Karphúsið Vilhjálmur Birgisson formaður Starfsgreinasambandsins kemur til samningafundar í gærmorgun. Sólveig Anna mætti ekki.
Karphúsið Vilhjálmur Birgisson formaður Starfsgreinasambandsins kemur til samningafundar í gærmorgun. Sólveig Anna mætti ekki. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
„Núna er bara staðan snúin, erfið og viðkvæm,“ sagði Vilhjálmur Birgisson formaður Starfsgreinasambandsins inntur eftir stöðu mála í kjölfar ákvörðunar Eflingar um að mæta ekki til samningafundar breiðfylkingar stéttarfélaga ASÍ og Samtaka atvinnulífsins í Karphúsinu í gærmorgun

„Núna er bara staðan snúin, erfið og viðkvæm,“ sagði Vilhjálmur Birgisson formaður Starfsgreinasambandsins inntur eftir stöðu mála í kjölfar ákvörðunar Eflingar um að mæta ekki til samningafundar breiðfylkingar stéttarfélaga ASÍ og Samtaka atvinnulífsins í Karphúsinu í gærmorgun.

Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar kvaðst ekki sjá ástæðu til þess að mæta á fundinn, en efndi í staðinn til fundar með saminganefnd Eflingar í gærkvöldi.

Í samtali við Morgunblaðið sagði Sólveig Anna það líklegt að samninganefndin myndi ræða mögulegar verkfallsaðgerðir til þess að ná ásættanlegum árangri í kjaradeilunni. Sagði hún breiðfylkingu stéttarfélaganna enn standa þétt saman.

„Við slítum okkur ekki frá breiðfylkingunni, þetta eru okkar góðu félagar og við erum í miklum og nánum samskiptum við þá.“

Fyrir neðan allar hellur

Aðspurður sagði Vilhjálmur ákvörðun Eflingar ekki hafa komið sér á óvart, enda væru hann og Sólveig Anna fullkomlega samstíga í þessum efnum og hefði misboðið vegna krafna SA.

„Það var atburðarás sem teiknaðist upp í gær sem var algjörlega fyrir neðan allar hellur.“

Kvaðst Vilhjálmur sammála fullyrðingum Sólveigar Önnu um að SA hefði sett fram kröfur á Eflingu og SGS um launalækkanir lágtekjufólks, sem færi fram á hófstilltar launahækkanir til að ná fram stöðugleika, í þágu launahækkana hálaunafólks innan ASÍ.

Sagði Vilhjálmur tímann einan leiða það í ljós hvort hægt yrði að leysa úr málinu en að það gerðist að sjálfsögðu ekki án samtals.

„Okkur er misboðið en hlutverkið er að athuga hvort hægt sé að vísa Samtökum atvinnulífsins á rétta og heilbrigða braut,“ sagði Vilhjálmur að lokum. idunn@mbl.is