Viðtal
Ásgeir Ingvarsson
ai@mbl.is
Samkvæmt nýrri greiningu frá Samtökum iðnaðarins er verulegur skortur á rafvirkjum á Íslandi. Þá er sá fjöldi sem útskrifast árlega með sveinspróf í rafvirkjun langt undir áætlaðri meðalþörf fyrirtækja í rafiðnaði.
Jóhanna Klara Stefánsdóttir er sviðsstjóri mannvirkjasviðs SI og bendir hún á að frá 2018 til 2023 hafi að meðaltali 142 einstaklingar lokið sveinsprófi í rafvirkjun en reiknað sé með að íslensk rafiðnaðarfyrirtæki þurfi að fylla um 160 stöður rafvirkja árlega á næstu fimm árum. „Þá er eftir að taka tillit til þeirrar uppsöfnuðu þarfar sem hefur myndast í greininni, og eins þarf að taka með í reikninginn að alls ekki allir sem ljúka sveinsprófi ákveða að starfa við rafvirkjun enda þykir iðnnámið góður grunnur fyrir áframhaldandi nám af ýmsum toga,“ segir hún.
Greining SI er byggð á könnun sem Outcome gerði á meðal aðildarfyrirtækja samtakanna og kom í ljós að fyrirtæki í rafiðnaði gera ráð fyrir að ráða um 940 manns á næstu fimm árum, þar af 800 rafvirkja. Jafnframt sögðu 67% stjórnenda fyrirtækja í rafiðnaði að á undanförnum árum hefðu erfiðleikar við að manna lausar stöður valdið því að rekstur þeirra óx hægar en hann hefði annars gert. „Þær tölur sem koma fram í könnuninni gera ekki ráð fyrir áhrifum þeirra metnaðarfullu áforma sem eru uppi hjá stjórnvöldum um að greiða leið orkuskipta og auka raforkuframleiðslu, og því er líklega þörf á mun fleiri rafvirkjum en könnunin gefur til kynna,“ útskýrir Jóhanna Klara og bætir við að vöntun á menntuðum iðnaðarmönnum komi fram víðar í atvinnulífinu.
Iðnnámið ekki samræmt innan Evrópu
Að sögn Jóhönnu Klöru undirstrika niðurstöður könnunarinnar mikilvægi þess að efla iðnnám á Íslandi enn frekar. Bæði skapi vöntun á rafvirkjum flöskuháls sem hamlar vexti og verðmætasköpun atvinnulífsins og þau störf sem þarf að fylla séu jafnan vel launuð hátæknistörf. „Störf rafvirkja hafa tekið töluverðum breytingum og fela t.d. í auknum mæli í sér stýringu ýmissa kerfa í iðnaði, gagna- og samskiptageira og hönnunarvinnu. Námið er orðið fjölbreyttara og störfin líka,“ útskýrir Jóhanna Klara og bætir við að um dýrmæt starfsréttindi sé að ræða og verulega góð laun séu í boði fyrir vinnusama rafvirkja.
Góðu fréttirnar eru þær að aðsókn í rafiðnaðarnám vex jafnt og þétt. „Þá hefur fræðslumiðstöð rafiðnaðarmanna, Rafmennt, nýlega fengið viðurkenningu sem framhaldsskóli og m.a. tekið við eldri nemendum sem hafa ekki komist að hjá öðrum iðnskólum vegna skorts á lausum plássum,“ segir Jóhanna Klara.
Þá þykir ljóst að greinin mun þurfa að reiða sig á vinnuafl frá öðrum EES-löndum til að reyna að brúa bilið en þar getur valdið flækjum að skipulag iðnnáms og iðnréttinda er ekki samræmt innan Evrópu. „Mikilvægt er að þeir útlendingar sem koma til með að sinna þessum störfum búi yfir þeirri færni sem íslensk lög gera kröfu um, en sem dæmi um muninn á náminu á Íslandi og iðnnámi í öðrum löndum þá er víða erlendis hægt að fá svk. skipt réttindi sem snúa þá aðeins að tilteknum verkþáttum í störfum rafvirkja. Er mikilvægt að hafa gott kerfi til staðar þar sem iðnaðarmenn menntaðir erlendis geta fengið réttindi sín metin og viðurkennd án mikils trafala, og fengið þá viðbótarmenntun sem þá kann að vanta.“
Skortur
Að jafnaði hafa 142 lokið sveinsprófi í rafvirkjun ár hvert.
Rafiðnaðarfyrirtæki áætla að þau þurfi 160 nýja rafvirkja árlega.
Inni í þeirri tölu er ekki eftirspurn eftir rafvirkjum vegna fyrirhugaðra framkvæmda við orkuinnviði.
Ekki allir sem ljúka náminu leggja rafvirkjun fyrir sig.
Erlendir rafvirkjar eru stundum aðeins með réttindi í tilteknum verkþáttum.