[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ég hef lengi haft mikinn áhuga á ljósmyndun, þetta er mín ástríða og í raun þráhyggja. Þegar ég er úti að ganga, kannski í tíu stiga frosti, þá ríf ég af mér vettlingana og tek myndir ef ég rek augun í áhugavert form

Kristín Heiða Kristinsdóttir

khk@mbl.is

Ég hef lengi haft mikinn áhuga á ljósmyndun, þetta er mín ástríða og í raun þráhyggja. Þegar ég er úti að ganga, kannski í tíu stiga frosti, þá ríf ég af mér vettlingana og tek myndir ef ég rek augun í áhugavert form. Ég vil fanga augnablikið, birtuna og skuggana,“ segir Jóhannes Hrefnuson Karlsson, sem opnar ljósmyndasýningu á Endurhæfingardeild Landspítalans á Grensási í dag, en þar hefur hann lengi verið í endurhæfingu eftir bráðaaðgerð á heila. Jói, eins og hann er oftast kallaður, veiktist mjög alvarlega fyrir ári þegar hann var staddur í Bandaríkjunum og fékk streptókokkasýkingu sem fór upp í heila. Hann var í dái í sex daga og lá þar lengi milli heims og helju.

„Ég missti tímaskyn og þurfti að læra allt upp á nýtt, borða, ganga og tala. Ég glími enn við málstol, því þó að orð virki fullkomlega inni í heilanum á mér er erfitt að segja þau upphátt, koma þeim rétt frá mér. Mér finnst það áhugavert og fyndið, en líka mjög pirrandi. Í gegnum ljósmyndun get ég tjáð mig án orða, með listrænum hætti. Þegar ég fékk loksins leyfi til að fljúga heim til Íslands frá Bandaríkjunum, fimm vikum eftir aðgerð, keypti ég mér síma með mjög góðri myndavél í fríhöfninni, til að geta tekið myndir í miklum gæðum. Mér fannst ég eiga það skilið, ég hafði heldur betur unnið fyrir því að splæsa í þessa græju,“ segir Jói og bætir við að myndirnar á sýningunni hafi hann ýmist tekið fyrir eða eftir heilaskurðaðgerð og að þær séu teknar á ólíkum stöðum í heiminum.

„Í dag veitir útivera mér mestan innblástur og ég heillast af formum, litum og línum. Mér finnst gaman að flétta saman liti, áferð og dýpt og sumar myndirnar eru því mjög abstrakt en aðrar hlutbundnar. Sumar þeirra luma á fegurð í ljótleika,“ segir Jói, sem ætlar að sýna tæplega fjörutíu myndir.

„Þar sem ég er almennt frekar vandræðalegur fannst mér stressandi að sækja um að fá að sýna í einhverjum sal eða kaffihúsi. Ég henti því fram þessari hugmynd í tíma í talþjálfun hjá Auði talmeinafræðingi, hvort ég ætti ekki bara að setja upp ljósmyndasýningu hér á Grensási. Hún greip hugmyndina á lofti og nú er komið að sýningaropnun.“

Þetta gefur mér tilgang

Þær Auður Ævarsdóttur talmeinafræðingur og Sigþrúður Loftsdóttir iðjuþjálfi segjast hafa séð að það að vinna að ljósmyndasýningu gæti verið frábært tækifæri fyrir Jóa, að nýta hana sem hluta af endurhæfingunni.

„Að takast á við alvöru verkefni í lífinu, því endurhæfing snýst ekki aðeins um að gera æfingar hér á Grensási, heldur líka að takast á við lífið og þau verkefni sem því fylgja. Heilmikil vinna liggur að baki því að skipuleggja allt í kringum ljósmyndasýningu, það krefst mikils undirbúnings. Hér á Grensási hafa aldrei verið settar upp listsýningar í þau ellefu ár sem ég hef unnið hér, enda getum við ekki opnað fyrir almenning, sýningin verður fyrst og fremst fyrir þá sem hingað sækja endurhæfingu og aðstandendur þeirra. Starfsfólkið mun líka njóta sýningarinnar og svo ætlar Jói auðvitað að bjóða sínum nánustu ættingjum og vinum á opnunina í dag, sem verður með stæl, því nokkur fyrirtæki styrkja Jóa með því að gefa veitingar til að bjóða gestum upp á. Einnig styrktu Hollvinir Grensáss Jóa með því að borga fyrir kostnað vegna prentunar og innrömmunar.“

Jói segir það hafa verið gott fyrir andlegu hliðina að vinna að sýningunni. „Að hafa eitthvað til að stefna að gefur mér tilgang. Ég man nákvæmlega hvaða dag og ár ég tók hverja mynd, ég tengi við og man hvernig mér leið þegar ég tók hverja þeirra. Þessar myndir segja að hluta til sögu mína og eru skráning á minningum.“

Sýningin mun teygja sig yfir nokkur rými og margir koma að undirbúningi og uppsetningu, m.a. Helgi Snær Sigurðsson, sem hann kynntist á Grensási, en hann hefur verið samtíða Jóa þar í endurhæfingu, einnig vegna heilauppskurðar.

„Helgi var ráðinn sem faglegur ráðgjafi,“ segir Sigþrúður, iðjuþjálfi þeirra beggja, og bætir við að kærkomið hafi verið að geta þannig tengt saman tvo einstaklinga sem eru að fara í gegnum endurhæfingarferli.

„Þeir vinna saman að raunverulegu verkefni þar sem þeir nýta styrkleika sína. Helgi er myndlistarmenntaður, svo að hann hjálpaði Jóhannesi að velja hvaða myndir ættu erindi á sýningu og hverjar ekki. Helgi kom með sín rök fyrir valinu, því það er ekki nóg að mynd sé flott, heldur þarf hún að lýsa persónuleika Jóa, standa fyrir sérkenni hans. Auk þess er Helgi blaðamaður og samdi textana sem munu hanga uppi á sýningunni, þar sem Jói segir frá sjálfum sér.“

Hægt er að skoða ljósmyndir Jóa á heimasíðu hans og instagram: joi_tekur_myndir

Höf.: Kristín Heiða Kristinsdóttir