Birna hafði starfað í tæp fjögur ár hjá Icelandair, síðast sem framkvæmdastjóri sölu- og þjónustusviðs, áður en henni var boðið starf hjá APM Terminals.
Birna hafði starfað í tæp fjögur ár hjá Icelandair, síðast sem framkvæmdastjóri sölu- og þjónustusviðs, áður en henni var boðið starf hjá APM Terminals. — Morgunblaðið/Eyþór
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
  Hér kemur punktur

Það er ekki bara á Íslandi sem hafnir leika lykilhlutverk í inn- og útflutningi og opna þannig markaði fyrir alþjóðaviðskiptum. Á undanförnum 20 árum hafa nokkur fyrirtæki orðið til, vaxið og dafnað, sem hafa sérhæft sig í slíkum rekstri alþjóðlega. Eitt stærsta sinnar tegundar á alþjóðavísu er APM Terminals, sem stofnað var árið 2001 og er í sömu eigu og danska skipaflutningafélagið Maersk. Félagið telur um 22 þúsund starfsmenn, er með árstekjur upp á rúma fjóra milljarða dollara og rekur rúmlega 60 hafnir í 40 löndum víðs vegar um heiminn. Margar þeirra eru með stærstu vöruflutningahöfnum heims.

Birna Ósk situr í framkvæmdastjórn félagsins.

„Ég leit á það sem spennandi tækifæri þegar mér var boðið starf hjá félaginu þótt þessi hugmynd hafi komið ansi flatt upp á mig á sínum tíma þar sem ég þekkti hvorki fyrirtækið né geirann. Ég tel að það hafi verið rétt mat, fyrirtækið er umsvifamikið og hér er í mörg horn að líta við daglegan rekstur,“ segir Birna Ósk þegar hún er spurð um aðdraganda þess að hún hóf störf hjá félaginu. Hún hafði á þeim tíma starfað í tæp fjögur ár hjá Icelandair, síðast sem framkvæmdastjóri sölu- og þjónustusviðs, en hafði áður einnig setið í framkvæmdastjórnum Landsvirkjunar og Símans.

Hún starfar nú í Haag í Hollandi, þar sem höfuðstöðvar félagsins eru, og stýrir þar tekjusviði félagsins. Vinnan fer þó fram um allan heim, þar sem viðskiptavinirnir eru og starfsstöðvarnar sem dreifast um Afríku, Evrópu, Norður- og Suður-Ameríku, Asíu og Mið-Austurlönd.

„Á sviðinu berum við ábyrgð á vöru- og viðskiptaþróun, markaðsgreiningum, tekjustýringu, sölu- og markaðsmálum auk þjónustu. Við vinnum að þessum áherslum þvert á starfsemina, sem við skiptum niður í þrjú svæði. Fólkið mitt er dreift um höfuðstöðvar, svæðisskrifstofurnar og í hvert land sem við störfum, með áherslu á viðskiptavininn og vöxt,“ segir Birna Ósk þegar hún er beðin um að draga upp mynd af starfi sínu og því sviði sem hún stýrir.

„Þetta er fjölbreytilegt og áskoranir á einum markaði geta verið gjörólíkar þeim næsta. Hlutverk okkar er að tryggja að viðskiptavinir fái sömu góðu þjónustuna hvar sem þeir sækja hana frá okkur og nýta tækifærin til vaxtar þar sem þau gefast.“

Hún segir að viðskiptavinir APM séu fyrst og fremst stærstu skipaflutningafélög heims, en leiðakerfi þeirra tengjast oft mörgum af höfnum félagsins.

„Þar með höfum við tækifæri til að mynda sterk sambönd við þau og vaxa og þróast með þeim á nýjum mörkuðum,“ segir Birna Ósk.

