Kjartan Magnússon
Kjartan Magnússon
Dýrmætt er fyrir borgarstjórn að funda reglulega með fulltrúum ungmennaráða og kynnast sjónarmiðum þeirra.

Kjartan Magnússon

Sumarstörf, skólamál, samgöngur og félagsmál eru reykvískum ungmennum ofarlega í huga að því er fram kom á sameiginlegum fundi borgarstjórnar og Reykjavíkurráðs ungmenna sl. þriðjudag. Fjölmargar góðar ábendingar komu fram á fundinum um það sem betur má fara í málefnum ungmenna.

Ungmennaráð eru vettvangur fyrir unglinga yngri en átján ára til að láta til sín taka við mótun samfélagsins. Sex ungmennaráð eru starfandi í Reykjavík og eiga þau samstarfsvettvang, sem nefnist Reykjavíkurráð ungmenna. Fulltrúar úr Reykjavíkurráðinu funda árlega með borgarstjórn og fá þar tækifæri til að vinna málefnum sínum brautargengi með umræðum og tillöguflutningi.

Á fundinum sl. þriðjudag kynntu ungliðarnir sjö tillögur um margvísleg málefni. Tillögurnar verða síðan teknar til frekari umfjöllunar og afgreiðslu í nefndum og ráðum borgarinnar.

Sanngirni í launamálum

Fulltrúar ungmennaráðs Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða leggja til að borgarstjórn samþykki að hækka laun unglinga í Vinnuskóla Reykjavíkur næsta sumar í samræmi við breytingar á launavísitölu frá síðustu launahækkun.

Tilefni tillögunnar er sú ákvörðun meirihluta Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar að láta laun unglinga í Vinnuskólanum ekki halda verðgildi sínu síðasta sumar heldur miða við launatöflu frá árinu 2022. Þessi launafrysting misbauð réttlætiskennd unglinganna og hafði kjararýrnun í för með sér fyrir þá, enda hækkaði almenn launavísitala um 9% á milli ára. Síðasta sumar voru því langlægstu launin til vinnuskólaunglinga á höfuðborgarsvæðinu greidd í Reykjavík.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu ítrekað til um sumarið að laun unglinganna hækkuðu í samræmi við vísitölu. Borgarfulltrúar meirihlutans vildu hins vegar ekki ræða málið í borgarstjórn og felldu tillögu Sjálfstæðisflokksins um leiðréttingu til handa unglingunum, í borgarráði, þegar langt var liðið á sumarið.

Vonandi verða kjör í unglingavinnunni leiðrétt næsta sumar. Yngsta starfsfólk borgarinnar á betra skilið, enda sinnir það mikilvægum verkefnum á sviði hreinsunar, fegrunar og viðhalds.

Efla þarf strætó

Samgöngur eru unga fólkinu ofarlega í huga og telur það mikilvægt að bæta strætisvagnaþjónustu í eystri hluta borgarinnar. Fulltrúar ungmennaráðs Árbæjar og Holta leggja til að bætt verði við nýrri strætóleið fyrir íbúa Árbæjar, Norðlingaholts og Grafarholts. Ljóst er að slík leið myndi stórbæta tengingar á milli þessara hverfa. Slíkum tengingum er nú ábótavant eins og unglingarnir benda á.

Þá lögðu fulltrúar ungmennaráðs Kjalarness til að strætisvagnaþjónusta við hverfið yrði bætt og ferðatíðni aukin.

Starfsemi félagsmiðstöðva

Þrjár tillögur ungmennaráðanna snerta starf félagsmiðstöðva borgarinnar. Fulltrúar ungmennaráðs Laugardals, Bústaða og Háaleitis vilja að kvöldafgreiðslutími félagsmiðstöðva verði lengdur að nýju til kl. 22 virka daga en hann var styttur á liðnu hausti. Jafnframt að framvegis verði haft samráð við ungmennaráðin þegar hugmyndir koma fram um breytingar á frístundastarfi unglinga.

Sömu fulltrúar leggja einnig til að sértæku félagsmiðstöðinni Öskju í Klettaskóla verði gert kleift að hafa kvöldopnun tvisvar í viku í stað eins kvölds nú.

Þá leggja fulltrúar í ungmennaráði Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða til að starfsemi Hinsegin félagsmiðstöðvarinnar í Spennistöðinni við Austurbæjarskóla verði tryggð og að hún fái fastan sess sem slík.

Athyglisverð tillaga kemur frá ungmennaráði Breiðholts um að vægi nútíma samfélagsfræðikennslu verði aukið í grunnskólum og þar með umfjöllun um það sem er efst á baugi í samfélaginu hverju sinni.

Ungmennaráðsliðarnir fluttu tillögur sínar vel og skörulega og síðan voru málin rædd af hreinskilni og hispursleysi. Er dýrmætt fyrir okkur borgarfulltrúa að fá að funda reglulega með fulltrúum ungmennaráðanna og heyra sjónarmið þeirra milliliðalaust.

Höfundur er borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.

Höf.: Kjartan Magnússon