Sigur Íslands í einvíginu gegn Serbíu þýðir að liðið verður í A-deild undankeppni Evrópumótsins 2025 en dregið verður í riðla næsta þriðjudag, 5. mars. Þetta hefur gríðarlega mikið að segja fyrir möguleika Íslands á að komast á EM 2025

Sigur Íslands í einvíginu gegn Serbíu þýðir að liðið verður í A-deild undankeppni Evrópumótsins 2025 en dregið verður í riðla næsta þriðjudag, 5. mars. Þetta hefur gríðarlega mikið að segja fyrir möguleika Íslands á að komast á EM 2025.

Ísland verður í 3. styrkleikaflokki A-deildarinnar í drættinum 5. mars ásamt Belgíu, Noregi og Svíþjóð, sem einnig voru í umspilinu og halda öll sætum sínum í A-deild, og getur því ekki lent í riðli með þeim þjóðum.

Úr fyrsta styrkleikaflokki koma fjórir mótherjar til greina, Frakkland, Spánn, Þýskaland eða Holland.

Úr öðrum styrkleikaflokki verður mótherjinn England, Danmörk, Ítalía eða Austurríki.

Úr fjórða styrkleikaflokki verður mótherjinn Írland, Finnland, Pólland eða Tékkland.

Undankeppnin hefst strax í apríl þar sem fyrstu tveir leikirnir fara fram á bilinu 3. til 9. apríl. Síðan verða næstu tvær umferðir leiknar dagana 29. maí til 4. júní og tveir síðustu leikirnir fara fram 10. til 16. júlí í sumar.

Liðin sem enda í tveimur efstu sætum riðlanna fjögurra í A-deildinni tryggja sér sæti í lokakeppni EM 2025 sem fer fram í Sviss.

Liðin sem enda í tveimur neðri sætum riðlanna í A-deildinni fara í umspil í október og nóvember þar sem leikið verður gegn liðum úr B- og C-deildum um síðustu sjö sætin í lokakeppninni í Sviss. Fyrri umferð umspilsins er í lok október og sú seinni í lok nóvember.