Af 95 ákvörðunum Skattsins sem skattgreiðendur kærðu til yfirskattanefndar á síðasta ári fólu 42 tilvik í sér tap fyrir Skattinn að öllu leyti eða hluta til eða þá að málum var vísað aftur til endurákvörðunar vegna ýmiskonar annmarka. Hlutfallslega séð staðfesti nefndin ákvarðanir embættisins í 55,8% tilvika á móti 44,2% í tilvikum skattgreiðenda. Þá eru ekki tekin með í reikninginn málin sem rata að lokum fyrir dómstóla.
ViðskiptaMogginn ræddi við aðila sem eru kunnugir þessum málum. Það að Skatturinn tapi yfir 10% af málum sem skotið sé til yfirskattanefndar telja þeir óvenjuhátt hlutfall, þar sem embættið á að fara að lögum við ákvarðanir sínar. Ef árangur Skattsins er skoðaður með hliðsjón af viðbótarlaunakerfinu velta þeir fyrir sér hvort hvatinn til að afla viðbótarlauna hafi verið svo mikill að starfsmenn fóru fram úr sér í ákvarðanatökum um endurálagningu eða sektir.
Kostnaðarsöm málsmeðferð
Að framangreindu má vísa í grein sem níu lögmenn, sem allir hafa komið að skattamálum, birtu í Morgunblaðinu um nýliðna helgi þar sem þeir lýstu yfir þungum áhyggjum af skattframkvæmd á Íslandi. Þar kom meðal annars fram að Skatturinn hefði á undanförum árum breytt eigin túlkun á skattalögum, án þess að lögin hefðu tekið breytingum, auk þess sem málsmeðferðartíminn hjá stofnuninni hefði lengst með tilheyrandi kostnaði fyrir skattgreiðendur.
Þá segir í greininni að skattgreiðendur séu að velta því reglulega fyrir sér hver ábyrgð Skattsins sé í þeim tilfellum þegar yfirskattanefnd eða dómstólar snúa við ákvörðun embættisins, sem hafa verið mánuði eða ár að velkjast um í kerfinu. Þannig má sem dæmi nefna að ef skattgreiðandi fær endurákvörðun frá Skattinum þarf hann að greiða skattasektina fyrst, svo leggja út kostnað til þess að fá þeirri ákvörðun hnekkt fyrir yfirskattanefnd eða dómstólum, sem getur tekið langan tíma. Umræddir lögmenn hvetja fjármála- og efnahagsráðherra sem ber ábyrgð á starfsemi Skattsins til að grípa til viðeigandi ráðstafana.
Hvað er eðlilegt taphlutfall?
Spurður hvað geti talist ásættanlegur árangur fyrir úrskurðanefndum eða dómstólum segir dr. Haukur Logi Karlsson, rannsóknarsérfræðingur við lagadeild Háskóla Íslands, í skriflegu svari: „Þegar er talað um störf saksóknara þá myndum við vilja hafa árangurshlutfallið 80-90% þegar þeir væru að höfða sakamál gegn fólki. Lægra hlutfall gæfi til kynna að þeir væru of oft að höfða mál sem væru byggð á veikum grunni, en við hærra hlutfall (+90%) þá væri orðin hætta á að ekki væri verið að fara í mál sem kannski ætti að láta reyna á,“ segir Haukur Logi.
Hann segir málin þó horfa öðruvísi við þegar kemur að úrskurðanefndum.
„Það eru aðallega umdeildar ákvarðanir sem eru kærðar og því kannski viðbúið að slík mál geti fallið á móti stjórnvaldi í nokkuð háu hlutfalli. Hafa þarf í huga að kannski gerir enginn athugasemd við langflestar ákvarðanir viðkomandi stjórnvalds og því stæðu langflestar ákvarðanir þess óhreyfðar, þrátt fyrir að nokkur mál hefðu tapast fyrir áfrýjunarnefnd. Til þess að sjá hvort það sé eitthvað athugavert við þess tölfræði um yfirskattanefnd þyrfti að rýna aðeins betur í málin sem hafa verið að tapast og skýringarnar á því,“ bendir Haukur Logi á að lokum.