40 ára Hafþór fæddist á Akureyri en bjó fyrstu 4 árin sín í Sandellshaga 1 í Öxarfirði þar sem föðurforeldrar hans stunduðu fjárbúskap en flutti svo með foreldrum sínum til Akureyrar, en býr nú á Svalbarðseyri. Hann gekk m.a. í Lundarskóla og svo Gagnfræðaskóla Akureyrar og var virkur í skátahreyfingunni.
„Ég byrjaði frekar ungur að taka þátt í sveitastörfunum, en mér leið mjög vel í sveitinni og sauðfjárbúskapur og störf tengd honum áttu hug minn allan og ég fékk mikinn áhuga á hestamennsku. Ég varði flestum sumrum og lengri fríum í sveitinni hjá ömmu og afa þar til ég fór á sjóinn.“
Hann fór fyrstu túrana á sjó árið 2000 á Kaldbak EA 301, ísfisktogara Útgerðarfélags Akureyringa, en 2003 fór hann yfir á systurskipið Harðbak EA 303 og var þar til ársins 2007. „Þá hóf ég störf á Hringrás á Akureyri og árið 2009 fluttum við til St. Johns á Nýfundnalandi til að taka þátt í uppsetningu á brotajárnsvinnslu á vegum Hringrásar.“ Hafþór kom heim 2014 og vann við verktakastörf hjá Verkvali ehf. en fór svo aftur á sjóinn í nóvember 2022 á Snæfell EA 310, frystitogara Samherja, þar sem hann er enn.
„Sjómennska hefur alltaf heillað mig, mér finnst eins og ég sé kominn aftur á heimavöll eftir góða pásu. Þetta er vissulega meira krefjandi fyrir konuna og börnin en þetta hefur allt gengið vel. Fjarveran er löng en að sama skapi eru fríin góð á milli.“ Helstu áhugamál Hafþórs eru fjölskyldusamvera, mótorsport og skotveiði.
Fjölskylda Eiginkona Hafþórs er Alma Sigríður Þórólfsdóttir, f. 2.8. 1988, naglafræðingur og starfsmaður hjá Kjarnafæði. Þau eiga dæturnar Heklu Kristínu, f. 2016, Kristrúnu Kötlu, f. 2018, og Berglindi Heru, f. 2021. Foreldrar Hafþórs eru Björn Hólm Þórarinsson sjómaður, f. 1961 og Erna Einisdóttir félagsliði, f. 1957, bæði búsett á Akureyri. Systir Hafþórs er Íris Björnsdóttir, f. 1988.