„Hugmynd að innkomu okkar á nýja markaði kemur oft út frá samskiptum við núverandi viðskiptavini þar sem óskað er eftir okkar þátttöku í uppbyggingu og rekstri í höfn sem ekki býður þjónustu sem skipafélögin hafa þörf fyrir. Þá förum við með þeim í verkefnið og nýtum reynslu okkar og þekkingu í skilvirkum rekstri og uppbyggingu réttrar hæfni og þekkingar í viðkomandi samfélagi. Þannig verða til ný fyrirtæki á nýjum mörkuðum sem við eigum í félagi við viðskiptavini okkar. Það er algjörlega magnað að fá að taka þátt í því að opna ný tækifæri til alþjóðaviðskipta og byggja upp innviði í nýjum löndum á þennan hátt.“

Til að varpa mynd á þær fjárfestingar sem hér um ræðir má áætla að viðlegukantar með athafnasvæði kalli á fjárfestingu fyrir um 600-1.000 milljónir bandaríkjadala. Félagið vinnur nú að stækkun hafnar í Rijeka í Króatíu og fyrir liggur viljayfirlýsing um framkvæmdir í Haiphong í Víetnam, svo nefnd séu dæmi.

Margt líkt með flugvöllum og höfnum

„Þessi tími hefur verið erfiður og skemmtilegur. Það tekur smá tíma að venjast nýju umhverfi og nýjum kúltúr, bæði hvað varðar landið sjálft og eins innan félagsins,“ segir Birna Ósk spurð um tíma sinn hjá APM.

„Reksturinn hefur gengið vel í gegnum árin en félagið hefur þó reglulega farið í gegnum breytingar. Ég upplifði það þegar ég hóf störf að hluti starfsmanna tók mér með fyrirvara, mögulega hræddust þeir að nú yrði ráðist í miklar breytingar. Ég var þó ekki komin þarna til að umbylta öllu, heldur byggja á þeim góða grunni sem til staðar var.“

Birna Ósk segir að þó hafi þurft að huga betur að sölu- og markaðsmálum, auka samskipti við viðskiptavini og samræma betur ólíkar starfsstöðvar og þjónustuframboð þvert á heiminn.

„Það höfum við gert síðustu tvö ár. Ég hugsa að fæstir hugsi mikið um þá starfsemi sem fram fer í höfnum almennt, en það má í raun líkja þessu við flugvelli, allt gengur út á að koma skipunum hratt og örugglega inn og út aftur, með áherslu á að fara vel með farminn og koma honum á næsta áfangastað með skilvirkum hætti. Í okkar tilviki eru engir farþegar heldur gámar en markmiðin eru þau sömu: að tryggja að flæðið sé sem skilvirkast og hraðast,“ segir Birna Ósk.

„Við getum haldið áfram með þessa líkingu, því í upphafi gengu flugvellir fyrst og fremst út á að þjónusta flugvélarnar hratt og örugglega. Í dag bætist ofan á það alls konar viðbótarþjónusta; fyrir flugfélög, farþega og aðra þjónustuaðila. Svipað er uppi á teningnum hjá okkur, við leggjum aðaláherslu á hraða, örugga og skilvirka þjónustu, en þróum einnig nýjar vörur og þjónustu – bæði fyrir skipafélögin og önnur flutningafélög sem heimsækja hafnirnar okkar til að vinna með farminn eftir að í höfnina er komið. Hér eru mikil tækifæri til að stytta leið vöru og þjónustu frá framleiðanda á markað sem við getum hjálpað til við. Það er gríðarlega spennandi. Það kom mér því skemmtilega á óvart hversu mikla hliðstæðu má finna í sambandi skipafélaga og hafna við flugfélög og flugvelli. Við getum lært mikið af mínum gömlu kollegum til að gera betur.“

Hvernig er að koma inn í svona stórt alþjóðlegt fyrirtæki frá litla Íslandi? Og í fremur karllægan geira í ofanálag?

„Það er alveg rétt, þetta er almennt karllægur geiri, hvort sem þú lítur til flutningageirans eða reksturs hafna. Það sem vegur þó þyngra er að það hefur verið ákveðinn tröppugangur innan félagsins fram til þessa. Menn, sem hafa unnið á fraktskipum eða við hafnirnar, hafa unnið sig upp eftir ákveðinn fjölda ára í þeim störfum. Það eru í langflestum tilvikum karlmenn,“ segir Birna Ósk.

„Þetta hefur þó ekki bara með kyn að gera. Ég nefndi hér tröppugang og hann hefur þá fyrst og fremst falist í því að menn hafa unnið sig upp innan samstæðunnar. Einhverjir tóku því einnig með fyrir vara stjórnanda sem ráðinn var utan félagsins. Það er að hluta til eðlilegt, því félagið hefur áður fengið stjórnendur utan félagsins sem hafa talið sig þurfa að breyta miklu en það síðan ekki gengið eftir. Ég leit þó ekki þannig á heldur taldi ég frekari þörf á því að gera betur á þeim sem sviðum sem við erum nú þegar öflug á og hef gaman af því að byggja á því góða og bæta við frekar en að þurfa að gjörbreyta öllu.“

Mikil áhersla á öryggi

Hvernig er að reka hafnir víða um heim, í ólíkri menningu, þar sem viðskiptahættir eru mismunandi og svo framvegis?

