Útskrift Hér fagnar fjölskyldan útskrift Jóhönnu úr læknisfræði frá Háskóla Íslands 2020, á fallegum íslenskum vordegi eins og þeir gerast bestir.
Útskrift Hér fagnar fjölskyldan útskrift Jóhönnu úr læknisfræði frá Háskóla Íslands 2020, á fallegum íslenskum vordegi eins og þeir gerast bestir.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ása Hrönn fæddist í Reykjavík en bjó fyrstu fjögur árin í Kópavogi. Síðan flutti fjölskyldan í Breiðholtið og þar gekk hún í Breiðholtsskóla og var í fimleikafélagi ÍR í Breiðholti. Breiðholtið var á þessum tíma hálfgerð ævintýraveröld og Ása segir…

Ása Hrönn fæddist í Reykjavík en bjó fyrstu fjögur árin í Kópavogi. Síðan flutti fjölskyldan í Breiðholtið og þar gekk hún í Breiðholtsskóla og var í fimleikafélagi ÍR í Breiðholti. Breiðholtið var á þessum tíma hálfgerð ævintýraveröld og Ása segir að leiksvæði krakkanna hafi verið brekkan fyrir ofan Bakkana og þar hafi þau búið sér til fótboltavöll, þar sem efra Breiðholt er núna, og í Seljahverfinu sáust hestar á beit. „Það var verið að byggja upp Breiðholtið og vissulega voru hættur á byggingarsvæðum, sem okkur var sagt að vara okkur á.“

Í Breiðholtsskóla kynntist Ása bestu vinkonum sínum fyrir lífstíð. „Frá 8 ára aldri vorum við eiginlega sami bekkurinn allan grunnskólann, svo það myndaðist mikil og góð heild og við vorum með alveg frábæra kennara.“ Hópurinn fór í mismunandi menntaskóla eftir grunnskólann og Ása fór í Kvennaskólann með Eddu Kristínu, bestu vinkonu sinni. „Það var gaman að vera í þessu gamla Kvennaskólahúsi og lesa á bókasafninu, undir súð, og þetta var frábær tími.“

Á unglingsárunum vann Ása við að passa börn í Súðavík, en þar bjuggu föðurafi hennar og amma, og síðan vann hún í frystihúsinu í Bolungarvík. Svo vann hún eitt sumar á hótelinu í Flókalundi, sama ár og hún fór í Kvennaskólann.

Stolt af Vigdísi

Þegar Ása var nítján ára hafði hún farið sem au-pair til Korsíku og þar byrjaði hún að læra frönsku. „Það vissi enginn neitt um Ísland og ég fékk endalausar spurningar um hvort við byggjum í snjóhúsum. Það sem bjargaði mér var að Vigdís var orðin forseti og það var það eina sem fólk þarna vissi um landið og ég man hvað ég var stolt af henni, því mér fannst svo leiðinlegt að fólk vissi ekki hvað Ísland væri frábært land.“ Ása segir að í dag sé öldin önnur, og nú komi heilu flugfarmarnir af frönskum ferðamönnum til landsins, sem eru heillaðir af landi og þjóð.

Eftir menntaskólann fór Ása út í einn vetur 1985 til að læra frönsku í útlendingadeild háskólans í Nice og kom svo heim og fór í Háskóla Íslands í frönsku í einn vetur.

Þegar Ása kom heim eftir ársdvöl í Frakklandi fór hún á skemmtistaðinn Hollywood í Ármúla og þar kynnti æskuvinkona hennar hana fyrir manni, Stefáni Hrafni, og hafa leiðir þeirra legið saman síðan.

Flugfreyja frá 1995

„Ég fæ svo vinnu hjá Flugleiðum 1987 og þar hófst minn langi ferill,“ segir Ása en bætir við að fyrstu árin hafi hún unnið við innritun í innanlandsfluginu en hún hafi farið að fljúga 1995. „Á þessum tíma var erfitt að komast í flugfreyjustarfið og maður þurfti eiginlega að þekkja einhvern, en þarna kom franskan mér að góðum notum. Síðan hef ég unnið líka sem öryggiskennari og eftirlitsflugfreyja.“

Tónlist og söngur hefur alla tíð verið hluti af lífi Ásu og hún fór einn vetur í Söngskólann í Reykjavík og hefur verið mikið tengd kórstarfi og verið m.a. í kór flugfreyja lengi. Árið 2018 ákvað hún að ljúka við háskólanámið í frönsku og útskrifaðist frá Háskóla Íslands og fjórum árum síðar útskrifaðist hún úr sama skóla sem leiðsögumaður, árið 2022.

Ása hefur farið út um allan heim í sínu starfi og segir að orð móður hennar hafi ræst, en hún sagði: „Ása, þú hefur alltaf verið hálfgerð flökkukind,“ segir hún og hlær.

Náttúrubarn

Ása segir að fjölskyldan sé alltaf í fyrsta sæti hjá sér. „Við viljum helst verja öllum stundum með börnunum okkar og þeirra fjölskyldum.“ En hún spilar líka golf með eiginmanninum og hann kynnti henni líka veiði. „Ég er í grunninn mikið náttúrubarn og veit ekkert skemmtilegra en að vera úti í náttúrunni, hvort sem það er í golfi, veiði, í göngum eða í laugunum. Grafarvogslaugin er best geymda leyndarmál borgarinnar. Svo búum við hér í Grafarvoginum sem er algjör útivistarparadís.“ Hún bætir við að hún byrjaði í pilates hjá Láru Stefánsdóttur dansara fyrir sjö árum. „Hún er algjörlega minn bjargvættur,“ segir hún. Hjónin eru nú í afmælisferð sem hófst í París, en þau verða í Marokkó yfir afmælið.

Fjölskylda

Eiginmaður Ásu er Stefán Hrafn Stefánsson, lögmaður og löggiltur fasteignasali, f. 15.2. 1963, og þau búa í Reykjavík. Foreldrar Stefáns Hrafns eru hjónin Stefán Eiríksson, slökkviliðsstjóri á Keflavíkurflugvelli, f. 3.10. 1934, d. 12.6. 2010, og Ástríður Guðmundsdóttir ferðamálafræðingur, f. 25.8. 1930, d. 10.6. 2007. Þau bjuggu í Reykjavík.

Börn Ásu og Stefáns eru 1) Jóhanna Dröfn Stefánsdóttir læknir, f. 29.11. 1992. Hún á dótturina Hrafnkötlu Daníelsdóttur, f. 23.12. 2021, með Daníel Benediktssyni, f. 10.6. 1992. Sambýlismaður Jóhönnu er Jóhannes Hilmarsson, BSc. í fjármálaverkfræði frá HR. 2) Einar Örn Stefánsson, nemi í viðskiptafræði við Háskólann í Reykjavík, f. 11.7. 2000. Unnusta hans er Kristín Helga Vilbergsdóttir, BA í félagsráðgjöf frá Háskóla Íslands.

Alsystkini Ásu eru 1) Jakob Geir, f. 24.10. 1958; 2) Auður, f. 8.6. 1960; 3) Kolbrún, f. 8.6. 1960; 4) Sigurður Bjarki, f. 3.1. 1966. Hálfsystir Ásu, sammæðra, er Guðbjörg Ester Einarsdóttir, f. 6.3. 1946.

Foreldrar Ásu eru hjónin Kolbeinn Jakobsson málarameistari, f. 9.8. 1926, d. 2.7. 2018, og Jóhanna Kristjánsdóttir húsfreyja, f. 6.9. 1919, d. 2.7. 1986. Þau bjuggu í Reykjavík.