Guðmundur Ingi Guðbrandsson
Guðmundur Ingi Guðbrandsson
Frumvarpið aðlagar löggjöfina breyttum aðstæðum og þannig nær greiðsluaðlögunin betur til þeirra sem eru í mestri þörf fyrir hana í dag.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson

Frumvarp sem auðveldar greiðsluaðlögun einstaklinga varð að lögum í síðustu viku. Um er að ræða breytingar sem munu snerta fjölda fólks og eru mikilvægar því með þeim eflum við aðstoð við þau sem einna verst standa fjárhagslega í samfélaginu og búum til betra velferðarsamfélag. Markmið breytinganna er skýrt: Að ná enn betur en áður til fólks sem stendur frammi fyrir verulegum fjárhagserfiðleikum.

Lög um greiðsluaðlögun einstaklinga voru fyrst sett árið 2010, þar sem knýjandi þörf var fyrir úrræði til að takast á við þann vanda sem til kom vegna bankahrunsins og efnahagskreppunnar sem fylgdi í kjölfarið. Úrræðið um greiðsluaðlögun hefur margsannað gildi sitt og gert verulegum fjölda fólks í fjárhagsvanda kleift að endurskipuleggja fjármál sín. Umboðsmanni skuldara, sem sinnir úrræðinu, hafa borist yfir 8.700 umsóknir frá upphafi.

Frumvarpið sem nú er orðið að lögum aðlagar löggjöfina breyttum aðstæðum og þannig nær greiðsluaðlögunin betur til þeirra sem eru í mestri þörf fyrir hana í dag. Séu tölur fyrir árið 2023 skoðaðar var langstærsti hluti umsækjenda um greiðsluaðlögun á leigumarkaði eða í félagslegri leigu (70%), 43% umsækjenda voru á örorkulífeyri og 18% voru án atvinnu.

Í stjórnarsáttmála er meðal annars kveðið á um að efla almannaþjónustu með það að markmiði að bæta lífskjör þeirra sem verst standa. Með lagabreytingunni verður úrræðið um greiðsluaðlögun að heildstæðari lausn en verið hefur og málsmeðferð verður skýrari og skilvirkari.

Sem dæmi má nefna að fleiri geta nú sótt um greiðsluaðlögun en áður, málsmeðferð er breytt með hag skuldara í huga og hægt verður að óska eftir lækkun á veðsetningu þannig að hún miðist við markaðsverðmæti fasteignar. Einnig er brugðist við þeim aðstæðum sem uppi eru í þjóðfélaginu núna þegar greiðslubyrði veðlána fer hækkandi vegna hás vaxtastigs, en lögin leyfa nú gjaldfrest eða lægri afborganir veðlána í ákveðinn tíma. Þá er tekið sérstaklega á ábyrgðarskuldbindingum á námslánum þannig að þær heyri nú undir greiðsluaðlögunarúrræðið, en fyrir breytinguna voru engar lögbundnar lausnir til staðar fyrir ábyrgðarmenn námslána sem lenda í greiðsluerfiðleikum.

Ég er því stoltur og ánægður með að frumvarpið sé orðið að lögum og þakka öllum þeim sem lögðu hönd á plóg að gera það að veruleika.

Höfundur er félags- og vinnumarkaðsráðherra.

Höf.: Guðmundur Ingi Guðbrandsson