Þau eru vissulega ærin verkefnin sem sitjandi ríkisstjórn þarf að takast á við. Við vitum ekki enn hvernig leyst verður úr málum Grindvíkinga og hvað það mun kosta þjóðarbúið, þótt almennt ríki sátt um að veita íbúum þar í bæ aðstoð. Samhliða gerð kjarasamninga má minna ríkisstjórnina á mikilvægi þess að taka skynsamlegar ákvarðanir og láta ekki undan þrýstingi um aukin útgjöld og útfærslu svonefndra millifærslukerfa. Í því samhengi er rétt að hafa í huga að millifærslukerfi er ekkert annað en snyrtilegt orð yfir skattahækkanir samhliða auknum og viðvarandi útgjöldum hins opinbera. Á sama tíma skiptir máli að ná tökum á ríkisrekstrinum, sem er ekki auðvelt í stjórnarsamstarfi þar sem friðurinn er helst keyptur með auknum útgjöldum.
Allt skiptir þetta máli því hér er enn ónefnt eitt mikilvægasta verkefnið, að ná tökum á verðbólgunni. Þar hefur ríkið – að Seðlabankanum undanskildum – verið stikkfrí að mestu. Þess í stað hefur ábyrgðin verið lögð á fyrirtækin í landinu, sem fá bágt fyrir að hækka verð til að mæta þeim hækkunum sem á þeim dynja. Ein af þeim hækkunum er þó hækkun á tekjuskatti fyrirtækja á þessu ári. Þegar hækkunin var kynnt sl. haust lét forsætisráðherra þau orð falla, fyrir framan þáverandi fjármálaráðherra sem hreyfði engum andmælum, að nú væri kominn tími fyrir fyrirtækin í landinu til að greiða til baka þann stuðning sem þau fengu í kórónuveirufaraldrinum. Þau fyrirtæki sem á annað borð eru rekin með hagnaði þurfa því nú að greiða hærri skatta samhliða því sem þau munu þurfa að mæta auknum launakröfum, hærri fjármagnskostnaði og eftir tilvikum verðhækkunum frá birgjum.
Það gleymist oft að stærsti ríkisstyrkurinn fólst auðvitað í því að halda rekstri ríkisins óbreyttum meðan á faraldrinum stóð. Það þurfa allir að greiða það til baka í gegnum hærri verðbólgu. Minni umsvif í hagkerfinu höfðu engin áhrif á starfsmannafjölda og enginn ríkisforstjóri þurfti að hafa áhyggjur af launagreiðslum um mánaðamót. Þetta er rifjað upp hér því hið opinbera er enn við sama heygarðshornið. Opinberir aðilar á borð við Íslandspóst og Sorpu hafa hækkað verðskrá sína allverulega eins og Morgunblaðið hefur greint frá, ýmsar gjaldskrár ríkis og sveitarfélaga hækkuðu um áramótin, útgjöld til annarra stofnana halda áfram að aukast og þannig má áfram telja.
Ríki, sveitarfélög og opinber fyrirtæki geta hæglega lagt sitt lóð á vogarskálarnar ef viljinn til að takast á við verðbólguna er á annað borð fyrir hendi. Það er hins vegar hætt við því að þessir aðilar líti svo á að aðgerðir Seðlabankans virki (sem þær hafa gert upp að vissu marki) og láti Seðlabankann því áfram standa einan í baráttunni. Það er ekki eins og verðbólgan hafi haft nokkur áhrif á rekstur opinberra fyrirtækja og stofnana, ekki frekar en faraldurinn. Á meðan forstjórinn í einkafyrirtækinu þarf að greiða hærri laun, hærri skatta, hærri vexti og hærra verð til birgja sefur ríkisforstjórinn pollrólegur vitandi að það skiptir hann í raun engu máli hvernig verðbólgan þróast. Fjársýslan sér bara um að greiða laun sem alltaf skila sér.