Kristín Jóhanna Mikaelsdóttir fæddist á Ísafirði 16. júlí 1964. Hún lést á Landspítalanum við Hringbraut 14. febrúar 2024.

Foreldrar Kristínar eru Mikael Ragnarsson, f. 28. mars 1945, d. 21. maí 2005 og Auður Halldórsdóttir, f. 25. ágúst 1944. Hún átti einn bróður, Birgi Mikaelsson, f. 27. september 1965 og hálfsystur, Sigríði Kristinsdóttur, f. 4. apríl 1966. Börn Kristínar: Egill Mikael Ólafsson, f. 28. október 1993 og Auður Elísabet Ó. Ólafsdóttir, f. 2. nóvember 2002. Faðir þeirra er Ólafur Vignir Sigurvinsson, f. 27. júlí 1964. Þau slitu samvistum. Barnabarn Kristínar er Agla Björk Egilsdóttir, f. 16. janúar 2020. Sambýlismaður Kristínar var Philippe Baltz-Nielsen, f. 10. desember 1969.

Kristín ólst upp á Akureyri fyrstu æviárin, en fluttist síðan til Reykjavíkur með foreldrum sínum um níu ára aldur. Hún gekk í Melaskóla og Hagaskóla, auk Kvennaskólans í Reykjavík. Hún starfaði lengstum á leikskólanum Laugaborg (síðar Laugasól) en um nokkurra ára skeið bjó hún í Svíþjóð og vann þar einnig með börnum.

Útförin fer fram frá Háteigskirkju í dag, 28. febrúar 2024, klukkan 13.

Elsku mamma, þú gafst mér líf og gerðir þitt besta við að leiðbeina mér í gegnum það. Þú kenndir mér að fara með bænir snemma og veittir mér öryggi og skilyrðislausa ást. Þú varst óhaggandi kletturinn minn og varst alltaf til staðar sama hvað. Sama hversu oft ég missteig mig þá hvattirðu mig áfram. Ég er líka að kveðja góðan vin. Við áttum okkar einkahúmor og nánast eigið tungumál. Þú hélst í húmorinn alveg þar til þú kvaddir okkur. Og hláturinn var eitt okkar helsta vopn gegn þessum veikindum. Þú lifir að eilífu í minningum mínum og verður alltaf mín stærsta fyrirmynd. Ég og Agla Björk ömmustelpa munum sakna þín sárt. Þú hefur heldur betur átt þátt í að móta hana og smita hana með húmornum þínum. Ég vildi óska þess að þú hefðir verið lengur hjá okkur, en þú barðist eins og hetja og ekki meira sem þú gast gert en núna þarftu ekki að þjást meira. Bless elsku besta mamma mín, ég vona að þú hvílir í friði og sért komin á fallegan stað. Þú fylgist svo með mér er ég reyni mitt besta að gera þig stolta.

Kveðja, þinn sonur og vinur,

Egill Mikael.

Elsku systir, það er komið að kveðjustundinni. Stundinni sem ég vonaði að yrði ekki svona snemma með sextugsafmælið á næsta leiti. Þú hafðir sýnt svo ótrúlegan styrk í þínum veikindum, hefðir mátt kvarta meira yfir stöðunni en það var ekki þín leið. Húmorinn alltaf á sínum stað, umhyggja fyrir öðrum í fyrirrúmi og alltaf varstu fyrst og fremst til staðar fyrir börnin þín í öllum þeirra verkefnum í lífinu. Í ömmuhlutverkinu naustu þín vel, algjör stjarna í augum sólargeislans þíns hennar Öglu sem gaf þér svo mikið. Hún naut þessarar skemmtilegu og frábæru manneskju sem þú varst, sem svo mörg önnur börn nutu einnig í störfum þínum á leikskólum sem náðu yfir svo stóran hluta af æviskeiði þínu.

Ætíð fann ég fyrir væntumþykju frá þér og aldrei bar skugga á vináttu okkar sem ég verð ævarandi þakklátur fyrir.

Þú hafðir gaman af mannlífinu og sást skemmtilegar hliðar þess, og það verður mikill söknuður sem þú skilur eftir þig. En lífið heldur áfram og minningarnar geymum við með okkur um alla tíð.

Við Valla og fjölskylda biðjum um styrk til þeirra sem sakna og syrgja.

Þinn bróðir,

Birgir.

Svífur yfir Esjunni!

