Rýni Aftur eru eignatengsl Síldarvinnslunnar og Samherja til skoðunar.
Rýni Aftur eru eignatengsl Síldarvinnslunnar og Samherja til skoðunar. — Morgunblaðið/Eggert
Ekki er ljóst hvers vegna Samkeppniseftirlitið (SKE) taldi nauðsynlegt að hefja rannsókn á því hvort líta beri á Síldarvinnsluna hf. og Samherja Ísland ehf. sem eitt og sama fyrirtækið vegna kaupa Síldarvinnslunnar á helmingshlut í sölufélagi Samherja, Ice Fresh Seafood

Gunnlaugur Snær Ólafsson

gso@mbl.is

Ekki er ljóst hvers vegna Samkeppniseftirlitið (SKE) taldi nauðsynlegt að hefja rannsókn á því hvort líta beri á Síldarvinnsluna hf. og Samherja Ísland ehf. sem eitt og sama fyrirtækið vegna kaupa Síldarvinnslunnar á helmingshlut í sölufélagi Samherja, Ice Fresh Seafood.

Ber stofnunin fyrir sig að nauðsynlegt sé að kanna áhrif viðskiptanna þrátt fyrir að eignarhlutur Samherja í Síldarvinnslunni hafi minnkað til muna frá skráningu Síldarvinnslunnar á markað og eru eignatengslin minni nú en þau voru í þau fimm skipti sem SKE hefur tekið samruna Síldarvinnslunnar og annarra félaga til skoðunar á undanförnum áratug.

Gunnþór Ingvason framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar kveðst undrandi á því að SKE telji nauðsynlegt að athuga eignatengsl fyrirtækjanna og áhrif þess að félagið fari ásamt Samherja með sameiginleg yfirráð yfir Ice Fresh Seafood. „Við erum búin að ganga í gegnum mjög marga samruna á undanförnum árum og erum búin að afhenda gríðarlegt magn af gögnum, öll gögn sem óskað hefur verið eftir í tengslum við þá samruna sem átt hefur við. Öll gögn liggja fyrir um stjórn á Síldarvinnslunni. Auk þess sem við höfum svarað fyrirspurnum fleiri aðila um samskipti þessara félaga. Það liggur alveg fyrir hverjir hluthafar eru og hverjir skipa stjórnir þessara félaga, þetta eru opinberar upplýsingar.“

Ekki fyrsta rannsóknin

Árið 2013 samþykkti stofnunin kaup Síldarvinnslunnar á Bergi-Hugin en ákvað að rannsaka hvort Samherji, sem fór með minna en helmingshlut, hefði haft óeðlileg áhrif á viðskiptin. Stóð rannsóknin til ársins 2018 þegar hún var felld niður. Nú síðast skoðaði SKE eignatengsl Síldarvinnslunnar, Samherja og Gjögurs í tengslum við kaup Síldarvinnslunnar á Vísi hf. árið 2022. Höfðu stjórnunar- og eignatengsl fyrirtækjanna einnig verið tekin til skoðunar við kaup Bergs-Hugins (dótturfélags Síldarvinnslunnar) á Bergi ehf. og lauk þeirri skoðun 2021.

Milli þessara tveggja skoðana hefur þó átt sér stað umfangsmikil breyting á samsetningu hluthafa í Síldarvinnslunni þar sem félagið var skráð á markað og seldi Samherji hluti og fer nú með um 30% hlut. Þá hafa bæst við mörg hundruð nýir hluthafar. „Þessu ferli fylgdi gríðarlega mikið magn af upplýsingum um félagið,“ segir Gunnþór.

„Okkur finnst eftirlitið fara offari að telja tilefni til að skoða tengsl núna vegna viðskipta með sölufyrirtæki sem er eingöngu starfandi á erlendum mörkuðum með það að markmiði að auka söluvirði sjávarfangs frá Íslandi. Það er ekkert þarna sem snýst um aflaheimildir eða eignatengsl félaganna heldur snýst þetta um að efla markaðsstarf erlendis. Íslensk sjávarútvegsfyrirtæki hafa í áratugi átt með sér samstarf um sölu og markaðsmál á erlendum mörkuðum. Skemmst er að minnast Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna, SÍF og fleiri. Íslenskur sjávarútvegur er í alþjóðlegri samkeppni þar sem einstaka samkeppnisaðilar eru mun öflugri og stærri en allur íslenskur sjávarútvegur.

Eldri vísbendingar

Leitað var til Páls Gunnars Pálssonar forstjóra SKE til að afla upplýsinga um hvað hefði breyst við kaup Síldarvinnslunnar á helmingshlut í Ice Fresh Seafood sem kallaði á rannsókn Samkeppniseftirlitsins nú.

„Það er engin niðurstaða komin í málið, við erum bara að taka þetta til athugunar. Þar á meðal þessi eignatengsl og grundvöll málsins (samrunatilkynningu vegna viðskiptanna) eins og það berst til okkar. Samkeppniseftirlitið hefur áður greint frá því að það séu vísbendingar um eignatengsl sem þurfi að skoða. Þannig að við erum ekki búin að taka afstöðu til málsins að nokkru leyti,“ svaraði Páll Gunnar.

Kvaðst hann ekki getað svarað öðrum spurningum á þessu stigi og vísaði á tilkynningu SKE frá í gær.

Höf.: Gunnlaugur Snær Ólafsson