni í gegnum Grindavík? Ég veit að þetta eru ekki skemmtilegir hlutir til að hugsa um, en þetta er eitthvað sem við verðum að taka tillit til.“

Höf.: Skúli Halldórsson