Guðbjörg Pálsdóttir
Guðbjörg Pálsdóttir
Hjúkrunarfræðingar hafa fundið fyrir vanmati á sínum störfum í áraraðir. Þessu þarf að breyta áður en verr fer.

Guðbjörg Pálsdóttir

Öll viðvörunarljós blikka um að álag í heilbrigðiskerfinu sé að aukast, öryggi sjúklinga sé ítrekað stefnt í hættu og heilbrigðisstarfsfólk sé margt hvert alvarlega að íhuga að hætta störfum á heilbrigðisstofnunum. Samkvæmt niðurstöðum nýrrar könnunar meðal ljósmæðra segja 85% að öryggi mæðra hafi verið stofnað í hættu einhvern tímann á síðustu sex mánuðum vegna skorts á ljósmæðrum og nærri helmingur segir þetta gerast oftar en áður.

Fjölmiðlar leituðu eftir viðbrögðum frá heilbrigðisráðherra, hann segist taka niðurstöðurnar alvarlega og þær þurfi að kryfja. Áður en sú krufning hefst tel ég rétt að benda á að þessi staða meðal ljósmæðra er ekkert einsdæmi, í raun er staðan nákvæmlega sú sama meðal hjúkrunarfræðinga. Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) gerði könnun síðasta haust þar sem svarhlutfallið var ríflega 64%. Þar kemur í ljós að þrátt fyrir að 74% hjúkrunarfræðinga séu ánægð í starfi þá hafi 64% alvarlega að íhugað að hætta í starfi á síðustu tveimur árum. Ástæðurnar eru fyrst og fremst starfstengt álag og launakjör. Mikilvægt er að ráðherra taki þær niðurstöður einnig með til krufningar.

Hátt í 75% hjúkrunarfræðinga segjast hafa mætt til vinnu við aðstæður þar sem mönnun var ekki næg til að tryggja lágmarksöryggi skjólstæðinga. Það er grafalvarleg staða.

Það er auðvelt að mála skakka mynd af launakjörum heilbrigðisstétta með því að tína til greiðslur vegna vaktaálags og óumbeðinnar yfirvinnu þegar annað vinnandi fólk er í fríi. Í raun eru dagvinnulaun aðeins 67% heildarlauna hjúkrunarfræðinga sem vinna vaktavinnu. Í áðurnefndri könnun sögðu 75% hjúkrunarfræðinga að höfðað hefði verið til samvisku þeirra um að taka að sér aukna vinnu þar sem annars yrði um alvarlega undirmönnun að ræða á vinnustaðnum.

Staðan mun ekki lagast af sjálfu sér. Við finnum nú þegar fyrir auknu álagi sem rekja má til hækkandi lífaldurs þjóðarinnar, skjólstæðingar eru mun veikari en áður og þurfa meiri þjónustu. Það stefnir í að þetta muni aukast verulega á næstu árum og áratugum.

Það er markmið Fíh að hjúkrunarfræðingar fái greidd laun í samræmi við ábyrgð og álag. Þá myndi enginn gestur í stúdentsveislum landsins gera athugasemd við að ungi og efnilegi stúdentinn hygðist fara í hjúkrunarfræðinám. Hjúkrunarfræðingar hafa fundið fyrir vanmati á sínum störfum í áraraðir. Þessu þarf að breyta áður en verr fer.

Höfundur er formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga

Höf.: Guðbjörg Pálsdóttir