[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Engin merki voru um að kvikan væri á hreyfingu undir Svartsengi í gær en samkvæmt spá Veðurstofunnar ætti kvikusöfnunin að hafa verið við neðri mörk í gær. 7,6 milljónir rúmmetra af kviku höfðu safnast fyrir undir Svartsengi á mánudaginn og því er áætlað að sú tala hafi náð 8 milljónum í gær

Sviðsljós

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Engin merki voru um að kvikan væri á hreyfingu undir Svartsengi í gær en samkvæmt spá Veðurstofunnar ætti kvikusöfnunin að hafa verið við neðri mörk í gær.

7,6 milljónir rúmmetra af kviku höfðu safnast fyrir undir Svartsengi á mánudaginn og því er áætlað að sú tala hafi náð 8 milljónum í gær. Ef horft er til aðdraganda fyrri eldgosa á Sundhnúkagígaröðinni aukast líkur á eldgosi þegar magnið hefur náð 8-13 milljón rúmmetrum.

Á íbúafundi með Grindvíkingum í Laugardalshöllinni á mánudag kynnti Veðurstofan tvær mögulegar sviðsmyndir varðandi næsta eldgos en eins og fram hefur komið gæti gosið á svæðinu á næstu dögum. Þessar mögulegu sviðsmyndir má sjá á korti sem fylgir fréttinni.

Líkönin sýna áætlað hraunflæði út frá tveimur mismunandi staðsetningum. Veðurstofan áréttar að ekki er um spá um hegðun næsta eldgoss að ræða heldur sé verið að kanna mögulegt hraunflæði út frá ólíkum staðsetningum. Ýmislegt geti haft áhrif á hraunflæði svo sem staðsetning, lengd gossprungunnar, magn hraunflæðis, landslag og hvort gígar myndist eða hrauntungur.

Virkni færist milli kerfa

Í nýrri samantekt fræðimanna sem finna má á vef Veðurstofunnar segir m.a. að eldgos framtíðarinnar geti mögulega orðið stærri að rúmmáli.

„Á síðustu þremur árum hefur virkni færst á milli eldstöðvakerfanna við Svartsengi og Fagradalsfjall. Í fyrri virknitímabili á Reykjanesskaga, sem endaði fyrir um 800 árum, færðist virkni líka á milli nærliggjandi eldstöðvakerfa. Þrátt fyrir að eldgosin á síðustu árum hafi verið frekar lítil að rúmmáli, þá benda eldgosin sem urðu á sögulegum tíma til þess að eldgos framtíðarinnar geti mögulega orðið stærri að rúmmáli en þau sem nú þegar hafa orðið.“

Samantektin er samstarfsverkefni Veðurstofunnar og Háskóla Íslands og var unnin af: Michelle Parks, Freysteini Sigmundssyni, Söru Barsotti, Halldóri Geirssyni, Kristínu S. Vogfjörð, Benedikt Ófeigssyni og Páli Einarssyni. Þau benda á að þrátt fyrir umfangsmikla vöktun geri náttúruöflin ekki endilega boð á undan sér með löngum fyrirvara.

„Veðurstofa Íslands, í samvinnu við ýmsar stofnanir á Íslandi, er með öfluga vöktun á kvikuhreyfingum og eldvirkni á svæðinu. Þrátt fyrir það er mögulegt að skammtíma viðvörun verði gefin út fyrir næstkomandi eldgos með minna en 30 mínútna fyrirvara áður en gos hefst, ef það byrjar á svæðinu á milli Sýlingarfells og Stóra-Skógfells, á svipuðu svæði og þann 8. febrúar,“ og færð eru rök fyrir þessari mögulegu atburðarás.

Fleiri möguleikar í stöðunni

„Þetta stafar af mögulegum breytingum á aðstæðum í Svartsengis-kvikusvæðinu, kvikurásum og spennusviði jarðskorpunnar. Hratt kvikustreymi hefur átt sér stað til þessa inn í kvikurás þegar jaðar kvikusvæðisins hefur gefið sig, sem leiðir til gangainnskota og eldgosa. Uppsöfnuð togspenna í jarðskorpunni vegna flekahreyfinga auðveldar gangainnskot, en eftir því sem fleiri gangainnskot verða þá losnar um þessa spennu. Almennt séð líður lengri tími frá því að jaðar kvikusvæðis gefur sig og þar til eldgos verður, ef gangainnskot verður í millitíðinni. Ef gangainnskot fara minnkandi eða þeirra gerist ekki þörf til að losa spennur, þá er mögulegt að í framtíðinni byrji eldgos á svæðinu með minni fyrirvara. Ef gangainnskot verður utan svæðisins milli Sýlingarfells og Stóra-Skógfells – annaðhvort norðaustan við Sýlingarfell eða til suðvesturs í átt að, eða undir Grindavík, þá er áætlað að viðvörunartíminn verði 1-5 klst.“

Höf.: Kristján Jónsson