Undankeppni EM
Gunnar Egill Daníelsson
Jökull Þorkelsson
Íslenska kvennalandsliðið í handknattleik mætir Svíþjóð í þriðju umferð 7. riðils undankeppni EM 2024 á Ásvöllum í Hafnarfirði í kvöld. Við ramman reip verður að draga enda Svíar með eitt sterkasta lið heims.
Hafnaði Svíþjóð til að mynda í fjórða sæti á HM 2023 sem fram fór þar í landi, Danmörku og Noregi í nóvember og desember síðastliðnum. „Þetta leggst mjög vel í okkur og er skemmtilegt. Við erum að fara að mæta frábæru liði, einu af betri liðum í heiminum í dag, og það er verðugt en á sama tíma mjög skemmtilegt verkefni,“ sagði Arnar Pétursson landsliðsþjálfari í samtali við Morgunblaðið fyrir æfingu í Safamýri á mánudag.
Afar sterkur andstæðingur
Þrátt fyrir að andstæðingurinn sé ógnarsterkur sagði Arnar íslenska liðið staðráðið í að gera því sænska skráveifu.
„Við gerum okkur alveg grein fyrir því að andstæðingurinn er gríðarlega sterkur. Við ætlum að gefa þeim alvöruleik og sýna alvöru frammistöðu. Sérstaklega upp á það sem bíður okkar í framhaldinu þegar við förum í leiki sem öllu skipta upp á EM í desember.“
Vísaði hann þar til leikja í apríl gegn Lúxemborg á útivelli og Færeyjum á heimavelli. Með sigri í þeim og jafnvel aðeins öðrum þeirra er sæti á Evrópumótinu í Austurríki, Ungverjalandi og Sviss í höfn.
Sem stendur eru Svíþjóð og Ísland í efstu tveimur sætum 7. riðils með fullt hús stiga, fjögur, eftir tvær umferðir. Þau mætast aftur í Karlskrona í Svíþjóð laugardaginn 2. mars.
Þora að sýna hugrekki
Spurður hvers hann vænti úr leikjunum tveimur sagði Arnar:
„Það sem ég vil fá út úr þessum leikjum er að við stígum áfram skref fram á við. Við verðum svolítið að horfa á það. Í þessu verkefni eru ákveðnar breytingar. Við erum að fá inn leikmenn eins og Elínu Klöru [Þorkelsdóttur] sem missti af HM.
Við erum með Elínu Rósu [Magnúsdóttur] í stóru hlutverki og svo eru einnig að koma inn ungar stelpur sem munu fá að máta sig við þær bestu í heiminum, sem er mjög gott fyrir okkur. Markmiðin í þessum leikjum eru að fá alvöru frammistöðu.
Að spila alvöru vörn á þær og láta aðeins reyna á þá hluti sem við erum að leggja áherslu á. Það er að þora, sýna hugrekki og keyra á þær. Vera agaðar og skipulagðar í sókn og hugrakkar í öllum aðgerðum.“
Íslenska liðið hefur orðið fyrir töluverðum skakkaföllum frá því í síðasta verkefni, þar sem Forsetabikarinn vannst á HM 2023.
Andrea Jacobsen, Díana Dögg Magnúsdóttir og Hafdís Renötudóttir eru meiddar og Sandra Erlingsdóttir á von á barni. Taka þær af þeim sökum ekki þátt í leikjunum.
„Ég hef vitað af því í töluverðan tíma og hef verið að undirbúa þetta. Auðvitað hefði ég viljað hafa þær allar með, þær eru frábærar í handbolta, en ég er líka svolítið spenntur fyrir þessum stelpum sem eru að koma inn og að fá að sjá þær á þessu sviði. Það er bara tilhlökkun og spenna fyrir þessu verkefni,“ sagði Arnar.