Bjørn Lomborg
Bjørn Lomborg
Að tengja allar hamfarir við loftslagsbreytingar og gefa ranglega í skyn að allt sé að versna verulega gerir það að verkum að við hunsum hagnýtar og hagkvæmar lausnir á meðan fjölmiðlar beina athygli okkar að dýrum loftslagsaðgerðum sem hjálpa lítið.

Bjørn Lomborg

Umfjöllun fjölmiðla vekur þá ónotalegu tilfinningu að loftslagsbreytingar séu að gera jörðina óbyggilega. Linnulaust dynja á okkur fréttir af flóðum, þurrkum, stormi og skógareldum. Okkur eru ekki aðeins birtar myndir af mannskæðum hamförum í okkar nágrenni heldur hvaðanæva úr heiminum, sé myndefnið nógu skelfilegt.

Samt sem áður eru áhrifin, sem þessari hamfarafrétta-orrahríð er ætlað vekja hjá okkur, mjög villandi og gera það erfiðara að koma stefnumálum að loftslagsbreytingum á réttan kjöl. Gögn sýna að loftslagstengdir atburðir eins og flóð, þurrkar, stormar og skógareldar valda ekki fjölgun dauðsfalla. Tölur um mannskaða hafa þvert á móti fallið hratt. Síðastliðinn áratug urðu loftslagstengdar hamfarir 98% færri að fjörtjóni en fyrir einni öld.

Þetta ætti ekki að koma á óvart því þróunin hefur verið augljós í marga áratugi þótt sjaldan sé fjallað um hana. Á þriðja áratug síðustu aldar var meðaltal dauðsfalla af völdum veðurhamfara 485.000 á ári. Árið 1921 birti New York Herald heilsíðuumfjöllun um þurrka og hungursneyð víðsvegar um Evrópu. „Dauði bíður milljóna í methitabylgju“. Síðan þá hefur dauðsföllum fækkað nánast á hverjum áratug. 168.000 dauðsföll að meðaltali á ári á sjöunda áratugnum og innan við 9.000 dauðsföll á ári á síðasta áratug, 2014 til 2023.

98% samdráttur í loftslagstengdum dauðsföllum kemur fram í virtasta alþjóðlega hamfaragagnagrunninum EM-DAT, sem er ómetanlegur við að meta þessi áhrif. Þetta er áreiðanleg tölfræði vegna þess að mannskæðar hamfarir hafa verið skráðar nokkuð stöðugt í heila öld.

Það er auðvitað rétt að líklegra er að rannsakendum hafi yfirsést smærri atburðir við skráningu, oft með mun færri eða engu manntjóni, fyrr á árum vegna þess að þá voru færri að sinna verkefninu og tækni ekki jafn háþróuð. Þess vegna vilja sumir fjölmiðlar og baráttumenn fyrir loftslagsmálum í auknum mæli frekar benda á fjölgun tilkynntra atburða en lækkandi tölu látinna sem sönnun þess að loftslagsbreytingar séu að herja á jörðina.

En öll aukningin hefur verið í smærri atburðum. Stærri mannskæðir atburðir eru fáir og fer fækkandi. „Aukningin“ er tilkomin vegna skráningartækni og alþjóðlegra samtenginga sem veita sífellt betri skýrslur um sífellt smærri atburði hvar sem þeir eiga sér stað. Þetta er ljóst vegna þess að aukningin sést í öllum flokkum hamfara sem mældir eru. Ekki aðeins veðurhamfarir, heldur einnig jarðeðlishamfarir eins og eldgos og jarðskjálftar og tæknihamfarir eins og lestarslys. Ekki einu sinni róttækir loftslagssinnar halda því fram að loftslagsbreytingar setji fleiri lestir út af spori eða valdi því að fleiri eldfjöll gjósi.