„Þetta er mjög vandasamt verkefni, þar sem rétt vinnubrögð, samræming og öryggismál eru í fyrirrúmi. Við höfum metnað til að reka skilvirkar hafnir, með áherslu á öryggi og jákvætt framlag til hagkerfanna sem við störfum í,“ segir Birna Ósk.

„Til að ná þessum markmiðum og samræmi í þessum fjölbreyttu rekstrareiningum notum við Lean-aðferðafræðina og leggjum áherslu á að fólkið okkar um allan heim fái góða þjálfun og stuðning, geti lært hvert af öðru og hafi einnig tækifæri til að vaxa og þróast með því að færast til í starfi á milli landa. Þannig fá þau að vaxa um leið og þau geta miðlað sinni reynslu og þekkingu til samstarfsfólks um allan heim. Þetta er stöðugt ferli umbóta og uppbyggingar og mikilvægt að hætta aldrei að bæta, þróa áfram og byggja upp enn betri einingar.“

Eðli málsins samkvæmt vega öryggismálin töluvert þegar kemur að rekstri og innviðum hafna. Spurð um þann þátt rekstursins segir Birna Ósk að bæði yfirvöld sem og viðskiptavinir geri miklar kröfur til öryggisþátta úti um allan heim, enda séu vöruflutningar að mörgu leyti háðir því að geta farið fram með öruggum hætti.

„Innviðirnir eru auðvitað misjafnir eftir löndum en áherslan á öryggi er alls staðar mikil. Það liggur því miður fyrir að ein leið til að koma ólöglegum varningi á milli landa er í gegnum hafnir og því er gott samstarf við yfirvöld að sjálfsögðu mikilvægt. Í þessu samhengi er öryggi starfsfólks okkar leiðarljós og mikilvægt að geta alltaf gætt að því í rekstri eins og okkar,“ segir Birna Ósk

Hafa rætt við íslenska aðila

Spurð um það hvort hún sjái fyrir sér að APM Terminals reki hafnir hér á landi segir Birna Ósk að hún hafi átt samtöl við aðila tengda flutningageiranum á Íslandi af þessu tilefni.

„Við höfum svo sem ekki rætt um beina aðkomu APM Terminals að rekstri hafna á Íslandi, enda þyrftu þá fleiri aðilar að koma að því, þar á meðal stjórnvöld,“ segir Birna Ósk.

„Við höfum þó deilt þekkingu og reynslu af rekstri hafna, þjónustu við viðskiptavini og svo framvegis. Það er ekkert launungarmál að samkeppnisyfirvöld á Íslandi hafa gagnrýnt núverandi rekstrarfyrirkomulag en í framhaldinu hafa menn viljað skoða hvort og þá hvaða breytingar þarf að ráðast í.“

Spurð hvaða breytingar það geti verið segir Birna Ósk að ekkert eitt standi þar upp úr.

„Ef maður horfir á stóru myndina er ljóst að hér þarf að koma niðurstaða um framtíðarfyrirkomulag hafnarrekstrarins áður en langt um líður, bæði fyrir yfirvöld og ekki síður þau félög sem standa að rekstrinum í núverandi mynd, en fyrst og fremst fyrir neytendur á Íslandi. Það liggja miklar fjárfestingar og sérhæfing í þessum rekstri og því mikilvægt að sýnin verði skýr sem fyrst svo hægt sé að annaðhvort vinna að þeim breytingum sem þarf að gera eða tryggja enn frekar núverandi rekstur. Ef það á að koma til breytinga, þá krefst það mikilla fjárfestinga og tíma, svo það er mikilvægt að láta það ekki bíða of lengi," segir hún.

