Benedikt Ólafur Sigfússon fæddist 3. desember 1952 í Seljahlíð í Sölvadal í Eyjafirði. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Hvammstanga 18. febrúar 2024.

Foreldrar hans voru Sigfús Sigfússon frá Forsæludal í Vatnsdal, f. 19.11. 1917, d. 29.9. 2002 og Ragnheiður Konráðsdóttir, f. 21.9. 1932 að Vöglum í Vatnsdal, d. 12.7. 1997.

Alsystkini hans eru Helga Sigfúsdóttir, f. 23.8. 1951, Skúli Ástmar Sigfússon, f. 18.10. 1955, Jóhanna Sigfúsdóttir, f. 28.3. 1963 og Jónas Sigfússon, f. 25.4. 1972 en hann lést af slysförum 25.11. 1990. Systir hans sammæðra var Sigrún Ásgrímsdóttir, f. 3.5. 1948, d. 6.1. 1998. Uppeldissystir hans var Ragnheiður Þórisdóttir, f. 13.9. 1966, d. 26.8. 1998.

Benedikt var í sambúð frá 1973 til 1985 með Sigrúnu Herdísi Sigurbjartsdóttur, f. 5.3. 1957. Foreldrar hennar eru Sigrún Ólafsdóttir og Sigurbjartur Frímannsson frá Sólbakka. Saman eignuðust þau tvo stráka, Sigurbjart Ragnar Benediktsson, f. 15.5. 1974 og Ólaf Sigfús Benediktsson, f. 23.7. 1978. Barnabörnin eru fimm talsins, Anna Herdís, Ólafur Már og Linda Fanney Sigurbjartsbörn og Haukur Ingi og Aron Örn Ólafssynir.

Benedikt var stofnfélagi í Flugbjörgunarsveit V-Hún. og starfaði með sveitinni lengi vel. Hann var í mörg ár grenjaskytta í Þorkelshólshreppi og einnig starfaði hann lengi í sláturhúsi KVH á Hvammstanga.

Benedikt fæddist í Seljahlíð í Eyjafirði, þaðan fluttist hann að Orrastöðum í A-Hún. 1959 flutti hann með foreldrum sínum að Þórormstungu í Vatnsdal. 1964 þá 12 ára gamall fluttu þau svo að Gröf í Víðidal. Um tvítugt stofnaði hann sitt eigið bú og byggði íbúðarhús og fjárhús í Gröf. Árið 1993 gekkst hann undir stóra og mikla aðgerð þar sem æxli við mænu var fjarlægt. Eftir aðgerðina var hann bundinn við hjólastól. Binni var með eins konar söðlaverkstæði í mörg ár eftir aðgerðina, fyrst heima í Gröf en svo vestur á Hvammstanga þar sem hann bjó síðustu árin.

Útför Benedikts verður gerð frá Hvammstangakirkju í dag, 28. febrúar 2024, klukkan 14. Jarðsett verður í Víðidalstungukirkjugarði.

Elsku pabbi – eftir langa og stranga baráttu síðustu ár þá er komið að kveðjustund. Það er alveg ótrúlegt hvað þú ert búinn að vera sterkur og harður af þér síðustu ár. Það endurspeglar nákvæmlega hver þú varst. Þú hélst alltaf áfram sama hvað gekk á, þú fórst oft langt á seiglu, þrjósku og dugnaði. Það var sama hvað það var, búskapurinn, grenjaleit, sláturtíð eða ýmis önnur störf sem þú tókst að þér. Eftir stendur fullt af góðum minningum sem munu lengi lifa, ferðalögin, veiðiferðirnar, heiðarferðirnar, öll símtölin, brasið við söðlasmíðina og svo margt fleira. Vonandi hefur þú það gott í sumarlandinu fagra, takk fyrir allt elsku pabbi – þín verður sárt saknað.

Sigurbjartur Ragnar
Benediktsson og Ólafur Sigfús Benediktsson.