Inga Þóra Pálsdóttir
ingathora@mbl.is
Einkenni taugaþroskaröskunarinnar ADHD breytast með hækkandi aldri, og einkenni kvenna eru minna sýnileg þótt þau séu jafnhamlandi. Vandinn getur haft veruleg áhrif á líf fólks, en þeir sem eru með ADHD eru meðal annars líklegri en aðrir til að þjást af þunglyndi og kvíða. Því er mikilvægt að fá viðeigandi meðhöndlun.
Þetta segja þær Bára Sif Ómarsdóttir, sem stýrir ADHD-teymi við Kvíðameðferðarstöðina, og Sóley Dröfn Davíðsdóttir, yfirsálfræðingur við Kvíðameðferðarstöðina, í samtali við Morgunblaðið.
Bára Sif og Sóley Dröfn eru höfundar bókarinnar ADHD fullorðinna sem kom nýlega út. Það er bókaútgáfan Edda sem gefur hana út.
Erfiðara að fá greiningu
Í bókinni er farið yfir víðan völl, meðal annars er fjallað um hvað ADHD sé og hvernig það þróist með árunum. Þá er sérstakur kafli í bókinni um einkenni kvenna.
„Þegar komið er á fullorðinsár eru einkennin ekki eins áberandi, sérstaklega ekki hjá konum. Við tölum um það hvernig einkennin koma öðruvísi fram hjá þeim. Það er erfiðara fyrir þær að fá greiningu á vandanum, því að þær eru oft líka með kvíða og þunglyndi. Þær fá þá kannski meðhöndlun við því sem dugar ekki sem skyldi. Þá kemur oft seint í ljós að ADHD sé grunnvandinn,“ segir Sóley Dröfn.
Mikil vitundarvakning
Bára Sif og Sóley Dröfn segja mikla vitundarvakningu hafa átt sér stað varðandi ADHD á síðustu árum. Því leiti nú fleiri eftir greiningu. Ríkur erfðaþáttur er í ADHD og segir Bára að oft leiti fullorðnir aðstoðar eftir að börn þeirra hafa fengið greiningu.
Bókinni er ætlað að upplýsa fólk um einkenni ADHD þannig að það geti lært betur inn á þau, hvað orsaki þau og hvað geti fylgt þeim. Þær nefna að með hækkandi aldri verði ofvirknin oft meira innra með fólki, og komi meðal annars fram sem eirðarleysi og óþolinmæði.
Hætta á kulnun
Þá segja þær að ADHD geti haft mjög mikil áhrif á líf fólks. Það geti meðal annars truflað fólk í starfi, samböndum, akstri og haft áhrif á líðan.
Einnig eigi fólk með ADHD erfiðara með að slaka á, það færist of mikið í fang og geti það leitt til kulnunar. Fólk með ADHD sé meðal þeirra hópa sem eiga það sérstaklega á hættu að fara í kulnun. Því sé mikilvægt að fá rétta meðhöndlun.
„Þetta er mjög hamlandi vandi ef fólk er með umtalsverð einkenni ADHD,“ segir Sóley Dröfn.