Þess vegna eru manntjón miklu sterkari mælikvarði. Þeim fækkar verulega vegna þess að ríkari og þróttmeiri samfélög eru mun öflugri í að vernda sína borgara en þau sem eru fátækari og viðkvæmari. Meira fjármagn og nýsköpun þýðir að fleiri mannslífum er bjargað. Rannsóknir sýna þetta stöðugt í næstum öllum hamförum. Þar á meðal stormum, kuldabylgjum og flóðum.

Ein rannsókn sem oft er vitnað í sýnir að í upphafi þessarar aldar urðu að meðaltali 3,4 milljónir manna fyrir áhrifum af strandflóðum og 11 milljarða dala tjóni árlega. Um 13 milljörðum dala eða 0,05% af vergri landsframleiðslu var varið til flóðavarna við strendur.

Í lok þessarar aldar munu fleiri eiga á hættu að verða fyrir skaða og loftslagsbreytingar munu leiða til þess að sjávarborð hækki um allt að metra. Ef við gerum ekkert og höldum bara strandvörnum eins og þær eru í dag mun flæða reglulega yfir víðfeðm svæði á jörðinni og 187 milljónir manna verða fyrir tjóni að verðmæti 55 billjónir dala árlega eða sem svarar meira en 5% af vergri landsframleiðslu.

En ríkari samfélög munu aðlaga sig áður en allt fer á versta veg. Einkum vegna þess að kostnaður við aðlögun er lítill í samanburði við hugsanlegt tjón eða einungis 0,005% af landsframleiðslu. Skynsamleg aðlögun mun gera það að verkum að þrátt fyrir hærra sjávarmál verða færri en nokkru sinni fyrr fyrir áhrifum flóða. Árið 2100 mun einungis flæða hjá 15.000 manns á hverju ári. Jafnvel samanlagður kostnaður við aðlögun og loftslagstengd tjón mun lækka í aðeins 0,008% af landsframleiðslu.

Þessar staðreyndir hjálpa til við að sýna hvers vegna það skiptir máli að sjá heildarmyndina. Að tengja allar hamfarir við loftslagsbreytingar og gefa ranglega í skyn að allt sé að versna verulega gerir það að verkum að við hunsum hagnýtar og hagkvæmar lausnir á meðan fjölmiðlar beina athygli okkar að dýrum loftslagsaðgerðum sem hjálpa lítið.

Gífurlega metnaðarfullar loftslagsaðgerðir sem kosta hundruð trilljóna dala myndu lækka tölu þeirra sem lenda í flóðum í lok aldarinnar úr 15.000 í um 10.000 á ári. Skynsamleg aðlögun bjargar næstum öllum þeim 3,4 milljónum sem flæðir yfir í dag á meðan loftslagsaðgerðir geta í besta falli bjargað 5 þúsundum.

Tölfræðin er jafnvel enn meira afgerandi fyrir fátæk lönd sem hafa takmarkaðar auðlindir og lítinn viðnámskraft gegn hamförum. Árið 1970 varð Bangladess, þá Austur-Pakistan, fyrir mesta mannfalli á heimsvísu. 300.000 manns létust þá af völdum fellibyls. Síðan þá hefur landið þróað og endurbætt viðvörunarkerfi og skýli. Undanfarinn áratug hafa dauðsföll vegna fellibylja verið að meðaltali aðeins 160 eða næstum tvö þúsund sinnum færri. Til að hjálpa löndum að fækka dauðsföllum vegna hamfara ættum við því að stuðla að velmegun, aðlögun og viðnámsgetu innviðanna.

Auðvitað eru veðurhamfarir aðeins einn þáttur loftslagsbreytinga og raunveruleg alþjóðleg áskorun sem við ættum að mæta á skynsamlegan hátt. En þegar við erum kaffærð í veðurklámi og missum af þeirri staðreynd að dauðsföllum hefur fækkað hröðum skrefum endum við á að einblína fyrst og mest á þær aðgerðir sem minnst hafa áhrif.

Höfundur er forseti Copenhagen Consensus og gestafyrirlesari við Hoover-stofnun Stanford-háskólans.

Höf.: Bjørn Lomborg