Enn einn leikmaður Liverpool varð fyrir meiðslum í gær þegar liðið mætti Chelsea í úrslitaleik enska deildabikarsins í knattspyrnu á Wembley. Hollenski miðjumaðurinn Ryan Gravenberch var borinn af velli, meiddur á ökkla, í fyrri hálfleiknum eftir tæklingu frá Moises Caicedo, miðjumanni Chelsea.
Albert Guðmundsson var í stóru hlutverki hjá Genoa í ítölsku A-deildinni í knattspyrnu á laugardagskvöldið en hann lagði þá upp fyrra mark liðsins í heimasigri á Udinese, 2:0. Þetta var hans þriðja stoðsending á tímabilinu en Albert hefur skorað níu mörk í deildinni í vetur. Fyrr um daginn staðfesti lögmaður hans við RÚV að héraðssaksóknari í Reykjavík hefði fellt niður kynferðisbrotamál á hendur Alberti en hann hefur vegna þess ekki leikið með landsliði Íslands frá síðasta sumri. Framhaldið ræðst af því hvort niðurfellingin verði kærð en í yfirlýsingu lögmanns konunnar segir að rétt sé að skoða hvort niðurstaðan verði borin undir ríkissaksóknara.
Knattspyrnumaðurinn Davíð Kristján Ólafsson er kominn til Cracovia í Póllandi eftir að hafa leikið með Kalmar í sænsku úrvalsdeildinni undanfarin tvö ár. Davíð, sem er 28 ára vinstri bakvörður og var leikmaður Breiðabliks til ársloka 2021, lék 59 af 60 deildaleikjum Kalmar á þeim tíma sem hann var í röðum félagsins og skoraði tvö mörk. Hann hefur leikið 15 landsleiki fyrir Ísland og skorað eitt mark. Cracovia er í níunda sæti pólsku úrvalsdeildarinnar þegar leiknar hafa verið 22 umferðir af 34. Davíð samdi við félagið til sumarsins 2026.
Sverrir Ingi Ingason, landsliðsmaður í knattspyrnu, fékk á sig tvær vítaspyrnur í gærkvöld og fyrir vikið tvö gul spjöld þegar lið hans, Midtjylland, vann AGF 3:2 á útivelli í dönsku úrvalsdeildinni. Í annað skiptið braut hann á Mikael Anderson, félaga sínum í íslenska landsliðinu. Sverrir var því rekinn af velli og leikmenn Midtjylland voru tveimur mönnum færri þegar þeir skoruðu sigurmark sitt í uppbótartíma leiksins.
Kristall Máni Ingason skoraði eitt mark og Daníel Leó Grétarsson lagði annað upp þegar lið þeirra, SönderjyskE, gerði jafntefli, 2:2, við AaB í toppslag dönsku B-deildarinnar í fótbolta á laugardag. Atli Barkarson lék líka með SönderjyskE sem er efst, stigi á undan AaB, en liðin tvö virðast bæði stefna hraðbyri upp í úrvalsdeildina.
Hákon Arnar Haraldsson skoraði í gær fyrsta mark sitt fyrir Lille í frönsku 1. deildinni í knattspyrnu. Hann skoraði mark liðsins í ósigri í Toulouse, 3:1, og kom þá Lille yfir á lokamínútu fyrri hálfleiks. Hákoni var skipt af velli á 83. mínútu. Lille missti dýrmæt stig í toppbaráttunni en liðið er í fimmta sæti, á eftir París SG, Brest, Mónakó og Nice.
Casemiro, brasilíski miðjumaðurinn hjá Manchester United, gæti hafa fengið heilahristing í tapleik liðsins gegn Fulham, 2:1, á laugardaginn. Hann þurfti að fara af velli í byrjun síðari hálfleiks eftir harkalegan árekstur við Harrison Reed og fer í myndatöku í dag. Alex Iwobi skoraði sigurmark Fulham á sjöundu mínútu uppbótartímans.
Manchester City er stigi á eftir Liverpool í toppbaráttu ensku úrvalsdeildarinnar eftir útisigur á Bournemouth á laugardaginn, 1:0. Phil Foden skoraði sigurmarkið á 24. mínútu.
Arsenal lék Newcastle grátt, 4:1, og er stigi á eftir Manchester City. Eftir sjálfsmark Newcastlemanna skoruðu Kai Havertz, Bukayo Saka og Jakub Kiwior fyrir Lundúnaliðið en fyrrverandi Arsenalmaðurinn Joe Willock minnkaði muninn fyrir Newcastle undir lokin.
Sigvaldi Björn Guðjónsson varð í gær norskur bikarmeistari í handknattleik með Kolstad. Lið hans vann þá Elverum í úrslitaleik, 27:23, í Arendal og Sigvaldi skoraði fimm mörk í leiknum. Hann gerði þrjú mörk í undanúrslitunum á laugardag þegar Kolstad vann Haslum, 33:26. Axel Stefánsson, aðstoðarþjálfari Storhamar, var með sitt lið í bikarúrslitaleik kvenna í gær en það beið lægri hlut fyrir Vipers Kristiansand, 32:23.