Þorvaldur Haraldsson fæddist í Reykjavík 20. desember 1965. Hann lést í faðmi fjölskyldunnar á líknardeild Landspítalans 19. febrúar 2024 eftir stutta baráttu við krabbamein.

Hann var sonur hjónanna Haraldar Jóhannssonar, f. 1942, d. 2013, og Guðrúnar Bjarnadóttur, f. 1941. Þau skildu.

Alsystur Þorvaldar eru Kolbrún, f. 20. desember 1964, d. 1. júlí 1970, Úlfhildur, f. 1967, maki Jóhannes K. Sveinsson, f. 1966, og Jóhanna, f. 1968.

Hálfsystur Þorvaldar sammæðra eru Þorbjörg Valdimarsdóttir, f. 1978, maki Hannes Þór Pétursson, f. 1976, og Þuríður Valdimarsdóttir, f. 1981, maki Róar Örn Hjaltason, f. 1978.

Hálfsystur Þorvaldar samfeðra eru Guðrún Jóhanna, f. 1966, maki Þórarinn Jóhannsson, f. 1967, og Kristín Halla, f. 1973, maki Lárus Sverrisson, f. 1966.

Eftirlifandi sambýliskona Þorvaldar er Katrín Guðrún Helgadóttir, f. 1948. Dætur hennar eru: 1) Jóhanna Áskels Jónsdóttir, f. 1971, maki Þröstur Líndal, f. 1972. Börn þeirra eru Ágústa Líndal, f. 2002, Ásgeir Líndal, f. 2005, og Ásdís Líndal, f. 2008. 2) Helga Áskels Jónsdóttir, f. 1972, maki Ólafur Ólafsson, f. 1976. Börn þeirra eru Óli Trausti Ólafsson, f. 2008, og Anna Katrín Ólafsdóttir, f. 2010. 3) Íris Áskels Jónsdóttir, f. 1977. Sonur hennar er Þórsteinn Leó Gunnarsson, f. 2006.

Þorvaldur ólst upp í Mosfellsdal fyrstu æviár sín en flutti svo ásamt móður sinni og alsystrum að Helguhvammi í Vestur-Húnavatnssýslu og var hann ungur farinn að hjálpa til við ýmis tilfallandi störf í sveitinni. Þorvaldur lauk sveinsprófi í rafvirkjun 20. júní 1988 og varð rafvirkjameistari 22. júlí 1992. Hann stofnaði sitt eigið rafverktakafyrirtæki árið 2002 og starfaði þar til dánardags.

Þorvaldur var virkur í ýmsum félagsstörfum og starfaði m.a. með björgunarsveit á Hvammstanga á sínum yngri árum og var virkur félagi í Oddfellow, stúku Ara fróða nr. 18 í 7 ár. Þar mætti hann reglulega á fundi og tók virkan þátt á félagsstarfi á vegum stúkunnar.

Þorvaldur hafði gaman af veiði og renndi fyrir lax og silung í Vatnsdalsá í mörg ár. Hann naut samveru með sambýliskonu sinni og fjölskyldu hennar og hafði gaman af því að ferðast innanlands og erlendis.

Útför Þorvaldar fer fram frá Grafarvogskirkju í dag, 28. febrúar 2024, og hefst athöfnin klukkan 13.

Elsku Valdi okkar.

Okkur systrum finnst svo óraunverulegt að sitja hér og skrifa um þig minningarorð en þú kvaddir allt of snemma eftir stutta og hetjulega baráttu við krabbamein. Þú komst inn í líf okkar systra þegar við vorum orðnar fullorðnar en þið mamma kynntust fyrir tæpum 18 árum. Þú varst ekki mikið fyrir að trana þér fram en varst alltaf til í allskonar sprell og skemmtilegheit með stórfjölskyldunni. Þið mamma brölluðuð líka ýmislegt saman. Voruð dugleg að ferðast innanlands og til útlanda. Best fannst ykkur þegar þið fóruð til Spánar yfir vetrartímann og dvölduð þar í góðu yfirlæti í nokkrar vikur í senn. Þið mamma höfðuð gaman af því að taka á móti okkur og fjölskyldum okkar og þá svignaði borðið undan kræsingum en ykkur fannst gaman að veita vel í mat og drykk. Þú varst með eindæmum greiðvikinn og hjálpsamur og alltaf reiðubúinn að aðstoða og gefa góð ráð. Þér þótti einstaklega vænt um börnin okkar og fylgdist vel með því sem þau voru að gera. Þau voru ófá skiptin þar sem þú komst færandi hendi eftir útlandaferðir eða leist inn með súkkulaðidagatöl og páskaegg.

Takk fyrir allt, elsku Valdi.

Við pössum vel upp á mömmu.

Jóhanna, Helga og Íris