[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fræðirit Kynlegt stríð ★★★★· Eftir Báru Baldursdóttur. Bjartur, 2023. Innb., 207 bls., skrár um heimildir og myndir.

Bækur

Sölvi

Sveinsson

Á fremri kápusíðu er undirtitill bókar en ekki á titilsíðu, „Ástandið í nýju ljósi“, og er það rétt því að hér er stuðst við heimildir sem hafa verið lokaðar fræðimönnum, skjöl frá Jóhönnu Knudsen sem voru innsigluð allt til 2011 og gögn Ungmennadóms Reykjavíkur sem settur var á stofn með bráðabirgðalögum í árslok 1941 „til þess að koma böndum yfir óstýrilátar unglingsstúlkur“ (11). „Það er ekki ætlun mín að varpa sök né ábyrgð á einstakar persónur eða stofnanir“ segir höfundur, „heldur er þetta tilraun til að greina samspil og átakafleti milli valdastofnana, fjölmiðla, stjórnmálaflokka, félagasamtaka og einstaklinga sem áttu hlut að máli“ (17-18). Það hefur tekist, en sannarlega voru þetta skrítnir tíma. Yfirvöld söfnuðu ,upplýsingum‘ um „einkalíf íslenskra kvenna sem á sér enga hliðstæðu í íslenskri sögu“ (18).

Konur voru sem næst ósýnilegar á pólitískum vettvangi á millistríðsárunum; þeirra akur var heimilið. Kvenréttindahreyfing var þó glaðvakandi, a.m.k. hinn róttækari hluti. Hugmyndir um kynfrelsi og kynfræðslu bárust út hingað á þessu skeiði, ýmsum til hrellingar. Ný tíska var ekki mikils metin meðal hinna íhaldssömu, varalitir og naglalakk eitraðar táknmyndir. Íslenskar stúlkur áttu að vera rjóðar í vöngum og ala heilbrigð börn í ástríku hjónabandi. En svo kom stríðið og landið var hernumið.

Bresku hermennirnir urðu flestir um 30.000, en 1942-3 leystu um 50.000 bandarískir dátar þá af. Landsmenn voru þá rúmlega 120 þús., þar af 38.000 í Reykjavík. Strax á hernámsdaginn 1940 lýstu lögregluyfirvöld yfir „miklum áhyggjum vegna nokkurra stúlkna“ (32) sem þóttu nærgöngular við hermenn. Það var forsmekkur þess sem koma skyldi. Stjórnmálamenn, veraldleg og andleg yfirvöld, dagblöðin lýstu yfir megnri óánægju og fordæmdu „sókn kvenna“ í hermenn; Þjóðviljinn ásakaði hins vegar hermennina meðan griðasamkomulag Hitlers og Stalíns hélt. Fáar konur reifuðu málið á opinberum vettvangi. Árin 1938-46 sat engin kona á þingi. Fram komu hugmyndir um að hækka sjálfræðisaldur kvenna upp í 21 ár (47).

Hæstum hæðum náði þessi sefjun hjá Jóhönnu Knudsen (1897-1950), fyrsta kvenlögregluþjóns landsins, ráðin 1942. Hún stóð fyrir rannsóknum á siðferði kvenna og átti marga aðstoðarmenn. Hún skráði ,upplýsingar‘ um 826 konur frá unglingsaldri upp í 60-70 ára, margar konur rötuðu í bækur Jóhönnu einungis vegna þess að þær sáust á gangi með hermanni eða fóru á dansleik til þeirra. Jóhanna skráði upplýsingar um 68 „tortryggileg“ heimili (63); hún fór beinlínis hamförum í sókn sinni; ekki virðist barnavernd hafa verið hátt skrifuð. „Ástandsnefndin“ skilaði áliti og fram kom tillaga að allar 12-16 ára stúlkur yrðu fluttar úr borginni frá karlmönnum á „óstýrilátasta kynþroskaaldri“ (84). Mönnum þótti sem íslensk menning og þjóðerni væru í bráðri hættu. Hér ber að hafa í huga að á þessu skeiði átti mannkynbótastefna ítök í mörgum sálum, ekki mætti spilla „stofninum“ með blóði hermanna eða annarra útlendinga; þegar Bandaríkjamenn tóku við af Bretum var t.d. áskilið að hingað yrðu ekki sendir hermenn af afrískum ættum (94). Jafnframt skall hernámið á þegar stutt var í lýðveldisstofnun og þjóðernissótthiti herjaði á marga.

Með bráðabirgðalögunum 1941 var yfirvöldum heimildað að fylgjast með ungmennum til 20 ára aldurs og sérstakur ungmennadómstóll var stofnaður innan sakadómsins í Reykjavík; aldurstakmarkið var síðan lækkað í 18 ár. Ungmennaeftirlitið sendi 113 mál til dómstólsins sem úrskurðaði í 42 málum (101); einungis þrjú þeirra vörðuðu drengi. Upptökuheimili fyrir ,stúlkur á glapstigum‘ var stofnað á Kleppjárnsreykjum 1942 og eru lýsingar á starfseminni býsna kaldranalegar, svo ekki sé nú fastar kveðið að orði; heimilið var lagt niður haustið ’43 og furðulegt að það hafi verið undanskilið við rannsókn á vistheimilum ríkisins.

Ranglega er farið með nafn Símonar Jóh. Ágústssonar sem hét Jóhannes að millinafni en ekki Jóhann. Öll er þessi saga með ólíkindum og furðu gegnir hvað yfirvöld voru ginnkeypt fyrir ofstopanum, í raun makalaust hvað ólík hagsmunaöfl sungu samstillt í kór. Kynlegt stríð er reyfarakennd bók um furðulega atburðarás í seinni heimsstyrjöld.