Stríð í Evrópu vakti marga upp við vondan draum um öryggismál álfunnar, sem meðal annars gerði það að verkum að frændur okkar og vinir í Svíþjóð og Finnlandi ákváðu nánast á einni nóttu að ganga til liðs við Atlantshafsbandalagið (NATO). Nú hefur síðustu hindrun Svía þangað verið rutt úr vegi og ekkert því til fyrirstöðu að það geti gerst á 75 ára afmæli NATO. Velkomnir í hópinn, Svíar!
Eins og vikið var að í fréttaskýringu í Morgunblaðinu í gær hafa samt ekki öll NATO-ríki enn tekið við sér gagnvart þessari skýru ógn við frið þeirra. Enn virðast mörg þeirra treysta á að Bandaríkin muni bera hitann og þungann og kostnaðinn af vörnum Evrópu. En af hverju ættu Bandaríkin að gera það fyrir þjóðir sem lítt hirða um eigin landvarnir?
Eins má efast um getu margra Evrópuþjóða á því sviðinu. Hergagnaiðnaður er þar ekki svipur hjá sjón, eins og vel má sjá af því að í fyrra hét Evrópusambandið Úkraínu milljón stórskotum. Meira en helmingurinn hefur enn ekki skilað sér.
Því má ekki heldur gleyma að það eru víðar viðsjár en í Austur-Evrópu. Stælar Kína við Taívan gætu hæglega komist á annað stig, en Íran kyndir undir ófriði á ótal vígstöðvum og gæti orðið kjarnorkuveldi fyrr en varir. Það þarf því ekki mikið að gerast til þess að Bandaríkin væru í þröngri stöðu til þess að senda syni sína og dætur til þess að verja Evrópu.
NATO-ríkin skuldbundu sig fyrir 18 árum til að verja a.m.k. 2% vergrar landsframleiðslu til varnarmála. Það gera þau fæst enn, fyrir utan Bandaríkin og Bretland eru það nær aðeins löndin næst Rússlandi, sem það gera.
Hið herlausa en auðuga Ísland annast ekki eigin varnir með beinum hætti, þótt þátttaka í varnarsamstarfi hafi aukist. Bandarísk yfirvöld viðurkenna að Ísland sé herlaust land og geti ekki bætt við sig miklum kostnaði af þeim sökum, en hafi sérstakan varnarsamning við Bandaríkin öfugt við önnur NATO-ríki og það skýri muninn, sem á þessu er. Um leið er ljóst að Ísland á að leggja sitt af mörkum og getur axlað þyngri byrðar.