Árásir í Rauðahafi valda miklum skaða

Það er ekkert launungarmál að árásir vígamanna Húta á flutningaskip í Rauðahafi hafa þegar valdið umtalsverðu tjóni, sem kemur bæði fram í töfum á afhendingu og verðhækkunum. Hútar, sem njóta stuðnings Írans og ráða nú yfir hluta Jemen, hófu að gera árásir á gámaskip á alþjóðlegum siglingaleiðum í Rauðahafi í nóvember sl., en árásirnar eru gerðar í þeim tilgangi að fjármagna Hamas-samtökin í Palestínu. Siglingaleiðin sem um ræðir er ein sú fjölfarnasta í heimi, enda styttir hún verulega leiðina á milli Asíu og Evrópu.

Það verður ekki hjá því komist að spyrja Birnu Ósk um það hvaða áhrif þetta hefur haft á skipaflutninga. Hún segir öryggisógnina snúa fyrst og fremst að skipafélögunum sem sigla um svæðið, ekki hafi verið ráðist á hafnir fram til þessa. Allt hafi þetta þó neikvæð áhrif á bæði siglingar og hafnir – og þá um leið almenning.

„Það er alveg rétt að þessar árásir hafa valdið töluverðu tjóni eins og fram hefur komið í fréttum. Það snýr bæði að öryggi á svæðinu en þá hefur þetta valdið efnahagslegu tjóni þar sem vörum er nú í auknum mæli siglt fyrir Góðrarvonarhöfða í Suður-Afríku sem lengir siglingaleiðina um níu daga,“ segir Birna Ósk.

Lengri siglingaleið veldur töfum á afhendingu á vörum, sem minnkar framboð og hækkar vöruverð. Birna Ósk bendir að fyrra bragði á hversu miklu máli Rauðahaf, og þá sérstaklega Súesskurðurinn, gegnir í vöruflutningum á milli Asíu og Evrópu.

„Það má heldur ekki gleyma því að það eru umsvifamiklar flutningahafnir víða í Mið-Austurlöndum sem líða einnig fyrir þetta,“ segir Birna Ósk en félagið er með hafnir víða á svæðinu.

„Eins og gefur að skilja hafa umsvifin minnkað í einhverjum þeirra en þess í stað aukist á öðrum stöðum. Á þeim stöðum, þar sem umsvifin hafa aukist, standa aðilar þó frammi fyrir því að það á eftir að koma vörum landleiðina á áfangastað, sem tekur mun lengri tíma. Þetta kemur niður á fólkinu sem þar býr sem fær ekki vörur á réttum tíma – þar á meðal lyf og aðrar nauðsynjavörur,“ segir hún að lokum.

Spennandi verkefni hjá Skel og Mílu

Þó svo að Birna Ósk búi nú og starfi erlendis liggur leið hennar reglulega heim til Íslands þar sem hún situr nú í stjórn Skeljar fjárfestingafélags og Mílu. Hún hefur reyndar langa reynslu af stjórnarsetu og sat áður í stjórn Gildis lífeyrissjóðs, CRI, Eyris vaxtar og Skeljungs sem þá var og hét.

„Fyrir utan það að sitja í stjórnum og taka þátt í þeim spennandi verkefnum sem Skel og Míla eru að sinna þá er nú ágætt að viðhalda tengingum hér heima,“ segir hún í léttum dúr þegar hún er spurð um þetta.

„Að öllu gamni slepptu þá meina ég það þegar ég segi að verkefni bæði Skeljar og Mílu séu spennandi. Starfsemi Skeljar hefur tekið miklum breytingum á undanförnum árum og ég hef haft bæði gagn og gaman af því að taka þátt í því ferli. Félagið er í mörgum áhugaverðum fjárfestingum og ég sé fyrir mér að þar liggi tækifæri til frekari vaxtar. Að sama skapi stendur Míla á tímamótum eftir alþjóðlegi innviðasjóðurinn Ardian keypti félagið af Símanum undir lok þarsíðasta árs. Þar er mikil uppbygging fram undan og það er ánægjulegt að sjá hvað Ardian kemur að þeirri uppbyggingu með öflugum hætti. Við höfum séð eina mestu og hröðustu tækniþróun sögunnar einmitt eiga sér stað í fjarskiptageiranum á liðnum árum og sú þróun mun bara halda áfram. Það felst því töluverð áskorun í því að bæði byggja upp nauðsynlega innviði en eins að viðhalda og helst vera skrefi á undan í þeirri tækni sem til þarf til að sinna þessum markaði vel.“