Þær eru ófáar minningarnar sem á ég með Stínu frænku. Ótal samverustundir þar sem hún sótti mig í leikskólann og við fórum niður á tjörn að gefa öndunum eða skunduðum um bæinn. Stundirnar á Fornhaganum voru svo margar að það eru ekkert svo mörg ár síðan ég gerði mér grein fyrir því að ég bjó aldrei þar heldur bara Stína og Auður frænka. Ferðir á Dairy Queen og í Vesturbæjarlaugina voru líka ófáar. Seinna svo í Ljósheimunum og Blönduhlíð. Þegar ég varð eldri var ég svo heppin að heimsækja hana til Svíþjóðar og Danmerkur þar sem við bjuggum til fleiri skemmtilegar minningar, rauðar buxur, línuskautar og fullur bíll af fólki. Endalaust gátum við rifjað upp þessar samverustundir og skellihlegið að Fjólu Boggu, filbrís og Grenivíkurgöngunni. Þessar minningar eru svo dýrmætar núna þegar Stína frænka hefur kvatt. Mér þótti alltaf vænt um afmæliskveðjuna þína og sendi þér alltaf afmæliskveðju til baka tíu dögum seinna, við júlí-stelpurnar. Síðasta kveðjan sem ég sendi þér var mynd af okkur úr ferðalagi um landið, þú stórglæsileg með síða hvíta hárið þitt og klædd samkvæmt nýjustu tísku. Þú varst svo ótrúlega flott klædd alltaf og þorðir að fara þínar eigin leiðir og oft varstu langt á undan tískunni. Mér finnst svo ótrúlegt að þú sért farin og samverustundirnar verði ekki fleiri en þú hefur fengið þína hvíld eftir fimm ára baráttu. Megi allir góðir vættir styrkja fólkið þitt sem syrgir þig, elsku frænka.

Bíum bíum bambaló,

bambaló og dillidillidó.

Vini mínum vagga ég í ró

en úti bíður andlit á glugga.

(Írskt þjóðlag / Jónas Árnason)

Þín frænka Hiddó,

Hildigunnur
Guðfinnsdóttir.

Elsku systurdóttir mín er farin, aðeins 59 ára gömul. Ég var 14 ára þegar hún fæddist, vestur á Ísafirði. Strax varð ég heilluð af henni þegar ég sá hana fyrst í vöggunni, hún var svo falleg. Með árunum urðum við góðar vinkonur og varð hún besta barnapían mín. Hún var svo góð við börnin mín fjögur sem elskuðu hana alla tíð og virtu. Heppin var hún sjálf að eignast tvö börn, Egil Mikael og Auði Elísabetu, og eitt barnabarn, Öglu Björt, sem gladdi hana mikið.

Elsku frænka mín, ég hefði óskað þér betra og lengra lífs. Þín verður sárt saknað af Auði móður þinni, börnunum þínum og öllum vinum sem þótti svo vænt um þig.

Þín frænka,

Sigrún Halldórsdóttir.

Það er sorg í hjarta mínu. Mín elskulega bróðurdóttir, Kristín Jóhanna Mikaelsdóttir, er farin í heim ljóss og friðar. Hún barðist hetjulega við illvígan sjúkdóm í mörg ár.

Stína litla Mikk. eins og hún oft var kölluð var elsta barnabarn pabba og mömmu. Auður og Mikki bjuggu í kjallaranum heima í Hrafnagilsstræti með Stínu og Bigga fyrstu árin. Þau elskuðu Ragnar afa og Kristínu ömmu á efri hæðinni. Ég var stolt föðursystir.

Minningarnar eru margar. Stína bjó í nokkur ár í Danmörku og hún kom líka oft síðar í heimsókn til okkar Gísla og barnanna. Alltaf glatt á hjalla þegar Stína frænka kom í heimsókn.

Stína var mikill gleðigjafi og húmoristi og fór létt með að halda uppi stuði og fjöri þar sem hún var meðal ættingja og vina. Það var svo gaman að gantast við og hlæja með henni

Í mörg ár vann hún í leikskóla. þar var hún bæði vinsæl og vel liðin. Og börnin elskuðu hana, hún hafði svo gott lag á börnum, söng og trallaði og sagði þeim sögur.

Það er þungt fyrir Auði að sjá á eftir elskulegri dóttur á besta aldri, og fyrir Bigga að missa góða systur, eins og þau voru náin. Stína var svo stolt af bróður sínum.

Stína gleymdi aldrei Akureyri, fór með Philippe þangað á sumrin og lagði blóm á leiði pabba síns, afa og ömmu og gekk meðal litskrúðugu blómanna í lystigarðinum og naut þess að vera til. Hún elskaði lífið, elsku Stína.

Það var mikil reisn yfir frænku minni, sama hverju hún klæddist var hún alltaf glæsileg og flott. Hún hafði sinn eigin stíl og sterkan persónuleika. Philippe var svo stoltur af Stínu sinni.

Stína var heimsins besta amma fyrir litlu Öglu Björk sem er 4 ára. „Með minni uppáhalds“ skrifaði hún oft. Hvert augnablik með henni var dýrðarstund. Egill Mikael og Auður Elísabet missa ástkæra, umhyggjusama móður alltof ung. Stína mun fylgja þeim frá himninum og verða þeim leiðarljós í lífinu. Missir þeirra er svo sár.

Lífið brosti ekki alltaf við Stínu. Hún tókst á við marga þunga erfiðleika með stakri prýði og styrk. Aðdáunarvert.

Ég veit að ástvinir sem á undan eru farnir munu taka vel á móti Stínu. Fallegur englasöngur og ný stjarna fæðist á himninum.

