Laugavegur 67 Verslun sem selur útivistarvörur er nú starfandi í húsinu.
Laugavegur 67 Verslun sem selur útivistarvörur er nú starfandi í húsinu. — Morgunblaðið/sisi
Kvóti fyrir veitingahús við Laugaveg, eina helstu verslunargötu borgarinnar, er óðum að fyllast. Ekki fékkst leyfi hjá Reykjavíkurborg fyrir rekstri veitingastaðar í húsinu nr. 67 við Laugaveg. Skipulagsfulltrúi borgarinnar tók neikvætt í beiðnina…

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Kvóti fyrir veitingahús við Laugaveg, eina helstu verslunargötu borgarinnar, er óðum að fyllast.

Ekki fékkst leyfi hjá Reykjavíkurborg fyrir rekstri veitingastaðar í húsinu nr. 67 við Laugaveg. Skipulagsfulltrúi borgarinnar tók neikvætt í beiðnina þar sem slíkur rekstur samræmist ekki götuhliðarkvótum samkvæmt þróunaráætlun miðborgar eins og það er orðað. Í dag er rekin í húsinu verslunin Fjallarefurinn, sem selur útivistarvörur.

Á afgreiðslufundi skipulagsfulltrúa var lögð fram fyrirspurn arkitektastofunnar DAP ehf., dags. 9. nóvember 2023, um rekstur veitingastaðar í húsinu á lóð nr. 67 við Laugaveg. Fyrirspurninni var vísað til umsagnar verkefnastjóra.

Fram kemur í umsögn verkefnastjórans að húsið á lóð nr. 67 við Laugaveg sé verslunar- og skrifstofuhúsnæði með íbúð á efri hæð, byggt árið 1925 skv. fasteignaskrá. Það er því friðað samkvæmt lögum um menningarminjar frá 2012, sem segir að eigendum húsa og mannvirkja, sem byggð eru 1925 og fyrr, sé skylt að leita álits hjá Minjastofnun Íslands ef þeir hyggist breyta þeim, flytja eða rífa.

Spurt er um um rekstur veitingastaðar í húsinu á þeim forsendum að verið sé að breyta öðru verslunarrými við götuna úr veitingastað í snyrtistofu.

Ákvæði um 50% hámark

Síðan segir orðrétt í umsögn verkefnastjórans:

„Umrædd lóð er innan skilgreinds götusvæðis nr. 9 í miðborg skv. aðalskipulagi Reykjavíkur, þ.e. Laugavegur, báðar hliðar, frá Vitastíg að Snorrabraut. Á götusvæði nr. 9 er ákvæði um 50% á hámarkshlutfall smásöluverslunar skv. þróunaráætlun miðborgarinnar í aðalskipulagi.

Rýmið sem til stendur að breyta úr veitingastað í snyrtistofu er innan skilgreinds götusvæðis nr. 8 í miðborg Reykjavíkur skv. aðalskipulagi, þ.e. Laugavegur, báðar hliðar, frá og með Laugavegi 23 og 24 til og með Vitastíg.

Á götusvæði nr. 8 eru ákvæði um lágmark 70% smásöluverslun. Breyting innan þess svæðis hefur ekki áhrif á hlutföll smásöluverslunar á götusvæði nr. 9. Því er tekið neikvætt í erindið.“

Höf.: Sigtryggur Sigtryggsson