Nú eru rétt rúmir átta mánuðir til forsetakosninga í Bandaríkjunum, en kosið verður 5. nóvember nk. og hafa prófkjör í Repúblikanaflokknum verið fyrirferðarmikil síðustu vikurnar. Frambjóðendur voru þar vel á annan tug, en hefur fækkað eftir því sem hvert ríki lýkur sinni baráttu. Donald Trump, fyrrverandi forseti, hefur unnið í öllum prófkjörum þar fram til þessa og nú síðast vann hann með um 60 prósentum atkvæða í Suður-Karólínu (59,8%), en mótframbjóðandi hans, Nikki Haley, fékk um 40% (39,5%).
Það kjördæmi er heimaríki Nikki Haley og að auki gegndi hún þar áður fyrr embætti ríkisstjóra. Þóttu þessi úrslit því mjög afgerandi og hefur Trump ekki áður fengið svo jákvæð úrslit þar, er hann hefur keppt um það að verða forsetaefni flokksins. Hvert ríki ákveður í þessum prófkjörum þá kjörmenn sem bundnir verða forsetaefninu á kjörþingi flokksins. Trump hefur fram að þessu fengið flesta kjörmenn. Eftir síðustu úrslit fékk Trump 47 kjörmenn en Haley aðeins þrjá. Hafa allir andstæðingar hans í prófkjörunum fram til þessa dregið sig úr baráttunni og jafnframt hafa þeir lýst yfir stuðningi við Trump.
Margir bjuggust við, eftir svo afgerandi niðurstöðu, að Haley myndi í kjölfarið draga sig út úr prófkjörsbaráttunni, en hún sagðist ekki vera hætt. Snemma í næsta mánuði verður kosið í fjölmörgum prófkjörum í öðrum ríkjum, og kannanir eru fjarri því að benda til þess að Haley fari betur frá þeim en í eigin heimaríki, þar sem hún var vel kynnt.
Flestir ætla að þá muni hún loks draga sig í hlé.