Elsku Egill Mikael, Auður Elísabet, Auður, Biggi, Valla, Philippe, Jói og litla Agla Björk. Missir ykkar er mikill og sorgin þung að bera. Megi Guð styrkja ykkur og hugga.

Mæt þá er minning vaknar myndin frá bernskutíð

Hugur er sár og saknar, sé ég þig ekki um hríð

Mætust þó minning ljómar mér finnst ég heyra um stund

Hlátur sem endurómar æskunnar gleðifund

Dagur sem löngu er liðinn, leikur og dvöl með þér

Dagur sem löngu er liðinn lifnar í huga mér

Björt voru bernskuárin, böðuð í sólaryl

Svo komu tár og sorgin þung og sárt var að vera til.

Burt hurfu bernskuárin, burtu hver stund með þér

En þrátt fyrir sorg og sárin, er sólskin í huga mér

Því minningar á ég allar, enginn fær grandað þeim

Svo þegar klukkan kallar kem ég loks til þín heim

(Emilía Baldursdóttir)

Gunnlaug Hanna (Gullý), Gísli, Guðjón Emil,
Ragnar Mikael og
fjölskylda, Danmörku.

Við Stína kynntumst í Vesturbæ Reykjavíkur eftir að hún flutti frá Akureyri með foreldrum sínum og bróður.

Minningarnar um Stínu eru óteljandi – á unglingsárunum tengdumst við sterkari böndum og var hún fastagestur á heimili mínu ásamt vinum okkar systkinanna en við höfðum kjallarann til afnota. Margt var brallað, löngum stundum hlustuðum við á hljómplötur, þungarokkið hljómaði oft, The Stranglers bættust við ásamt Bubba og seinna smá diskó. Á fimmtudögum fórum við í Klúbbinn, þá var 18 ára aldurstakmark, og um helgar fórum við í Sigtún og seinna í Hollywood. Stundum urðum við frá að hverfa þar sem við höfðum ekki aldur til að fara inn og báðar vorum við barnalegar í útliti. Ég fór með Stínu til Ísafjarðar að heimsækja ömmu hennar og afa. Við fórum í útilegur og einnig fórum við með foreldrum mínum í sumarbústaðinn okkar við Þingvallavatn. Í fyrsta sinn sem Stína kom í bústaðinn horfði hún full aðdáunar í kringum sig og sagði svo: „Mikið er hippalegt hérna.“ Ég sá bregða fyrir reiðisvip á andliti móður minnar, en það átti eftir að breytast því eftir þetta sagði hún með stolti við alla gesti sem bar að garði: „Vinkona dóttur minnar sagði að það væri svo hippalegt hérna.“ Undanfarin ár höfum við Stína og Philippe notið þess að fara í bústaðinn og átt ánægjulegar samverustundir þar.

Árið 1984 hélt ég til náms í Danmörku og Stína hafði fengið vinnu á Langalandi sem „pige i huset“. Ég heimsótti hana áður en skólinn hófst og við fórum til Svendborgar og heimsóttum föðursystur Stínu sem búsettar eru þar. Næst lá leið Stínu til Lundúna sem au-pair. Ég hitti hana þar þegar ég var í skólaferðalagi. Eftir þetta má segja að framtíð Stínu hafi verið ráðin, því upp frá þessu starfaði hún við barnagæslu bæði hér á landi en einnig í Stokkhólmi. Börnin hændust fljótt að Stínu og elskuðu hana.

Mestu gleðigjafarnir í lífi Stínu voru börnin hennar, Egill Mikael og Auður Elísabet. Árið 2020 sendi stolt amma mynd af nýfæddri sonardóttur sinni. Agla Björk var augasteinn ömmu Stínu, sem nýtti hverja stund sem gafst til að hitta hana.

Haustferðirnar til Akureyrar voru í miklu uppáhaldi hjá Stínu og Philippe og síðastliðin fjögur ár áttum við hjónin ógleymanlegar stundir með þeim þar.

Stína hafði mikla persónutöfra, hún var ákveðin, skemmtileg og uppátektasöm og kunni að njóta lífsins í mat og drykk. Hún elskaði að fylgjast með mannlífinu. Hún var fagurkeri, fylgdist með nýjum tískustraumum, naut sín í fallegri merkjavöru og notaði vönduð krem og dýr ilmvötn. Gjafirnar frá Stínu voru í samræmi við þetta, smekklegar og fallegar. Stína var alla tíð mjög trúuð og kirkjurækin. Hún las mikið, Íslendingasögurnar voru í uppáhaldi og hún unni ljóðlist. Hún var umhyggjusöm, frændrækin og lagði mikið upp úr því að rækta samband sitt við vini sína og ættingja.

Ég kveð Stínu með söknuði, þakklæti og kærleika.

Elsku Philippe, Egill Mikael, Auður Elísabet og Alexander, Auður og Jói, Biggi og Valla og Agla Björk – innilegar samúðarkveðjur.

Anna Þóra Gísladóttir.