Strætóstöð Hin nýja endastöð Strætó verður á bílastæðinu vinstra megin á myndinni. Beint á móti standa fjölbýlishúsin við Klapparstíg og Skúlagötu.
Strætóstöð Hin nýja endastöð Strætó verður á bílastæðinu vinstra megin á myndinni. Beint á móti standa fjölbýlishúsin við Klapparstíg og Skúlagötu. — Morgunblaðið/sisi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Á næstunni verður ráðist í umfangsmiklar breytingar og endurbætur á Hlemmi. Vegna framkvæmdanna verður ekki lengur mögulegt að vera með endastöð, kaffiaðstöðu vagnstjóra eða tímajöfnun vagna við Hlemm eins og er í dag

Baksvið

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Á næstunni verður ráðist í umfangsmiklar breytingar og endurbætur á Hlemmi. Vegna framkvæmdanna verður ekki lengur mögulegt að vera með endastöð, kaffiaðstöðu vagnstjóra eða tímajöfnun vagna við Hlemm eins og er í dag.

Útbúnar verða tvær nýjar endastöðvar fyrir vagna Strætós, annars vegar við Hringbraut nálægt Háskólanum og hins vegar á Skúlagötu, gegnt Klapparstíg. Íbúar í nálægum fjölbýlishúsum báru fram mótmæli þegar nýtt deiliskipulag var kynnt.

Tilboð í framkvæmdir við hina nýju endastöð Strætó við Skúlagötu voru opnuð 6. febrúar sl. Fimm tilboð bárust og buðu Gleipnir Verktakar ehf. lægst, eða 42 milljónir króna. Kostnaðaráætlun var tæpar 49 milljónir.

Bráðabirgðaendastöð leiða 1, 4, 16, 17 og 18 verður við Skúlagötu. Bráðabirgðaendastöð leiða 2 og 6 verður við Háskólann. Aðstaða fyrir vagnstjóra verður á báðum stöðum.

Nýjar stoppistöðvar

Jafnframt verða ýmsar breytingar á akstursleiðum vagnanna; nýjar stoppistöðvar verða teknar í notkun en aðrar detta út tímabundið. Væntanlega mun Strætó kynna þessar breytingar þegar nær dregur. Fyrirtækið segist stefna að því að sem minnst rask verði fyrir farþega.

Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs þann 4. október 2023 var samþykkt að auglýsa tillögu að breytingu á deiliskipulagi Skúlagötusvæðis fyrir tímabundna skiptistöð Strætó. Málið var í auglýsingu frá 2. nóvember 2023 til og með 14. desember 2023.

Athugasemdir bárust frá íbúum í nálægum húsum. Meðal annars barst athugasemd frá húsfélaginu Völundi, sem er sameiginlegt húsfélag eigenda íbúða að Klapparstíg 1, 1a, 3, 5, 5a og 7 auk Skúlagötu 10. Samtals er innan félagsins 121 íbúð. Sumar íbúðir að Skúlagötu 10 og Klapparstíg 1-3 snúa mót norðri og hafa því bæði svefnrými og útsýnisrými gegnt skipulagsreitnum, í nokkurra metra fjarlægð frá hinni nýju strætóstöð.

Í umsögn sem lögmaður sendi fyrir hönd Völundar segir m.a.:

„Umbjóðandi minn telur að deiliskipulagsbreytingin hafi í för með sér óhóflega mikil umhverfisáhrif, fyrst og fremst hljóð- og loftmengun auk annarra neikvæðra umhverfis- og nábýlisáhrifa sem hljótast af mikilli umferð stórra, oft dísilknúinna, ökutækja við eignir þeirra frá morgni til kvölds. Fjöldi íbúða á Völundarlóð hefur svefnherbergi sem snúa að skipulagsreitnum og því getur deiliskipulagsbreytingin haft truflandi áhrif á svefn íbúa og skert friðhelgi þeirra. Þess utan mun aukin umferð fólks á svæðinu hafa í för með sér truflandi áhrif þar sem gera má ráð fyrir að deiliskipulagsbreytingin auki verulega gegnumflæði fólks um garð sem liggur milli húsa innan lóðarinnar.“

Segir lögmaðurinn að Völundur mótmæli harðlega hinni auglýstu deiliskipulagstillögu. „Völundur áskilur sér jafnan rétt til að krefjast skaðabóta enda má ljóst vera að skipulagsbreytingin skerði verðmæti fasteignar þeirra umfram það sem við á um sambærilegar eignir í næsta nágrenni.“

Tveir íbúar í Klapparstíg 3 sendu inn harðorð mótmæli og sögðu m.a.:

„Íbúðin okkar er með fallegu útsýni út sundin, yfir Hörpuna og fjallahringinn frá Borgarfirði til Hengils í austri. Stofuglugginn okkar snýr að umræddum reit sem og svefnherbergin tvö. Ljóst er að þessi fáránlega ráðstöfun borgarinnar myndi rýra okkar gæði til muna, bæði varðandi útsýni, hljóðvist og loftmengun.“

„Fáránlegar fyrirætlanir“

Fara þau fram á að Reykjavíkurborg hætti við „þessar fáránlegu fyrirætlanir“ og velji þessari svokölluðu tímabundnu endastöð/skiptistöð annan og hentugri stað þar sem ekki sé brotið á hagsmunum og réttindum íbúa svæðisins.

Skipulagsstjóri Reykjavíkur svaraði athugasemdum íbúanna lið fyrir lið og má lesa svar hans á skipulagsgatt.is. Segir hann að breytingartillagan hafi ekki neikvæðari áhrif en það sem geti talist eðlilegt innan bæði núverandi nýtingar á landi og heimilda í gildandi deiliskipulag. Þá má sjá allar athugasemdir sem bárust á skipulagsgáttinni.

Deiliskipulagsbreytingin var samþykkt í umhverfis- og skipulagsráð þann 17. janúar 2024 og staðfest í borgarráði þann 25. janúar.

Væntanlega verður fljótlega gengið frá samningum við verktaka og munu framkvæmdir hefjast í framhaldinu.

Höf.: Sigtryggur Sigtryggsson