Björn Jóhann Björnsson
bjb@mbl.is
„Þetta var mjög góður dagur og allir glaðir,“ segir Sólrún Ólafsdóttir, formaður slysavarnadeildarinnar Unnar á Patreksfirði, en deildin fagnaði um liðna helgi 90 ára afmæli sínu með pomp og prakt. Stofndagur deildarinnar var 22. febrúar 1934 en haldið var upp á afmælið 24. febrúar sl.
Voru nokkrar félagskonur heiðraðar af þessu tilefni og sveitarstjórinn í Vesturbyggð, Þórdís Sif Sigurðardóttir, mætti og leysti slysavarnakonur út með glaðningi og árnaðaróskum um áframhaldandi velferð og velgengni í starfi. Þess má geta að Sólrún hefur starfað í deildinni í samanlagt 36 ár, þar af verið í stjórn í 17 ár og verið formaður í þrígang, síðast kjörin í fyrra til tveggja ára.
Deildin var með opið hús í tilefni afmælisins þar sem tæplega 200 manns mættu og síðan endað með hátíðarkvöldverði, þar sem meðal gesta voru fulltrúar Landsbjargar og verkefnastjórar í slysavarnamálum. Kom m.a. fram í máli þeirra að Unnur væri án efa öflugasta slysavarnadeildin á landinu.
„Við tökum heilshugar undir það, við erum mjög öflugar,“ segir Sólrún en deildin tók við gjöfum og heillaóskum víða að af landinu. Hún segir að frá stofnun fyrir 90 árum hafi deildin haft það að leiðarljósi að efla slysavarnir og öryggi í heimabyggð. Sjóslys voru tíð á þessum árum og vann deildin hörðum höndum að því að auka öryggi sjómanna. Hafa Unnarkonur unnið náið gegnum tíðina með björgunarsveitinni Blakki á Patreksfirði og m.a. efnt til fjáröflunar til kaupa á björgunarbúnaði, auk þess að aðstoða í stórum útköllum við matseld og önnur verkefni.
Í fjáröflunarskyni hefur Unnur staðið fyrir leiksýningum, dansleikjum, skemmtunum, sælkerakvöldum og spurningakeppnum, sem lengi vel voru ein stærsta fjáröflunin ár hvert í Félagsheimili Patreksfjarðar. Eitt árið voru 24 kvöld tekin undir spurningakeppni og mikil stemning í bænum.
Unnarkonur eru ríflega 80 talsins, flestar frá Patreksfirði en einnig víðar úr Vesturbyggð og Vestfjörðum. Sólrún segir ungar konur fjölmennar, sú yngsta 18 ára, en á aðalfundi Unnar í dag liggja fyrir 10 umsóknir. Á aðalfundinum munu félagar í Lionsklúbbi Patreksfjarðar sjá um alla veitingaþjónustu, í þakkarskyni fyrir framlag Unnarkvenna.