Menntun Mikil aukning hefur verið á námsefni á ensku. Doktorsnemi telur að endurhugsa þurfi hlutverk enskukennarans í grunnskólum.
Menntun Mikil aukning hefur verið á námsefni á ensku. Doktorsnemi telur að endurhugsa þurfi hlutverk enskukennarans í grunnskólum. — Morgunblaðið/Eggert
Kári Freyr Kristinsson karifreyr@mbl.is Sífellt færist í aukana að námsefni barna og unglinga sé á ensku. Doktorsnemi í ensku telur að breyta þurfi áherslum í tungumálakennslu til að undirbúa nemendur betur fyrir fræðilega texta í kennslubókum á framhaldsskóla- og háskólastigi.

Kári Freyr Kristinsson

karifreyr@mbl.is

Sífellt færist í aukana að námsefni barna og unglinga sé á ensku. Doktorsnemi í ensku telur að breyta þurfi áherslum í tungumálakennslu til að undirbúa nemendur betur fyrir fræðilega texta í kennslubókum á framhaldsskóla- og háskólastigi.

Súsanna Björg Vilhjálmsdóttir, doktorsnemi í ensku, hlaut nýverið styrk frá Rannís til að vinna að rannsókn um ritun á grunn-, framhalds- og háskólastigi.

„Ég er í raun að skoða hvaða textategundir kennarar eru að leggja fyrir nemendur, á ensku og íslensku, sem og kennsluefnið og hvort hlutverk enskukennarans þurfi ekki endurskoðun út frá því að enska er notuð sem kennslumál á framhalds- og háskólastigi en ekki sem erlent mál.“

Súsanna segir það ákveðið vandamál hve mikið tungumálakennarar í grunnskólum einblína á bókmenntatexta því þegar nemendur fara í framhaldsskóla taki við fög þar sem textinn er öðruvísi en bókmenntatexti. Súsanna nefnir sem dæmi að texti í glæpasögu sé allt öðruvísi uppbyggður og orðaður en sagnfræðilegur texti eða rannsóknarskýrsla.

„Það hefur verið vandamál hjá þeim nemendum sem fara á háskólastig að þeir kunna ekki að nota tungumálið sem fagmál heldur meira sem talmál,“ segir Súsanna. „Þá spyr maður hvort hlutverk annarra kennara en tungumálakennara sé að kenna nemendum hvernig eigi að byggja upp orðræðu í skýrslum eða ritgerðum.

Rannsóknin leiðir í ljós að það er mikil aukning á ensku í kennslustofunni,“ segir Súsanna en að það sé skiljanlegt þar sem dýrt sé að þýða námsefni.

„Á sama tíma erum við ekki að efla fagmál nemenda þannig að það verði nægjanlegt svo þeir skilji þessa texta,“ segir hún.

Aðspurð segir Súsanna það hafa komið á óvart hversu mikið efni er á ensku í félagsfræði og náttúrufræði á framhaldsskólastigi.

„Ég held við þurfum að endurskoða hlutverk enskukennarans svo að hann geti hjálpað nemandanum að byggja betur upp enskukunnáttu sína svo hann geti tæklað þessa texta á framhaldsskóla- og háskólastigi.“