Baksvið
Baldur Arnarson
baldura@mbl.is
Sala þakíbúða á Heklureitnum í Reykjavík er að hefjast en þær verða afhentar haustið 2025. Íbúðirnar verða á Laugavegi 168 en þar verða 82 íbúðir.
Örn V. Kjartansson, framkvæmdastjóri og einn eigenda fyrirtækisins sem byggir á Heklureit, segir hinn góða fyrirvara gera kaupendum þakíbúðanna kleift að velja innréttingar og hafa áhrif á herbergjaskipan.
„Við bjóðum níu þakíbúðir í fyrsta húsinu á Laugavegi 168 sem er nú í byggingu. Það eru stærstu íbúðirnar og hafa það sem við köllum þakgarða, eða stórar þaksvalir. Fyrsta húsið verður átta hæðir við Laugaveg. Það stallast svo niður til suðurs [að Brautarholti] og þannig verða til þakíbúðir á hverri hæð með þakgarði þar sem er meðal annars gert ráð fyrir heitum potti.
Góður fyrirvari
Undirbúningur að kaupum á innréttingum þarf að eiga sér stað töluvert áður en íbúðirnar koma til afhendingar. Við erum því að stíga þetta skref að bjóða þakíbúðirnar með góðum fyrirvara. Þá getur kaupandi fest sér íbúð með innborgun og í framhaldi af því tekið þátt í að ráða fyrirkomulagi innan íbúða,“ segir Örn. Þá til dæmis með vali á léttum milliveggjum og útfærslu á eldhúsi og baðherbergjum.
Sömuleiðis gefi hinn góði fyrirvari kaupendum rúman tíma til að selja og flytja úr núverandi fasteign þannig að vel falli að afhendingu þakíbúðarinnar.
Sérhannaðar innréttingar
„Við sjáum að það hefur breyst á markaðnum að aðilar eru tilbúnir að taka ákvarðanir með meiri fyrirvara en hefur tíðkast. Sérstaklega með þessar gerðir af íbúðum. Íbúðirnar verða mjög vel búnar. Við erum með sérhannaðar ítalskar innréttingar og flytjum sjálfir inn ítalskan stein í íbúðirnar. Einnig eru þaksvalirnar, eða þakgarðarnir, stærri en tíðkast hefur á markaðnum. Þannig að við erum að vanda vel til verka,“ segir Örn. Hann segir aðspurður að kaupverð þakíbúðanna sé ekki tengt við vísitölu enda muni kaupandinn greiða samhliða uppbyggingu. Þ.e. við staðfestingu, fokheldi hússins og við afhendingu.
Þakíbúðirnar kosta frá 169 milljónum. Tvær þakíbúðir verða á 8. hæðinni, um 200 og 240 fermetrar, og kostar sú stærri yfir 350 milljónir. Báðum fylgja tvö einkastæði í bílakjallara en öðrum þakíbúðum fylgja einnig einkastæði.
Fordæmi fyrir forsölu
Fordæmi eru fyrir forsölu þakíbúða af þessu tagi. Til dæmis við Austurhöfn og Ánanaust í Reykjavík en síðarnefnda fjölbýlishúsið er nú í byggingu. Uppsteypa á Heklureitnum hófst í ágúst í fyrrasumar. Áformað er að hefja almenna sölu íbúða næsta haust eða vor 2025 og að framkvæmdum við fyrsta húsið ljúki fyrir haustið 2025.
Allt að 450 íbúðir
Reisa á allt að 450 íbúðir á Heklureitnum, ásamt þjónustu- og verslunarhúsnæði á jarðhæðum. Nú er verið að byggja 186 íbúðir í 1. áfanga á reitum A og B á Laugavegi 168 og 170. Framkvæmdir við reiti C, D og E hefjast síðar. Mun húsið austast á reitnum standa við hlið gamla Útvarpshússins á Laugavegi 176, sem er verið að breyta í Hyatt-hótel.